Skriflegar athugasemdir frá Helga Sk. Kjartanssyni, cand. mag., í upphafi málsins voru til skilningsauka. Hann las yfir handrit á lokastigi og benti á ýmislegt, sem betur mátti fara.

 

Á 19. öld hófu íslendingar útgerð fiskiskipa óháð sveitabúskap. Efldist hún verulega, eftir því sem leið á öldina. Ýmsar takmarkanir voru á vistráðningu og á hjúskap og búsetu snauðra til að varast sveitarþyngsli. Engin dæmi eru kunn frá síðari hluta 19. aldar um, að þessar takmarkanir hafi tafið nýmæli í atvinnuháttum. Með eflingu útgerðar og bættum efnahag fjölgaði þeim, sem urðu óháðir takmörkununum, og síður varð ástæða til að varast ómegð snauðra. Um leið kom fram sá skilningur bænda og útgerðarmanna, að almenn lausamennska yrði í þágu þeirra. Þá losaði Alþingi um takmarkanirnar.

 

Á síðari hluta 19. aldar voru ráðningarskilmálar mikið til umræðu hér á landi, m.a. á Alþingi.[1] Hér verður fjallað um þá, eins og þeir voru, þegar Alþingi fékk löggjafarvald 1874, og fram yfir aldamót.[2] Á þessum árum voru nokkur umbrot í atvinnumálum landsmanna, sem knúðu á um breytingar á ráðningarskilmálum í reynd og samkvæmt lögum.[3]

 

Vinnuveitendur og sjálfstætt fólk

Bændur voru kjarni vinnuveitenda. Sumir þeirra, sem bjuggu fjarri sjó, fóru á vertíð til róðra hjá sjávarbændum eða sendu vinnumenn sína í verið. Vinnuveitendur í kaupstöðum voru verslunarfyrirtæki með verslunarstjóra, innanbúðarmenn og utanbúðarmenn. Kaupmenn og embættismenn, þótt þeir byggju í þorpi við sjávarsíðuna, höfðu gjarna búskap til heimilisþarfa og réðu til sín vinnumenn og vinnukonur. Fiskiskipaútgerð var nokkur (þilskip) og var í eigu kaupmanna og bænda. Iðnaðarmenn voru fáeinir. Þeir störfuðu fyrir eiginn reikning og tóku nema (lærlinga). Húsmenn og þurrabúðarmenn voru sjálfstæðir. Húsmenn voru til sveita, höfðu húsnæði hjá bónda og einhver jarðarafnot með vinnu sinni og stunduðu aðra atvinnu sér til framfæris. Þurrabúðarmenn voru við sjávarsíðuna, réðu húsum sínum, höfðu litla lóð til afnota, unnu hjá öðrum, en áttu sumir fiskibát og verkuðu aflann og réðu þá fólk til vinnu.

 

Launþegar

Samkvæmt konunglegum tilskipunum frá 1863 um lausamenn og húsmenn og frá 1866 um vinnuhjú voru þeir, sem náð höfðu 16 ára aldri, skyldir að vera í vist. Undanþegnir voru þeir, sem höfðu 5 hundruð á landsvísu í árságóða af fasteignum eða öðru fé. Aðrir, sem náð höfðu 25 ára aldri, gátu leyst sig undan vistarskyldu með leyfisbréfi frá lögreglustjóra, og kostaði bréfið karl eitt hundrað á landsvísu og konu hálft hundrað. Sú fjárhæð var um það bil eins mikil og árskaup vinnufólks á þessum árum.[4] Sumt yngra fólk, nefnilega ekkjur, ekklar og yfirgefnar eiginkonur eða þeir, sem höfðu eitt hundrað á landsvísu í ársarð af fasteignum eða öðru fé, gat tekið leyfisbréf. Borgunarlaust gátu þeir fengið leyfisbréf, sem höfðu búið 15 ár og goldið árlega til allra stétta, og þeir, sem höfðu staðið í vinnuhjúastétt 20 ár og fengið jafnan góðan vitnisburð.

Þeir, sem voru vistarskyldir, réðu sig til næstu skildaga, en þeir voru víðast hvar í maí. Reglan var bundin í lögum. Vinnuveitandi gat ekki sagt þeim upp. Skuldbindingin var gagnkvæm, en fólk gat fengið sig leyst úr vist vegna ráðahags. Ungt fólk í foreldrahúsum gat ráðið sig til styttri tíma hjá sveitungum eða farið í verið. Ekki voru ákvæði um ráðningu annarra, nema embættismanna.

Vinnuhjúi var heimilt að ráða sig í vist hjá tveimur eða fleirum, til helminga, þriðjunga o.s.frv., „eins og verið hefir“, sagði í tilskipuninni. Mér er ókunnugt um, hvernig þetta var framkvæmt og hvort það kom einungis fyrir á meðal nágranna eða líka á meðal vinnuveitenda, sem langt var í milli, t.a.m. sveitabónda og sjávarbónda.

Vinnuveitendur gátu sent mann í vinnu til annarra. Var það helst þannig, að bændur sendu vinnumenn í verið, og stóð vertíð mislengi eftir landshlutum. Það hafði verið regla, að bóndi fengi hlut sjómannsins. Þegar leið að aldamótum varð algengt sunnanlands og vestan, að vinnumenn, sem fóru til róðra á vetrarvertíð, fengju í árskaup hálfan hlut.[5] Frá sjávarsíðunni fóru margir á sumrin í kaupavinnu upp til sveita, ýmist á vegum sjávarbænda eða á eigin vegum.

Fæði og stundum klæði var innifalið í laununum ásamt húsnæði. Víða fengu vinnumenn að hafa eigið sauðfé á fóðrum. Gekk fóðrið upp í kaupið. Þannig gátu menn komist í nokkur efni, sem nota mátti til bústofnunar.

Ákvæðin um vistarskyldu gerðu engan mun á, hvort menn áttu heima í sveit eða við sjó. Kaupmaður og útvegsmaður gat því ráðið eins margt fólk til sín og honum þóknaðist, en með sama skilyrði og bændur, að ráða til ársins, og eins var um embættismenn, t.a.m. í Reykjavík.

Vistarskyldan varðaði sýnilega aðeins þá, sem ekki gátu sannað, að þeir væru færir um að sjá sér farborða. Allmikið var um, að vistarskyldan væri vanrækt, og var hilmað yfir með mönnum. Dæmi þess er m.a., að eftir 1880 fór að tíðkast, að gagnfræðingar réðust til kennslu að vetrinum, en sáu um sig sjálfir á sumrin, og búfræðingar réðust í jarðabótavinnu á sumrin og sáu um sig sjálfir að vetrinum, utan við vistarband, en þó án leyfisbréfs, og það jafnvel þótt meðal vinnuveitenda þeirra væru stjórnvöld (hreppsnefndir og sýslunefndir).[6]

 

Á þessum árum jókst útgerð þilskipa. Þar bauðst sjómönnum þokkaleg afkoma. Á þilskipum var allmikið af mönnum í þurrabúð, sem voru því undanþegnir vistarskyldu. Fiskveiðar á þilskipum voru mest stundaðar á sumrin, á þeim tíma, sem mest þörf var fyrir fólk við landbúskap. Útvegsmenn þilskipa höfðu síður þörf fyrir fólk að vetri til, en þá, sem bjuggu við vistarband, varð að ráða til ársins, eins og áður sagði. Öðru máli gegndi, þegar vinnumenn í sveit fóru til róðra á vetrarvertíð sunnanlands og vestan, að þá var þeirra síst þörf heima fyrir, þar sem vertíð árabáta lauk fyrir vor- og sumarannir til sveita. (Um norðanvert landið, frá Breiðafirði til Austfjarða, var vertíð árabáta hins vegar á sumrin.)

Árferði var misjafnt, og hafði alþýða manna löngum búið við öryggisleysi um afkomu. Afkoma þeirra, sem ekki sátu jörð eða í embætti, var yfirleitt ótryggari en annarra. Oft komst það fólk á vonarvöl og þurfti að segja sig til sveitar. Meginviðfangsefni sveitarstjórna var að sjá um framfærslu ómaga með því að leggja gjöld á þá, sem betur máttu. Það var keppikefli landstjórnarmanna að haga svo málum, að ómögum fjölgaði ekki, heldur fækkaði. Helsta ákvæði í þeim efnum var í konunglegri tilskipun frá 1824, sem bannaði þeim að giftast, sem þægi af sveit eða stæði í skuld við sveit fyrir þeginn styrk, nema því aðeins að sveitarstjórn lýsti því yfir, að hún hefði ekkert að athuga við stofnun slíks hjónabands. Um húsmenn og þurrabúðarmenn var það ákveðið með konunglegri tilskipun frá 1863, að þannig máttu menn ekki setjast að nema fá til þess leyfi hjá sveitarstjórn. Var henni skylt að rökstyðja leyfissynjun skriflega, og mátti áfrýja til sýslumanns, og enn mátti áfrýja úrskurði sýslumanns til amtmanns. Menn öðluðust sveitfesti á 10 árum, þ.e. framfærsluskylda varð hjá dvalarsveit eftir þann tíma.

Öruggast framfæri áttu embættismenn, kaupmenn, bændur og vinnufólk. Vinnufólk bjó hins vegar við svo þröng kjör, þótt vistin væri trygg, að það gat ekki stofnað heimili og alið þar önn fyrir börnum. Öryggi lausamanna um afkomu var vitaskuld háð afkomu þeirra, sem þeir buðu vinnu. Fólk, sem var ráðið til ársins, naut öryggis í veikindum og slysum út ráðningartímann, en þeir, sem náðu ekki heilsu, máttu búast við að fá ekki ráðningu aftur, heldur verða að segja sig til sveitar. Embættismenn gátu ráðið nokkru um, hve lengi þeir sátu í embætti, og fengu síðan eftirlaun.[7]

Reglur þær um búsetu og ráðningu, sem hér hefur verið gerð grein fyrir, gerðu ekki mun á atvinnuvegum. Takmarkanir á rétti til að setjast í þurrabúð (við sjóinn) eða gerast húsmaður (í sveit) höfðu vafalaust meira gildi við sjávarsíðuna. Var það sett á vald sveitarstjórnar að bægja fólki frá. Aldalöng reynsla var fyrir því, að búðseta væri ótrygg, og var svo enn á þessum árum.[8] Sveitarstjórnir lögðu sig fram um að bægja frá fólki, sem ekki var treyst til að sjá sér farborða til lengdar, áður en það næði sveitfesti. Var það jafnt til sjávar og sveita. Var það gert með tilliti til áðurnefnds ákvæðis um sveitfesti.

Sýnt var fram á það með rökum, að vistarskyldan var vinnuveitendum í óhag. Átti það jafnt við um útvegsmenn og bændur. Varðandi bændur voru rökin þau, að vinnufólk væri svo tryggt með vistarbandinu, að það mætti ekki reka, á hverju sem gengi. Lausamenn yrðu því duglegri. Hábjargræðistíminn væri stuttur, og af honum hefði bóndinn ágóða, en um veturinn vantaði arðgæf verkefni (þar sem menn fóru ekki í verið, innskot BSt) og því væri hæpinn ágóði af að framfleyta fólki allan veturinn. Einfaldara væri að mega ráða fólk í annirnar á góðu kaupi og láta það svo sjá um sig sjálft aðra tíma ársins.[9] Líkt var með þilskipaútveginn, sem var orðinn nokkurs megnugur á Vesturlandi og á Vestfjörðum. Þar var mest þörf fyrir fólk á sumrin, karla á skipin og konur í fiskverkun, en minni atvinna að vetrinum.

Á þessum árum hófust Vesturheimsferðir. Voru þær umdeildar. Meðal annars þótti það að varast, að menn hlypu frá ómegð, sem lenti þá á herðum sveitarstjórnar og þeirra, sem greiddu til sveitarsjóðs, og voru um það ákvæði í lögum frá 1887. Eftir sem áður vofði það alltaf yfir hreppsnefndum, sérstaklega til sveita, að fá til framfærslu fólk, sem hafði hleypt heimdraganum, en vegnað illa og verið sent heim á sveit sína, ef til vill með börn.

 

Losað um með nýjum lögum

Með batnandi afkomu varð minni hætta á sveitarþyngslum af ómögum, og var þá dregið úr opinberu forræði varðandi búsetu. Með lögum um þurrabúðarmenn frá 1888, sem komu í stað tilskipunar um lausamenn og húsmenn frá 1863, þurftu menn að sanna með vottorði tveggja skilríkra manna, að þeir væru reglumenn og ráðdeildarsamir og að þeir ættu tiltekin lágmarksefni. Var vald sveitarstjórnar til að synja manni búðsetu því gert skilyrt. Utan kaupstaðar eða verslunarstaðar máttu menn ekki byggja þurrabúð, nema lóð fylgdi búðinni með matjurtagarði og húsakynni væru sæmileg.

Árið 1894 var losað verulega um vistarskylduna. Þá var hverjum þeim manni, sem var 22 ára að aldri, heimilt að leysa sig undan vistarskyldunni með því að taka leyfisbréf gegn gjaldi. Var það 15 kr. á karl og 5 kr. á konu, en það svaraði til um 2 mánaða kaups vinnufólks í sveit.[10] Sá, sem var fullra 30 ára, fékk leyfisbréfið ókeypis. Eftir sem áður var hverjum manni skylt að hafa fast ársheimili.

Enn var losað um með lögum um lausamenn, húsmenn og þurrabúðarmenn árið 1907. Var þar ákveðið, að þeir, sem hefðu 200 kr. í árságóða af fasteignum eða öðru fé, mættu vera lausamenn. Þeim, sem voru 20 ára að aldri eða að fullu fjár síns ráðandi, var heimilt að taka leyfisbréf. Var gjald fyrir það óbreytt, en það svaraði þá til um mánaðarkaups vinnufólks í sveit.[11] Felld var niður heimild sveitarstjórnar til að synja manni um leyfi til að setjast í húsmennsku eða þurrabúð. Lög þessi standa enn, en langt mun vera síðan þeim hefur verið framfylgt.

 

Fyrst breyttust atvinnuhættir, síðan lögin

Nýmæli í atvinnuháttum efldust á síðari hluta 19. aldar. Munaði þar mest um þilskipaútgerð til fiskveiða. Ég hef ekki orðið þess var í prentuðum heimildum um upphaf hennar og viðgang,[12] að komið hafi fyrir, að útgerðina hafi vantað vinnuafl vegna vistarskyldu eða takmarkana á rétti manna til að setjast í þurrabúð né séð dæmi um, að þau ákvæði hafi tafið nýmæli í atvinnuháttum. Ég hef ennfremur spurt ýmsa menn kunnuga þessum tíma um það, en þeir hafa ekki þekkt nokkurt dæmi slíks og ekki talið líklegt, að þau fyndust. Fullyrðingar um, að þessi ákvæði hafi tafið nýmæli í atvinnuháttum, hafa engu að síður komið iðulega fram undanfarið.[13]

Annað mál er það, að í umræðum á Alþingi og í ýmsum ritgerðum frá síðari hluta 19. aldar voru höfð í frammi andmæli við að losa um fyrrgreind ákvæði með þeim rökum, að þá mundi vanta vinnufólk til landbúnaðar. Það er eins og gengur í umræðum, að ekki eru allir jafnskýrir, og aðrir bera við rökum, sem þeir halda, að skjólstæðingum þeirra líki að heyra. Skal því minnt á, að engin ákvæði bönnuðu útgerðarmanni (kaupmanni) að ráða fólk til vinnu, og vinnufólki var heimilt að ráða sig til annars vinnuveitanda þann hluta ársins, sem útgerðarmanni hentaði síður. Enn var það, að bæjarstjórn hafði á valdi sínu að takmarka búðsetu, en það var ekki á valdi forsvarsmanna bænda.

Kringumstæður og viðhorf breyttust á þessum áratugum. Sumir vísuðu til þess, sem var að verða ríkjandi í Danmörku, og töldu það rétt verkafólks að þurfa ekki að ráða sig í ársvist. Með Vesturheimsferðum létti mjög ómegð á þjóðinni, einkum norðanlands og austan, og um leið batnaði hagur manna sunnanlands og vestan með eflingu sjávarútvegs. Af því leiddi, að dró úr ótta manna, sem mótast hafði um aldir, við það, að búðseta greiddi fyrir fjölgun fólks, sem ekki mundi geta séð sér farborða. Rök Hermanns Jónassonar í Búnaðarriti 1888 um, að lausamaður mundi reynast betur í starfi en vistbundinn, komu einmitt fram, þegar forsendur höfðu breyst þannig, enda rýmkaði Alþingi verulega um í þessum efnum skömmu síðar með lögum 1894.

Nú varð það hlutskipti æ fleiri að vinna fyrir daglaunum. Síðar fór að tíðkast að ráða menn til lengri tíma, og nú gilda ýmis ákvæði um uppsagnarfrest, sem tryggja sérstaklega atvinnu þeirra, sem lengi hafa unnið hjá sama atvinnurekanda. Fæstir búa samt við jafnlangan uppsagnarfrest og vistbundið fólk gerði. Margir voru atvinnulausir um lengri eða skemmri tíma og tekjulausir á meðan, þar til farið var að bæta fólki tekjumissi með greiðslum úr atvinnuleysistryggingasjóði. Um aldamótin nutu lausamenn ekki sama öryggis um framfæri í veikindum og við slys og vistbundið fólk, en launþegar hafa áunnið sér slík réttindi smám saman með kjarasamningum og lögum.[14] Með því hefur fólk öðlast nokkuð af því öryggi í ráðningu, sem vinnufólk bjó við í vistarskyldu. Nú er vinnumarkaður flestra þannig, að þeim, sem sagt er upp vinnu, bjóðast margs konar störf. Við það hefur fólk öðlast öryggi um framfæri, sem er meira virði en lögboðnar og samningsbundnar tryggingar.

Skírni 160 (1986) 223-230

 

[1] Sverrir Kristjánsson: „Tímabilið 1845-1900“ í: Jón Blöndal og Sverrir Kristjánsson: Alþingi og félagsmálin. Reykjavík 1954.
[2] Heimildir: Alþingistíðindi, Lovsamling for Island og Stjórnartíðindi.
[3] Um upphaf þilskipaútgerðar sjá m.a.: Gils Guðmundsson: Geir Zoega. Kaupmaður og útgerðarmaður. 1946; - Sami: Skútuöldin. 1977; - Vilhjálmur Þ. Gíslason: Sjómannasaga. Reykjavík 1945.
[4]Guðmundur Jónsson: Vinnuhjú á 19. öld. Ritsafn sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands 5. Reykjavík 1981, bls. 36.
[5]Guðmundur Jónsson: Vinnuhjú á 19. öld. Ritsafn sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands 5. Reykjavík 1981, bls. 36.
[6] Hermann Jónasson: „Athugasemdir um heimilisstjórn, vinnumennsku og lausamennsku,“ Búnaðarrit. 2. árg., 1888.
[7] Skýrslur og tillögur milliþinganefndar þeirrar, er skipuð var með konungsúrskurði 9. desember 1914. Reykjavík 1916, Eptirlaunamálið, bls. 117-141.
[8] Þorvaldur Thoroddsen: Lýsing Íslands. Fjórða bindi. Kaupmannahöfn 1920. bls. 348.
[9] Hermann Jónasson: „Athugasemdir um heimilisstjórn, vinnumennsku og lausamennsku,“ Búnaðarrit. 2. árg., 1888.
[10] Guðmundur Jónsson: Vinnuhjú á 19. öld. Ritsafn sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands 5. Reykjavík 1981, áætlað eftir tölum á bls. 38-9.
[11] Guðmundur Jónsson: Vinnuhjú á 19. öld. Ritsafn sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands 5. Reykjavík 1981, áætlað eftir tölum á bls. 37.
[12] Um upphaf þilskipaútgerðar sjá m.a.: Gils Guðmundsson: Geir Zoega. Kaupmaður og útgerðarmaður. 1946; Sami: Skútuöldin. 1977; - Vilhjálmur Þ. Gíslason: Sjómannasaga. Reykjavík 1945.
[13] Sjá m. a.: Guðmundur Jónsson: Vinnuhjú á 19. öld. Ritsafn sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands 5. Reykjavík 1981, bls. 23; - Sigfús Jónsson: „The Icelandic Fisheries in the Pre-Mechanization Era. C. 1800-1905: Spatial and Economic Implications of Growth,“ The Scandinavian Economic History Review, 31. árg., bls. 132-150; - Sölvi Sveinsson: „Búskapur og samfélag“ í: Bændaskólinn á Hólum 1882-1982: Hólum 1982, bls. 19.—Einnig mætti nefna fullyrðingar úr dægurmálaumræðu.
[14] Lára V. Júlíusdóttir: Þættir úr vinnurétti II. Lög og samningar. Reykjavík 1986. Menningar- og fræðslusamband alþýðu.