Í Sögu 1986 fjallar Gísli Á. Gunnlaugsson um félags- og fjölskylduþróun á 19. öld (Um fjölskyldurannsóknir og íslensku fjölskylduna 1801-1930). Í kafla um löggjöf um atvinnustéttir, húsaga og bann við giftingu öreiga segir hann (bls. 23):

„Samkvæmt þeim lögum, sem giltu um vinnuhjú mikinn hluta 19. aldar, bar öllum sem orðnir voru 16 ára að aldri og ekki dvöldust á heimili foreldra sinna, bjuggu hvorki í sjálfstæðri heimilisstöðu né höfðu leyfi til hús- eða lausamennsku að ráða sig sem vinnuhjú hjá bændum til árs í senn.“

Vísar hann þar í Lovsamling for Island XIX, Kh. 1885, bls. 386-395. Þar reyndist þó hvergi minnst á bændur, en iðulega eru nefndir húsbændur. Vinnuhjú fullnægðu því lögunum með því að ráða sig í vist til hvers konar húsbænda, svo sem kaupmanna og útvegsmanna, iðnaðarmanna og embættismanna, enda voru vinnuhjú venjuleg á heimilum þeirra.

Í framhaldi af þessu segir Gísli:

„Þessi löggjöf sá bændum fyrir stöðugu framboði á tiltölulega ódýru vinnuafli meðan unnt var að framfylgja henni og öðrum þáttum vinnustéttalöggjafarinnar.“

Vitaskuld var þorri húsbænda bændur, en löggjöfin hindraði ekki samkeppni um vinnuafl. Engin ákvæði í lögum stóðu gegn því, að sá, sem bauð hjúi betur en sveitabóndi, fengi að ráða það í vist. Það, sem sá bændum fyrir „stöðugu framboði á tiltölulega ódýru vinnuafli“, ef borið er saman við það, sem síðar varð, var vitaskuld, að aðrir húsbændur buðu ekki betur, kaupmenn, iðnaðarmenn, eigendur þilskipa og embættismenn. Ég útskýrði stöðu vinnuhjúa og hagsmuni húsbænda nánar í grein í Skírni 1986, „Ráðningarskilmálar í lok 19. Aldar“, bls. 223-230.

Nýrri sögu 1 (1987) 97