Í efnismiklu erindi Gísla koma fram ýmsar skýringar á upphafi hagþróunar. Ein skýringin varðar Nýfundnaland, önnur England, hin þriðja Austur-Asíu o.s.frv., en þær eru af ýmsu tagi. Til þess að ná því marki að setja fram víðtækar kenningar þyrftu hagsögufræðingar að einbeita sér að því að gera reynsluathuganir sínar á þann hátt, að niðurstöðurnar verði sambærilegar milli svæða og tíma. Gera þarf þær forsendur hagþróunar, sem menn þykjast finna, að sambærilegum fyrirbærum með því að nota hugtök, sem ná til kjarna málsins, og túlka fyrirbærin agað.

 

 

 

 

Fyrst þarf að taka afstöðu til þess, hvað er hagþróun. Í sem stystu máli má segja, að um sé að ræða aukin efni með auknum kaupskap og fjármagni, en þá breytist félagsgerðin. Til kunna að vera undantekningar frá því, að fylgist að hagvöxtur og aukinn kaupskapur, svo sem Norður-Kórea, þar sem varð ör hagvöxtur í tilskipanahagkerfi, en kaupskapur mjög takmarkaður.

Lýsa má breytingunni, sem verður á félagsgerð við venjulega hagþróun með teikningu. Teikningin sýnir geranda, sem á völ á athöfn og velur athöfn, sem leiðir til samskipta. Samskiptin bera í sér boðskap eða kaupskap. Boðskaparsamskipti vilja verða ógreið, enda vantar samnefnara, en einnig er takmarkað, hvaða samskipti mega fara fram með kaupskap. Lög banna kaup á ýmsu og siðir banna annað, en það greiðir hins vegar fyrir kaupskap, að þar er samnefnari í almennum gjaldmiðli (peningar, álnir vaðmáls o.fl..). Kaupskapur getur raunar einnig falið í sér boðskap. Við hagþróun koma samskipti með kaupskap í stað samskipta með boðskap.

Vandi fræðimanna er að túlka boðskapinn í samskiptum, þ.e.a.s. túlka hvernig samferðamenn gerandans skildu hann (var ákveðin biblíuútgáfa fyrir markað boðskapur eða kaupskapur eða hvorttveggja’) Boðskapurinn er háður þekkingu, skilningi, hugmyndum, venjum og gildi, en gildi setur athöfn í afstöðu til annarra athafna, og kann þar t.a.m. að reyna á félagsvitund og þjóðrækni.

Kaupskapur takmarkast af auðlind og eignarrétti, lögum, samgöngum, þekkingu (tækni), hugmyndum (sbr. þá hugmynd Tryggva Gunnarssonar á Hallgilsstöðum að smíða húsgögn, sem enginn hafði beðið um), stofnunum fjármagns (bönkum) o.s.frv.

Forsendur þess að viðhafa kaupskap eða boðskap breytast meðal annars við það, að samskipti kaupskapar og boðskapar hafa áhrif á félagsgerðina og félagsgerðin á takmarkanir kaupskapar og boðskapar, en það hefur áhrif á völ gerandans, eins og teikningin sýnir (þegar losnar um samskipti boðskapar meðal kunningja og ættingja, liggur beinast við að leysa mál með kaupskap, en það losar enn frekar um kunningjatengsl). Á sama hátt breytast hugmyndir og gildi.

Tilskipanahagkerfi er haldið uppi með boðskap valdhafa, sem kemur fram í lögum, reglugerðum og kröfum um drottinhollustu. Á stríðstímum tíðkast tilskipanahagkerfi.

Verkefni hagsögufræðinga, sem fjalla um hagþróun, er að kanna, hvort valdar eru athafnir, sem háðar eru samskiptum með boðskap eða kaupskap, og hvernig breytingar verða þar á.

 

Kenningar sem útskýra útbreiðslu þróaðs hagkerfis, framsaga um erindi Gísla Gunnarssonar, bls. 22-3 í Iðnbylting á Íslandi. Umsköpun atvinnulífs um 1880 til 1940, Ritsafni Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands, Reykjavík 1987