Efnisskrá:
Ákvæði varðandi sjávarútveg og verslun
- Tilmæli um frjálsa verslun
- Um erlenda kaupmenn og innlenda atvinnu
- Um hræðslu við nýjungar
- Löndunartakmarkanir
- Um vistarband og lausamenn
- Iðnrekstur Ólafs Stefánssonar
- Skoðun Ólafs á nytsemi kaupstaða
- Fyrsti útgerðarstjóri eigin þilskips
- Sjávarútvegur eða sauðfjárrækt
Tvennt er til umfjöllunar úr riti Gísla Gunnarssonar, Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787: að innlend valdastétt hafi sett þróun sjávarútvegsins þröngar skorður af ótta við röskun á valdastöðu sinni og að hún hafi með áhrifum sínum á verðlagsákvæði sérleyfistímans fært arð frá sjávarútvegi til landbúnaðar.1
Fátækt íslendinga á 17., 18. og 19. öld hefur lengi verið kennd óvæginni náttúru og vondu stjórnarfari. Nú orðið er tilhneiging til að athuga málið í ljósi þeirrar hagþróunar, sem þjóðin hefur búið við og margt er nú miðað við. Menn spyrja, hverjar hafi verið forsendur nýsköpunar atvinnuhátta og hver hafi verið fyrirstaðan.
Gísli Gunnarsson 2 fjallar um ýmsa fyrirstöðu á vegi nýsköpunar á 17. og 18. öld. Helgi Sk. Kjartansson3 orðar svo boðskap enskrar frumútgáfu sama rits:4
Í örstuttum inngangskafla tæpir Gísli á þeirri sögutúlkun sem síðan verður rauður þráður bókarinnar: Allt frá miðöldum hafi framfaramöguleikar Íslendinga legið í fiskveiðum fyrir erlendan markað, en íhaldssöm innlend valdastétt hafi af ótta við röskun á valdastöðu sinni sett þróun sjávarútvegsins þröngar skorður, ekki síst með áhrifum sínum á kaupsetningar einokunartímans, með þeim hafi sjávarútvegurinn greitt niður viðskiptakjör landbúnaðarins, og fyrir vikið verið vanfær um að draga til sín fjármagn og vinnuafl að því marki sem æskilegt hefði verið, þetta sé öðru fremur skýringin á stöðnun og sárri fátækt í landinu öldum saman.
Mér þótti ekki ótrúlegt, að verðhlutföll sérleyfisverslunarinnar hefðu getað mismunað bjargræðisvegum þjóðarinnar, enda hafði það komið fram hjá Jóni Aðils5 og Lúðvík Kristjánssyni.6 Hins vegar fannst mér ekki trúlegt, að auðmenn landsins, sem sátu vildisjarðir sunnanlands og vestan og höfðu arð af eigin útgerð eða af aflahluta vinnumanna sinna úr verinu, hefðu tekið höndum saman við aðra auð- og valdamenn landsins til að spilla fyrir því, að þessi mikla auðlind, sem í sjónum var, yrði nýtt, eins og hagkvæmt væri eftir ástæðum hvers og eins. Og hvernig skyldi ótti höfðingja við röskun á valdastöðu hafa komið fram? Eins og fleirum leist mér ekki á að lesa rit um dönsk og íslensk málefni samið á ensku í Svíþjóð, og beið það því þess, að það birtist á íslensku, að kynnast rökum Gísla.
Gísli fjallar mest um síðustu 50 ár sérleyfisverslunarinnar, en fer samt aftur fyrir tíma hennar. Auk þess sem hann eignar yfirstéttinni ótta við, að valdastaða hennar raskaðist, kennir hann hræðslu almennings og dáðleysi um, að þjóðin tók sér ekki fram um að nýta auðæfi sjávarins betur.7 Ég hef athugað, hvort ekki megi skýra að fullu viðbrögð heldri bænda og alþýðu með sömu hyggindum og kaupmenn og útgerðarmenn vildu helst beita nú á dögum í eigin þágu, en einnig með tilliti til þeirra sjónarmiða, sem nú ríkja um forsendur samkeppni og verðlagslög hvíla á.
Athugum rök Gísla, sem lúta að eftirfarandi orðum hans um afstöðu til sjávarútvegs:8
Höfðingjar landsins fögnuðu þeim möguleikum til auðsöfnunar, sem efling fiskveiða hafði í för með sér, en samtímis gerðu þeir ráðstafanir til að hindra að sjávarútvegur ylli einhverjum meiri háttar breytingum á samfélagsskipan landsins. Þessi andstaða höfðingja við samfélagsbreytingar og þar með einnig breytingar á atvinnumálum er meðal helstu viðfangsefna þessarar bókar.
Ég met athuganir Gísla varðandi ákvæði og aðgerðir, sem lúta að breytingum á samfélagsskipan, nokkurn veginn í tímaröð. Í fyrsta lagi ber að athuga, hvort rök, sem lúta að hagsýni, hafi getað átt við, óháð afstöðu til breytinga á samfélagsskipaninni. Í öðru lagi er um það að ræða, hvort ákvæði hafi í reynd spillt fyrir breytingum, hvaða rök sem kunna að hafa verið flutt í málinu.
Á síðari hluta 16. aldar var konungur tekinn að veita sérleyfi til verslunar hér á landi, „og þótti víðast þegar illa við bregða.9“ Er til vitnis um það sú frásögn Gísla, að 10 árið 1592 sendi Alþingi beiðni til konungs um að erlendir kaupmenn fengju að sigla til landsins án sérstakra verslunarleyfa og að þeir mættu sigla á hvaða höfn sem var.
Gísli vísar á sama stað til Þorvalds Thoroddsens varðandi andstöðu alþingis 1576 við verslun Guðbrands Hólabiskups og leggur síðan út um „íhaldssama bestu bændur … (sem) vildu umfram allt varðveita óbreytt ástand gegn öllum ógnvekjandi nýjungum.”
Páll E. Ólason skýrði afstöðu alþingis 1576 og leiðrétti þar gamlan misskilning, sem Þorvaldur tók upp. Samkvæmt Páli tók alþingi ótvíræða afstöðu bæði árið 1576 11 og 1592 gegn sérleyfisskipulagi því, sem konungur var að koma á, og með frjálsri verslun, og greindi ekki á við Guðbrand biskup um verslunarmál. — Rit Þorvalds birtist að honum látnum sama árið og leiðrétting Páls.
Samkvæmt forsendum núgildandi verðlagslaga hlyti sérleyfisskipulag af því tagi, sem konungur beitti sér fyrir á síðari hluta 16. aldar, einnig að vekja ógn varða laganna, en vitaskuld eru engar heimildir til að halda því fram, að slík afstaða sé umfram allt íhaldssemi.
Í kafla 2.8 um erlenda kaupmenn og innlenda atvinnu segir:12
Íslenskir bændur, einkum landeigendurnir, óttuðust samkeppni erlendra kaupmanna um vinnuafl. Þeir óttuðust, að kaupmenn yrðu of voldugir í landinu, ef þeir mættu gera þar út fiskibáta. … Þess vegna var veturseta kaupmanna og þjóna þeirra bönnuð og skyldu þeir aðeins dvelja á Íslandi stuttan tíma á sumrin.
Nú stóð svo á, að kaupmenn höfðu enga ástæðu til vetursetu til útgerðar. Samkvæmt frásögn Gísla fengu þeir nægan fisk hvort sem var:13
En verið getur að verðfallið 1550-1600 hafi stuðlað að því að takmarka fiskframleiðslu Íslendinga við þarfir hins sérstæða markaðar, sem kaupmennirnir í Hamborg höfðu skapað fyrir íslensku skreiðina, enda voru ekki nýir mikilvægir markaðir fundnir fyrir íslenskar fiskafurðir fyrr en á seinni hluta átjándu aldar. Skúli Magnússon fullyrðir raunar, að þannig hafi þetta verið. Kaupmenn hafi oft fyrir 1750 ? neitað að taka við meiri fiski en sem nam í fyrsta lagi því magni, er ákveðið var í samningum við Hamborgara, og í öðru lagi því magni, sem auðveldlega var hægt að losna við í Kaupmannahöfn og Danzig.
Í bréfabókum Brynjólfs biskups Sveinssonar má einnig sjá, að kaupmenn tóku aðeins hluta af því, sem íslendingar buðu þeim af fiski. Kaupmenn hafa viljað forðast offramboð.
Sérleyfiskaupmönnum var engin nauðsyn að sitja hér að vetrinum, þar sem þeir sátu einir að allri Íslandsverslun. Með sérleyfinu 1602 var vetrardvöl ekki bönnuð, heldur takmörkuð við, að kaupmenn hafi einn eða tvo sveina á hverri höfn að vetrarlagi „og noget ringe gods at forhandle ... Indbyggere til Gafn og Forbedring. “14 Konungur hlífði íslendingum ekki við erlendri vetrarútgerð, því að hann gerði sjálfur út báta að vetri á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum.
Öðru máli gegndi, þegar fiskur brást, eins og varð á árunum 1686-1706. Kaupmenn höfðu konungsútgerðina á leigu á þessum árum og létu sér ekki nægja að gera út 15 báta á Suðurnesjum, eins og konungur, heldur gerðu þeir út 50-60 báta.15
Í kafla 12.1 um hræðslu við nýjungar er fyrst minnst á áhættuhræðslu, einkum meðal fátækra þjóða, en síðan segir svo:16
Í öðru lagi er það algengt með þjóðum, að forréttindastéttir óttist að breytingar gætu ógnað jafnvægi bjargræðisvega og stétta og stöðu þeirra í samfélaginu.
Nefnir Gísli í því sambandi bann við markönglum. Þegar veitt var á lóð, var til, að einstakir sjómenn ættu fiskinn af ákveðnum önglum, sem kölluðust þá markönglar. En markönglarnir urðu framhaldssaga í dómskerfi vestfirðinga í hálfa öld (1567-1616), segir Gísli,17 og bannaðir með mörgum dómum. Var „hættulegt að láta vinnumenn fá persónulega ábata við að framkvæma ákveðin verk, slíkt gat ógnað jafnvægi samfélagsháttanna.“ 18
Stenst þessi túlkun? Athugum, hvað Lúðvík Kristjánsson segir um marköngla:19
Markönglarnir, sem hver mátti hafa, voru örfáir í upphafi, en hins vegar virðist þeim hafa fjölgað eftir því sem á leið og hásetar þá stundum tekið sér sjálfdæmi, að því er fjölda þeirra snerti. Þegar svo var komið, töldu húsbændur sig ekki lengur geta unað því, að vinnumenn þeirra hefðu marköngla og aflann af þeim sem hlutarbót, og báru mörgu við. … Þá var og borið á háseta, að þeir egndu markönglana með tálbeitu og jafnvel silungi, á sama tíma og þeir beittu lóð húsbænda sinna með þorskagni eða öðru verra. Ennfremur voru hásetar ásakaðir fyrir að taka öngla af lóðum húsbænda sinna til þess að láta í stað þeirra, sem misstust af markönglastúfnum.
Um þessi mál var ágreiningur meðal bænda, segir Lúðvík ennfremur, en mótstöðumenn markönglanna höfðu betur. Húsbændum var hins vegar leyfilegt að gefa duglegum vinnumönnum eða formönnum af afla sínum í vertíðarlok, og taldist sú þóknun hluti af kaupi þeirra. Síðar var það einnig afnumið, en ákveðið, að aflaskipti skyldu vera föst.
Lítum okkur nær til að skilja rök málsins og til að gera grein fyrir því, hvort markönglabannið hafi spillt fyrir hagkvæmum vinnubrögðum. Á 7. áratug þessarar aldar komu samtök fiskverkunarfyrirtækja og samtök verkafólks sér saman um launakerfi, þar sem hver einstaklingur fengi kaupauka (bónus) eftir afköstum til þess að ná meiri árangri. Þeir voru þó til, sem andmæltu þessu launakerfi, þar sem það leiddi til ójafnaðar og bitnaði á þeim, sem ekki hefðu fullt þrek.
Nú á þessum misserum er verið að afnema kaupauka einstaklinga í fiskvinnslu, ekki af því að sjónarmið jafnaðar hafi orðið ofan á, heldur að fenginni þeirri reynslu, að það spillti afköstum heildarinnar, að hver og einn hugsi mjög þröngt um eiginn hag, þegar fleiri ganga saman að verki. Í aðgerð, þar sem hver stendur við sitt borð og greiddur er einstaklingsbónus, láti fólk undir höfuð leggjast að ganga í annarra verk, þótt ástæða sé til. Í staðinn er nú tekinn upp kaupauki handa hópnum og kallast hlutaskipti. Strax fréttist um fiskvinnsluhóp, sem hélt uppi svo sterkum aga, að þeim, sem þótti slaka á, var illa vært. — Sjá má einnig hliðstæðu í muninum á launakerfi á skútum, þegar hver maður markaði afla sinn, og á togurum með föst hlutaskipti eða föst laun.
Því má velta fyrir sér, í hvaða mæli launakerfi kunni að hafa örvað sjómenn til afkasta eða dregið úr framtaki, án þess að hafa heimildir um það. Á árabátum voru svo fáir saman, að návistin hlaut að halda upp vinnuaga. Á sjó er mikils um vert, að góður andi sé með mönnum, en sérdrægni lítil. Þótt hlutirnir væru jafnir, er ekki trúlegt, að menn hafi legið í leti hver á sinni þóftu. Bóndi fékk hlut vinnumanns síns, en hver háseti hlaut orðstír, sem fylgdi honum og mótaði afstöðu til hans, þegar kom að nýrri vistráðningu. Þótt ákvæði væru um fast kaup, voru vistir miseftirsóttar. Ekki er því ástæða til að ætla, að markönglabannið hafi dregið úr afköstum. Ekki er heldur ástæða til að ætla, að aukinn launamunur vinnufólks hefði hraðað framþróun atvinnuhátta á þessum tímum, þegar enginn vísir var til að fjármagnsmarkaði og launþegar (vinnumenn) áttu ekki kost á annarri ávöxtun á fé sínu.6
Gísli segir:20
Einnig drógu tengsl fiskveiða við landbúnað úr sveigjanleika fiskimanna við að bregðast við nýjum aðstæðum á miðunum, þeir gátu aðeins gert út og lagt að landi á heimajörð bátsins. Ef landa átti annars staðar, þurfti bóndi heimajarðarinnar að hafa samið um það fyrirfram við bónda á annarri jörð.
Lúðvík Kristjánsson21 skiptir verum í þrennt: Í heimveri voru bátar höfuðbólsins með hjáleigum. Í útveri voru aðeins aðkomubátar, en engin búseta. Í viðleguveri fengu aðkomumenn leyfi bónda til að liggja við. Lúðvík getur ekki í ritinu um óhagræði að slíkum reglum, og spurður taldi hann ekki, að þetta hefði skipt neinu máli fyrir bátaútveginn.
Um lausamennsku segir Gísli m. a.:22
Það er varla nokkur tilviljun að lögin um afnám lausamennsku voru sett árið 1783. Á þeim tíma var danakonungur að reyna að bæta efnahag Íslands með því að hefja í landinu þilskipaútgerð og á margvíslega annan hátt að örva fiskveiðar. Ákveðið hafði verið að dönsku kaupmennirnir skyldu dveljast á Íslandi allt árið og taka þar þátt í atvinnuvegunum. Íhaldssamir Íslendingar óttuðust þessa þróun og hófu áróður bæði gegn fiskveiðum og allskyns „flakki“, og óttuðust augsýnilega að tilvist frjáls verkafólks í landinu gæti tengst nýsköpunarstefnu konungs. Danska stjórnin var skýlaust á móti öllu „flakki“ og því var hægt að fá hana til að banna tilvist farandverkamanna á Íslandi. Þetta var athyglisvert vegna þess að tveimur árum áður, 1781, hafði forstjóri konungsverslunarinnar á Íslandi kvartað yfir því, að það væri ekkert vinnuafl tiltækt til þátttöku í nýsköpunartilraununum.
Lögin um bann við lausamennsku árið 1783 gerðu það að verkum, að vinnuaflið hlaut að bindast ennþá rækilegar atvinnustarfsemi lögbýlanna og við þær aðstæður gátu varla þróast nýir atvinnuhættir, sem tengdust kapítalisma og þéttbýli.
Ekki er þarna getið heimildar um kvörtun forstjóra ríkisverslunarinnar, en annars staðar vísar Gísli til orða forstjórans um, „að erfitt hefði verið að fá Íslendinga til starfa á skútunum.“23 Þar var um það að ræða að ráða íslendinga til veiða á þilskip verslunarinnar, og kvaðst Bech forstjóri ekki hafa viljað greiða þeim laun nema þá fjóra mánuði, sem veiðar stæðu, frá apríllokum til mánaðamóta ágúst-september, og hefði ekki tekist að ráða menn þannig.24 Hann getur ekki um, hvaða laun hann hafi boðið borið saman við almenn laun í landinu, og minnist ekki á vistarbandið í þessu sambandi.
Um vistarbandið segir Gísli ennfremur:25
Útgerð konunglegu einokunarverslunarinnar á fiskiskipum við Íslandsstrendur 1776-1787 fól í reynd í sér kröfu um það, að bannið á vinnu Íslendinga fyrir útlendinga væri sniðgengið, hvað sem lagagreinar sögðu: Tilgangur útgerðarinnar var sá að kenna Íslendingum að notfæra sér bestu fáanlegu tækni í fiskveiðum og því bað konunglega tollstofan Thodal stiftamtmann árið 1775 að sjá til þess að hægt væri að ráða Íslendinga til vinnu í skipunum. Slíkt tókst ekki og var meginskýring þess að sjálfsögðu vistarbandið: Mjög lítið frjálst vinnuafl var til staðar lögum samkvæmt.
Samkvæmt þessu brá ríkisvaldið vitandi vits fæti fyrir starfsemi fyrirtækja sinna með banni við lausamennsku. Heimildir nefnir Gísli ekki fyrir þeirri túlkun sinni, að ríkisvaldið hafi bannað lausamennsku vegna óska andstæðinga sinna í nýsköpunartilraununum. Meðan annað hefur ekki komið fram um ástæður ríkisvaldsins, þykir mér hugsanlegt, að bannið hafi verið ráð til að neyða lausamenn í nágrenni ríkisfyrirtækjanna til að ráða sig þar í vinnu, enda þykir Gísla sennilegast, að ríkisverslunin hafi, þegar hér var komið, mátt ráða íslendinga í vinnu.26
Ég ætla, að högum lausamanna árið 1781 hafi verið líkt háttað og Gísli lýsir þeim 1703,27 en þá voru þeir 371,28 flestir ókvæntir karlmenn á tvítugs- og þrítugsaldri29 og bjuggu í verstöðvahéruðum sunnanlands og vestan, unnu fyrir eiginn reikning á vetrarvertíð og fóru á sumrin í kaupavinnu. Hefur því mátt búast við því, að lausamenn, sem áttu heima í nágrenni Reykjavíkur, tækju það ráð til að fullnægja ákvæðinu um vistráðningu að ráða sig til starfa hjá ríkisfyrirtækjunum. Það sannaðist á Vesturlandi á 19. öld, að vistarbandið kom ekki í veg fyrir, að efnabændur og kaupmenn hæfu þilskipaútgerð með góðum árangri.
Athugum nánar tilskipunina um bann við lausamennsku. Þar er búðseta heimiluð eftir sem áður samkvæmt 8. grein og búðsetufólki leyft að ráða sig til skamms tíma utan vertíðar. Eins er með það fólk, sem verið hefur hjá búðsetum á vertíð, að það má ráða sig til skamms tíma hjá öðrum. Loks er tekið fram í 9. grein, að iðnaðarmenn megi ráða sig til vinnu upp á daglaun eða vikukaup. Þarna voru því ýmis tækifæri fyrir atvinnurekendur við sjávarsíðuna að ráða til sín fólk til lengri eða skemmri tíma, ef þeir gátu boðið viðunandi kjör.
Að dómi Gísla var Ólafur Stefánsson forystumaður í andstöðu höfðingja við samfélagsbreytingar og þar með einnig breytingar í atvinnumálum, og vísar þar til ritgerða Ólafs. Um þennan foringja samdi Ólafur Oddsson kandídatsritgerð í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands, sem ber heiti, sem lýsir allt öðru en andstöðu við breytingar, nefnilega,: „Ólafur Stefánsson og tilraunir hans með iðnað og útgerð að erlendum hætti.“ Verður frásögn Ólafs Oddssonar fylgt hér með leyfi hans, stundum með beinum tilvitnunum. Fyrst er þess að geta, að Ólafur Stefánsson réðst árið 1754 til iðnaðarstofnananna sem bókhaldari, nýkominn frá námi í Höfn. Í stjórn fyrirtækisins voru þá Skúli Magnússon landfógeti, Magnús Gíslason amtmaður, síðar tengdafaðir Ólafs, og Bjarni Halldórsson sýslumaður, fóstri Ólafs, auk fjórða manns. Ólafur varð amtmaður 1766 og stiftamtmaður 1790. Hann stundaði búskap, m. a. á Innra-Hólmi á Akranesi, og átti útræði á Skipaskaga.
Ritgerð Ólafs Oddssonar fjallar einkum um30 ullarverksmiðju Ólafs, sútunar- og skósmíðaverkstæði hans og þilskip það, er hann og Thodal stiftamtmaður gerðu út um nokkra hríð. … Framlag Ólafs Stefánssonar í þessum efnum var viðleitni til þess að koma á fót nokkrum iðnrekstri, færa þær iðngreinar inn í landið og láta reka slíkar stofnanir sem einkafyrirtæki, en þó með velvilja stjórnvalda og verslunar.
Ólafur telur ullarverksmiðju nafna síns hafa haft töluvert gildi. Hún tók til starfa nokkrum árum, áður en landsnefnd hin fyrri kom til sögunnar árið 1770. Nefndin hélt þá um sumarið fund með helstu embættismönnum landsins, þeirra á meðal Ólafi Stefánssyni, og var hann meðmæltur hugmyndum nefndarinnar um að koma á fót iðnfyrirtækjum. Nefndin taldi, að kaupstaðir væru
raunveruleg forsenda þess, að iðngreinar þær, er menn töldu nauðsynlegt að færa inn í landið, gætu þrifist. Menn í þessum efnum gætu ekki unnið fyrir sér annars staðar.31
Síða lét Ólafur í ljós það álit, að æskilegt væri, að kaupmenn hæfu í kaupstöðunum margvíslegan iðnrekstur í samstarfi við landsmenn, eins og hér skal greint:
Í bæklingi um verslunarsögu
fjallar Ólafur einnig um nytsemi kaupstaða við stofnun handverka, og segir hann m. a.:32 Hvor let en Sag vilde det ikke blevet, og kunde endnu blive, for her etablerede 10 Kiöbmænd tillige med de med disse interesserende Landets Börn, at oprette ligesaa mange Haandværker i Kjøbstæderne, saa som Linvæverie, Reebslager-, Feldbereder-, Handskemager-, Strømpevæver-, Garver-, Skoemager-, Skræder-, Hattemager- og Dreier-Haandværker.
Árið 1773 keyptu þeir Thodal stiftamtmaður og Ólafur Stefánsson, þá búsettur í Sviðholti á Álftanesi, þilskip til útgerðar. Kveður Ólafur Oddsson nafna sinn hafa haft
meiri afskipti af rekstrinum, er til kastanna kom, enda hafði Ólafur um margt miklu betri aðstöðu til þeirra hluta. Hann hafði verið bókhaldari Innréttinganna mestan hluta þess tíma, er þilskipaútgerð var rekin á þeirra vegum. Hann rak og sjálfur umfangsmikla bátaútgerð og fiskverkun, en Thodal var ekki við slík mál riðinn.33
Þeir félagar töpuðu stórfé á útgerðinni, og var ýmsu kennt um. Þótt svo hefði farið, missti Ólafur ekki trú á þilskipaútgerð:
Laust upp úr aldamótunum 1800 hóf Bjarni Sivertsen kaupmaður í Hafnarfirði þilskipaútgerð og skipasmíðar. Má geta þess hér, að Ólafur Stefánsson studdi mjög Bjarna í kaupmennsku og öðrum framkvæmdum, meðan hans naut við.34
Áður en afstaða Ólafs Stefánssonar til málstaðar Skúla Magnússonar verður skýrð í ljósi þess, sem að framan greinir um áhuga hans á „iðnrekstri og sjávarútvegi að erlendum hætti“ og um skilning hans á „nytsemi kaupstaða við stofnun handverka,“ skal athugað, hvernig Gísli hefur túlkað ýmsar skoðanir Ólafs.
Gísli fjallar um efnahagslegan reikning Ólafs til Landsnefndarinnar 1770-71 um framfæri landsmanna í góðum árum. Hann kveður Ólaf hafa vakið athygli á því, að húsdýrin væru alltof mörg í reikningum sínum, og skilur það þannig:35
Hann leiðrétti þær tölur ekki sjálfur, sennilega vegna þess að hann vildi ekki með því veikja þær röksemdir sínar, að landbúnaður væri miklu mikilvægari en fiskveiðar fyrir hag landsins. En það er hægt að bera mat Ólafs á fjölda húsdýra saman við áreiðanlegri tölur, til dæmis þær, sem finnast í Tölfræðihandbókinni 1974, bls. 65. Slíkur samanburður leiðir í ljós, að hann hafði ýkt fjölda sauðfjár u.þ.b. 60%. Mat hans á fjölda kúa virðist hins vegar hafi verið raunsætt ...
Hinar „áreiðanlegri tölur“ eru þær, að fjártala í Tölfræðihandbók 1974 fyrir árið 1770 er 140 þúsund og árið 1760 357 þúsund, en það var fyrir fjárkláðafellinn. Næsta tala þar á undan er frá 1703. Kúatala er í Tölfræðihandbókinni fyrir árið 1770 og næst þar á undan fyrir árið 1703. Síðan telur Gísli, að Ólafur vanmeti ullarvöru um helming. Gísli skýrir ekki, hvaða röksemdir Ólafur hefur viljað veikja eða styrkja með þessu vanmati á ullinni. Með þessum formála lækkar Gísli verðmæti kjöts um 26.667 ríkisdali og hækkar verðmæti ullarvöru um 26.000 ríkisdali.
Enn er að geta frásagnar Gísla af ágreiningi Ólafs við Skúla Magnússon, þar sem Skúli hafði lagt til, að lagður yrði á útflutningstollur:36
Skúli taldi, að 5.000 kjöttunnur yrðu fluttar út árlega. Ólafur taldi hins vegar að útflutningur þessi yrði ekki meiri en 1.000 tunnur árlega. … Skúli áætlaði að 20.000 gæruvöndlar yrðu fluttir út ár hvert, þessa tölu taldi Ólafur vera fimm sinnum of háa.
Hér gerir Ólafur hlut sauðfjárræktarinnar lítinn. Hvað skyldi hafa vakað fyrir honum með því?
Margs má verða vísari um verslunarskilyrði á 17. og 18. öld af riti Gísla. Sá, sem vill vita, hvað hélt þjóðinni niðri á þessum vondu tímum, situr samt eftir með margar spurningar eftir lesturinn. Það getur verið nógu fróðlegt að vita um skoðanaágreining, ef hann er túlkaður af sanngirni. Meira er þó varið í að vita um rök málsins, hverjar voru ástæður þjóðarinnar á hverjum tíma og hverju þurfti að breyta, svo að hagur hennar mætti batna. Einna merkilegast er peningaleysið, sem sérleyfiskaupmenn héldu við og kom í veg fyrir, að íslendingar gætu átt viðskipti fram hjá þeim. Einnig var mikilvægt, að kaupmenn leyfðu landsmönnum ekki að eignast innstæður.
Sauðfjárrækt með sauðaeldi gegndi sérstöku hlutverki í hagkerfi með ofangreindum takmörkunum. Sauðféð sá þjóðinni ekki aðeins fyrir fæði og klæði. Útflutningur kjöts varð verulegur, þegar kom fram á 18. öld, og slagaði í verðmæti upp í sjávarafurðir. Nefnir Gísli það helst lambakjöt í ensku útgáfunni, en oftast kindakjöt í íslensku útgáfunni. Jón Sigurðsson fjallar um útflutning kjöts á 17. og 18. öld í Lítilli varníngsbók,37 og er það einungis sauðakjöt.
Lömb gengu ekki dilkar með ám, heldur voru færð frá. Fráfærnalömb voru rýr til frálags. Voru hrútlömb því flest gelt og sett á. Sauðir höfðu þann kost, að verðmæti þeirra óx með aldrinum.38 Þeir voru því eins og sjóður, sem ganga mátti í á hverju hausti og hagræða úttekt og innstæðu eftir þörfum, afkomu og árferði. Almenningur átti varla annarra kosta völ til að geyma verðmæti og ávaxta þau, ólíkt því, sem var með aflahlut, sem ekki varð geymdur, hvorki seldur né óseldur. — Hlutdeild sauðfjárræktar hafði vaxið á kostnað nautgriparæktar, þegar hér var komið,39 en naut (uxar) höfðu sama kost og sauðir að vaxa að verðmæti með aldrinum (sbr. búalög).
Gísli vekur athygli á þeirri skoðun Skúla Magnússonar, að aukning kjötútflutnings á tímabilinu 1684-1733 hafi „verið ein aðalorsökin fyrir vaxandi eymd íslensku þjóðarinnar.“40 Með tilliti til framangreinds hlutverks sauðfjárræktarinnar forvitnaðist ég um rök Skúla, en Gísli kynnir þau ekki. Á tilvitnaðri blaðsíðu í ritgerð Skúla er ekkert sagt um kjötútflutning. Nokkrum síðum framar (bls. 189-90) ber Skúli saman sjávarútveg og landbúnað með þessum orðum (með breyttri stafsetningu):
Langtum heldur getur sveitin staðist án sjávar en sjórinn án sveitar. Einn íslenskur sjóbóndi án þess að víxla sjóvöru mót landvöru er þeim grænlenska svo miklu aumari, sem hann vantar selskinnið, nær því alls staðar á Íslandi nema í Norðursýslu og á Langanesströndum. Þess meira sem kemur til sjávarins úr sveitinni af mönnum, mat og landsvöru, þess betur verður sjórinn sóttur. Að ala sjómanninn á fiskætum einum og mjölgrauti úr vatni er að taka frá honum hans líkamskrafta, er hann þó alla þarf til sjósóknarinnar. Það mun bágt að neita því, að þess meir kjötútfærslan hefir verið, þess meir hefir landsins formegan aftur farið, ætli hin útlenda kornvara geti umbætt slíkt?
Skúli telur sem sagt mikils um vert, að þjóðin neyti sjálf afurða sauðfjárins í stað þess að flytja þær úr landi, og besta til sjósóknar telur hann sveitamenn, sem nærast á mat úr sveitinni.
Enn segir Gísli um kjötútflutning:41
Mjög sennilegt er að Skúli Magnússon hafi haft talsvert til síns máls, þegar hann fullyrti að þessi mikli kjötútflutningur Íslendinga á 18. öld hafi verið landinu til skaða, ef til langs tíma er litið. Hann var alla vega ekki einn um þessa skoðun. Þannig taldi forstjóri konunglegu verslunarinnar, Hans Christian Bech, í riti sínu árið 1781, að mikilvægt væri að hafa kjötútflutning Íslendinga sem minnstan.
Í tilvitnuðum stað sagði Bech þetta um útflutning sauðfjárafurða: „Faarekjød er en mindre Courant Vare.“42 Bech telur hættulegt að láta skip verslunarinnar bíða siglingar fram á haust eins lengi og þyrfti til að sláturféð nái fullum þunga, og söltun kjötsins hafi farið aftur.
Um sauðamör segir Bech á næstu blaðsíðu:
Talg er bedst afsættelig her i Staden formedelst at den fra Island kommende er mest Faaretalg, som falder haardere end Oxtalg, hvorfor man bruger den første til at melere den Sidste, for at faa gode Lys.
Annað er þar ekki að sjá um, „að mikilvægt væri að hafa kjötútflutning Íslendinga sem minnstan.“ — Í ofannefndum reikningi Skúla Magnússonar skila kjöt og mör jafnmiklu verðmæti.
Enn er að geta skoðunar Skúla á þeim samdrætti í sauðfjárrækt, sem hlaust af fjárkláðanum, og Gísli kynnir með þessum orðum: „Skúli Magnússon taldi árið 1783 að fjárkláðinn hefði verið mikil búbót fyrir landsmenn.“43 Á tilvitnuðum stað í riti Skúla er ekkert um þetta mál.
Höfðingjar áttu í útistöðum sín á milli. Þyrfti að athuga, hvort ólík afstaða höfðingja til atvinnustefnu tengdist slíkum útistöðum. Mér kemur í hug Bjarni Halldórsson sýslumaður á Þingeyrum, sem kostaði Ólaf Stefánsson til náms. Hann kvað hafa átt í útistöðum við Skúla og sat með honum í stjórn iðnaðarstofnananna sem einn hluthafa. Til að átta sig á því, hvort sennilegt sé, að ágreiningurinn hefði haft áhrif á þróun útgerðar, þyrfti að gera grein fyrir helstu forsendum atvinnuþróunar við ýmis tækifæri og hvort líklegt sé, að önnur viðbrögð hefðu haft áhrif á þróunina. Hvernig stóð á árið 1592, þegar „bestu bændur“ vildu halda frjálsri verslun við útlendinga? Hefði það útbreitt peningabúskap og þar með gert tekjur af fiski að eins gjaldgengu verðmæti og nauta- og sauðaeign? Hvernig stóð á um aldamótin 1700, þegar húnvetnskur dalabóndi úr röðum „bestu bænda“, Páll í Víðidalstungu (Vídalín), lagði til með rökstuddu áliti, að stofnaður yrði kaupstaður og hafin þar útgerð minnst fimm þilskipa? Var víðtæk sala biskupsstóls- og ríkisjarða, sem fór fram um aldamótin 1800, forsenda þess, að nógu margir framtakssamir menn ættu fasteign, sem mátti veðsetja til kaupa á þilskipi, en þá fyrst gætu tilraunir með slíka útgerð orðið til varanlegs árangurs? Hvernig stóð á því, að þilskipaútgerð komst miklu síðar á traustan grundvöll við Faxaflóa en á Vesturlandi? Voru Innnes illa valinn staður fyrir tilraunir með þilskipaútgerð? Hefði heldur átt að reyna fyrir vestan?
Efasemdir eru um það, hversu vel atvinnumálatilraunir Skúla Magnússonar hafi verið hugsaðar með tilliti til markaðar og hráefnisöflunar.44 Andstaða Ólafs Stefánssonar við atvinnustefnu Skúla var sýnilega ekki andstaða við „iðnað og útgerð að erlendum hætti“ né heldur andstaða við þéttbýlismyndun. Hann hafði manna best getað fylgst með taprekstri iðnaðarstofnananna 1752-59. Hann vekur athygli á velgengni hollendinga á veiðum við Ísland. Þar eigi skipstjóri gjarna hlut í útgerðinni, og þeir fái hærra verð fyrir fiskinn.45
Gísli leggur fram niðurstöður umfangsmikilla reikninga sinna á skiptingu arðs af versluninni og landskuldum eftir héruðum.46 Sýna þeir, að hagnaður einokunarverslunarinnar kom fyrst og fremst af fiskveiðum, en tekjur hefðbundinna íslenskra yfirstétta komu aðallega frá landbúnaði. Þetta útskýrir að nokkru leyti áhugaleysi íslenskra yfirstétta á eflingu fiskveiða.47
Nú sannast þetsta áhugaleysi ekki á yfirstéttarforingjann Ólaf Stefánsson, sem gegndi embætti amtmanns norðanlands og austan, en streittist gegn því að setjast að fyrir norðan, eins og ætlast var til, og naut aðstöðu syðra til að stunda útgerð og annan atvinnurekstur, sem hann hafði með höndum samfara embættinu.
Það hefur lengi verið sannfæring íslendinga, að sérleyfisverslun dana hafi kostað þjóðina mikið. Ég vænti þess í riti Gísla, að hann skýrði, hvað það hefði breytt miklu um verð á skreið, saltfiski, sauðakjöti, tólg, gærum og prjónlesi, ef íslendingar hefðu mátt versla við hvern, sem þeim sýndist, en hann hagnýtir ekki fjölbreytt gögn sín til þess að meta áhrifin á verðlagið. Er hér bæði átt við gögn frá tímum sérleyfisverslunarinnar og verðlagsbreytingar eftir afnám hennar. Þá komust kaupmenn í einokunaraðstöðu hver í sínu héraði, en voru nú ekki bundnir af verðlagsákvæðum.
Með því að hagnýta gögnin þannig hefði e.t.v. mátt mynda sér skoðun um það, hvort verðhækkunin hefði nægt til að skjóta fótum undir þær tilraunir, sem gerðar voru með „útgerð að erlendum hætti,“ en vitaskuld hefði bátaútvegurinn einnig notið góðs af verðhækkuninni. Í framhaldi af því hefði e.t.v. mátt álykta um áhrif verðlagsins á þróun samfélagshátta.
Ýmsar athugasemdir má samt finna um áhrifin og þá helst um landbúnaðarafurðir. Þannig kemur fram, að skagfirðingar fengu helmingi meira fyrir sokka, sem þeir seldu ólöglega í hollenskar skútur, en í sérleyfisversluninni, en að áliti Skúla Magnússonar var tekið fyrir þetta árið 1741. 40 árum síða taldi hann, að missir þessara viðskipta hefði verið „ein meðverkandi orsök, hvað fyrir Norðurlandi hefur svo mjög aftur farið.“47 Á síðari hluta 18. aldar áskildu stjórnvöld sér í samningum vegna Íslandsverslunar íslenskt kjöt á verði undir markaðsverði,48 og var hernum (aðallega flotanum) ætlað kjötið. Hvorttveggja var afurðir sauðfjár og bitnaði á verði þeirra, en verslanir sauðfjárræktarhéraðanna hlutu um leið að skila kaupmönnum minni gróða.
Hins vegar gerir Gísli samanburð á tekjum verslunarinnar af afurðum sjávarútvegs og landbúnaðar með verðlagi sérleyfisverslunarinnar. Þannig byggist tafla 10.3, sem hann vísar oft til. Á því verði, sem ríkið áskildi sér fyrir kjöt. Skilmálar þeir, sem ríkið setti versluninni, voru þríhliða: Kaupmenn gátu grætt á sjávarafurðum, ríkið skyldi fá hluta af þeim gróða í kjöti á undirverði handa hermönnum sínum, en íslendingum skyldu tryggðar ódýrar vistir nauðsynja. Kvaðirnar voru tvöfaldar á kaupmenn sláturhafnanna, en einfaldar á kaupmenn fiskihafnanna, enda sóttust kaupmenn frekar eftir því að fá þar verslunarleyfi. Framangreind sundurliðun á tekjum Íslandsverslunarinnar eftir afurðum er því út í hött.
Enn er að nefna athugasemd Gísla um prjónlesverð:50
Verslunin með prjónles var einokunarversluninni óhagstæð eins og sjá má í töflu 10.3. Eigi að síður sóttust einokunarkaupmennirnir eftir því að halda henni og yfir því lágu góðar ástæður líkt og Carl Pontoppidan benti á árið 1787: Þótt ullarverslunin skoðuð ein sér skilaði tapi, var góður hagnaður af því að skipta á ullarvörum fyrir tóbak.
Gísli skýrir þetta ekki frekar. Á tilvísuðum stað í riti Pontoppidans er tóbak ekki nefnt. Hins vegar segir þar frá hollensku skipi vopnuðu sex fallbyssum, sem tekið var hér við land árið 1740 (mun hafa strandað), hlaðið prjónlesi frá Færeyjum og Íslandi og minna magni frá Hjaltlandi. Fjárbændur og húsfreyjur þeirra hafa sýnilega séð sér hag í því að selja tóvinnu heimilanna ólöglega í stað þess að fylgja verðlagsákvæðum sérleyfisverslunarinnar. Hér virðist hafa verið um miklu meiri kaup á prjónlesi að ræða en að hollenskir skútusjómenn hafi aðeins verið að kaupa á sig föt, sem þá bráðvantaði í úthaldinu.
Ekki er alltaf auðvelt að túlka gerðir fjarstaddra manna ókunnra. Gísli eignar íslendingum 17. og 18. aldar hiklaust ýmsa eiginleika, stundum með tilvísun til athugana í öðrum löndum á öðrum tímum, stundum með tilvísun til danskra manna, sem voru að afsaka lítinn árangur í starfi sínu hér, en án annarra heimilda. Ég mun rekja nokkur dæmi um einkunni, sem íslendingar hljóta hjá Gísla. Þegar hefur verið minnst á, hvernig Gísli telur vörn alþingis árið 1592 fyrir frjálsri samkeppni í verslun sprottna af íhaldssemi og hvernig hann telur andstöðu við marköngla af sömu rótum, þótt greinargerð Lúðvíks Kristjánssonar gefi ekki tilefni til slíks.
Á bls. 118-19 ræðir Gísli um afstöðu bónda til þess að fara í verið eða sitja heima að búi sínu. Þar er engin grein gerð fyrir, hvernig verstöðvasókn og sauðakjötssölu var háttað eftir héruðum. (Í riti Lúðvíks Kristjánssonar um íslenska sjávarhætti má finna mikinn fróðleik um verferðir, en Gísli getur þess rits að engu.) Í heimi bónda gerir Gísli ekki ráð fyrir tillitssemi bónda við eiginkonu, börn né yngri systkini. Ekki er óhugsandi, að slík tillitssemi hafi dregið úr skagfirskum eða eyfirskum bóndasyni að fara suður í stríðið, fyrst gangandi yfir fjöll og heiðar um hávetur og svo í lífsháskann á sjónum. Mér hefur þótt meira undrunarefni sá heragi, sem tíðkaðist hér á vetrarvertíð, en það, að menn hlífðu sér, og er mér raunar alls ókunnugt um slíkt.
Gísli setur gagnrýnislaust fram skoðun forstjóra ríkisverslunarinnar 1781 um, „að almenn andstaða hafi verið í landinu gegn öllum nýjungum.“51 Þegar að er gáð, orðar Bech það, sem Gísli kallar almenna andstöðu gegn öllum nýjungum, þannig:52
thi det gaaer her som paa andre steder, at der altid findes nogle, som sætte sig imod nye endog gode Indretninger, og er det af dem, som ere formaaende, virker det undertiden derhen, at saadanne Indretninger indgaae.
Hér fer því sem annars staðar, segir hann, að alltaf eru þeir til, sem snúast gegn nýjum og meira að segja þörfum fyrirtækjum, og séu þeir í hópi þeirra, sem mega sín nokkurs, kann það að stöðva fyrirtækið.
Þeir, sem stóðu fyrir nýsköpunartilraunum ríkisins hér á landi, þurftu vitaskuld að afsaka vandræði sín og taprekstur. Það er hlutverk sagnfræðingsins að fara ofan í saumana á málum og kanna, hvað brást. Að því kom, að íslendingar, sem lifðu um aldir í slíkri áhættu, að líkja má við mörg hundrað ára stríð, tóku upp nýjungar. Við spyrjum sagnfræðinga, hvort breytingar hafi orðið við það, að víðsýni hafi komið í stað andstöðu við nýjungar, dirfska í stað hræðslu við áhættu, eða hvort eitthvað hlutlægara hafi breyst, svo að ekki þurfi að grípa til skýringa, sem erfitt er að dæma um, svo sem áhættuhræðslu og almennrar andstöðu við nýjungar.
Gísli verður sjálfur fyrir barðinu á slíkum hleypidómi í ritdómi Gustafssons.53 Gísli fjallar nefnilega um gildi Íslandsverslunarinnar fyrir Kaupmannahöfn í sérstakri grein (10.5). Gustafsson getur þess eins, að Gísli, sem lesandi má vita, að er íslendingur, sé um það mál sömu skoðunar og íslenskir þjóðernissinnar hafi verið, en greinir ekki frá rökum Gísla í málinu.
Því lengur sem ég les, því furðulegri þykir mér öll sviðsetning Gísla á andstöðu höfðingja við samfélagsbreytingar. Fleiri eru undrandi. Gustafsson, sem er sérfræðingur í stjórnsýslu á Íslandi á 18. öld, segir í áðurnefndum ritdómi sínum:
But when Gísli Gunnarsson deals with the broader issues, it is not always clear whether his statements are conclusions based on solid research, tentative hypotheses, or pure speculation.
Afkoma höfðingja 17. og 18. aldar var háð góðri afkomu almennings. Bjargarskortur almennings bitnaði á heimilum höfðingja. Landskuldir hlutu að heimtast betur, ef gæði jarðanna voru vel nýtt, m. a. með sjósókn og verferðum.
Ætla verður, að hugmyndaheimur höfðingja hafi miðast við ofangreinda hagsmuni. Eðlilega gat orðið ágreiningur um, hvað helst væri til ráða til að styrkja hag þjóðarinnar. Ekki hafa komið fram sannfærandi dæmi um, að höfðingjar hafi snúist gegn þjóðþrifamálum af ótta við röskun á valdastöðu sinni. Það var meira en hagsmunir reiknaðir í ríkisdölum, sem var í húfi, ef landbúnaðurinn brást, það var líf almennings. Sá, sem skilur þetta ekki, hlýtur að misskilja flest annað varðandi afstöðu 18. aldar manna til bjargræðisvega þjóðarinnar.
Þegar litið er til baka, má skilja, hvaða forsendur vantaði til framþróunar. Reynslan skar úr um það á fyrri hluta 19. aldar, að efnabændur og kaupmenn höfðu fullan hug á að nýta gæði sjávarins og gerðu það, þegar forsendur voru til þess, og héldu þannig uppi því merki, sem Ólafur Stefánsson hóf með atvinnurekstri sínum. Ekki hafa verið færð rök að því, að tengsl landbúnaðar og sjávarútvegs hafi spillt þar fyrir, hvorki í löggjöf né í atvinnuháttum.
„Sérhver öld skapar sagnritun í sinni mynd.“ Svo ályktar Gísli í lok rits síns.54 Það hlýtur samt að vera keppikefli hvers sagnfræðings að skila þannig verki, að það sé sem minnst skapað í mynd höfundarins eins. Gísli hefur ekki skapað þjóðfélagssögu 17. og 18. aldar í mynd sinnar aldar með riti sínu, til þess er hún of hlaðin hleypidómum, sem öldin mun ólíklega vilja eigna sér.
Auk þess sem dómgirni einkennir verkið,55 vantar þar skilning nútímans á forsendum farsællar samkeppni. Einnig skortir skilning á því, hvernig almenningur tryggði afkomu sína á 17. og 18. öld, þegar flest vantaði, sem almenningur hagnýtir sér nú til að jafna hag sinn, svo sem lífeyrisréttindi, tryggingar, innstæður, fasteignir og lán.
Verslunarfyrirkomulag það, sem kallað hefur verið einokunarverslun (monopolhandel) dana á Íslandi, var fólgið í því, að ríkið veitti sérleyfi til verslunar með vissum skilyrðum. Slíkt fyrirkomulag er skyldast núverandi skipulagi á áætlunarleiðum, þar sem stjórnvöld úthluta sérleyfum á landi og í lofti og ákveða fargjald og ferðir. Orðið monopol þýðir einkaleyfi, einkaréttur eða einokun. — Eftir afnám sérleyfisverslunarinnar 1787 komust sumar verslanir í einokunaraðstöðu vegna fámennis og einangrunar héraðanna, einokun í verslun var því ekki afnumin árið 1787.
Two points made by Gísli Gunnarsson in his book, Monopoly treade and economic stagnation. Studies in the foreign trade of Iceland 1602-1787, are discussed here, the claim that the Icelandic ruling classes placed restrictions on the development of the fishing industry for fear that their dominant position might be undermined, and secondly that by influencing the price decrees of the monopoly period they transferred profit from the fisheries to agriculture.
As a starting point, it is necessary to consider the conditions accorded the public by a primitive economy. There was little money in circulation. Merchants insisted on barter in their dealings with the Icelanders and did not allow people to remain in credit. Income fluctuated along with the fish-catches and people were usually compelled to spend their income as soon as they earned it. In sheep-farming, conditions were different. Through sheep-breeding, the households were able to acquire some cash in the autumn. The possession of sheep was like having money on deposit, which could be drawn according to need and circumstances.
It has been argued that various regulations applying to fishing operations, the employment of workmen and projects undertaken by merchants may have diminshed the profit the Icelanders derived from the fisheries. These arguments do not stand up to ciriticism. Even less can it be argued that such regulations were enforced in order to discourage Icelandic enterprise. The reason why new developments within the fishing industry happened so late appears to be that reforms did not seem profitable nor did attempts at renewal prove so. There is no evidence that a fishing industry run by foreign merchants might have become the basis of economic growth in Iceland.
There was disagreement about industrial policy among influential people in Iceland during the latter part of the 18th century. The leader of those who turned againtst Skúli Magnússon`s proposals, Governor Ólafur Stefánsson, owned ships himself and ran a manufacturing workshop on a foreign model. He wanted merchants to establish workshops in the trading centres in cooperation with the Icelanders. His attitude to Skúli Magnússon`s proposals cannot be explained as opposition against any changes in the fisheries which might prove profitable, nor as opposition against a solidly-based industry in the trading centres.
The price rates imposed by the government on the monopoly were not in proportion to the value of the produce nor the cost of foreign input. The government appropriated for the armed forces a quantity of the mutton which was put up for export and paid less than the current price. The farming population in the sheep-breeding areas profited by selling woollen goods illegally without the knowledge of the monopoly merchants. It has not been calculated what would have been fair price-rates for the produce derived from the major sources of livelihood, agriculture and fishing.
Translated by Steinunn Einarsdóttir
1 |
Sjá aftanmálsgrein. |
2 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987. |
3 |
Helgi Skúli Kjartansson: „Móðuharðindi af manna völdum?” Tímariti Máls og menningar 46, 129-32. Reykjavík 1985. Umsögn. |
4 |
Gísli Gunnarsson: Monopoly trade and economic stagnation: Studies in the foreign trade of Iceland 1602-1787. Skrifter utg. af Ekonomisk-historiska föreningen i Lund XXXVIII. Lundi 1983. |
5 |
Jón Jónsson Aðils: Einokunarverzlun Dana á Íslandi 1602-1787. Reykjavík 1919. |
6 |
Lúðvík Kristjánsson: „Þegar flytja átti Íslendinga til Vestur-Indía.” Sögu 9, 140-57. Reykjavík 1971. |
7 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, kaflarnir 12.1 og 5.5. |
8 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 198, bls. 16. |
9 |
Þorkell Jóhannesson: Búnaðarsamtök á Íslandi 1837-1937, 20. Reykjavík 1937. |
10 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 78. |
11 |
Páll Eggert Ólason: Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi III, 650-53. Reykjavík 1924. |
12 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 38. |
13 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 56-7. |
14 |
Lovsamling for Island I, 141. |
15 |
Sögu Íslendinga VI, 13. |
16 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 250. |
17 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 253. |
18 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 254. |
19 |
Lúðvík Kristjánsson: Íslenzkum sjávarháttum III, 311-12. Reykjavík 1983. |
20 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 252. |
21 |
Lúðvík Kristjánsson: Íslenzkum sjávarháttum II, 29-33. Reykjavík 1982. |
22 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 34-35. |
23 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 253. |
24 |
Hans Christian Bech: Om handelen paa Island, 56. 1781. Handrit á Landsbókasafni. |
25 |
Lára V. Júlíusdóttir: Þættir úr vinnurétti II. Lög og samningar. Reykjavík 1986. Menningar- og fræðslusamband alþýðu. |
26 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 42. |
27 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 33. |
28 |
Í hagskýrslunni, bls. 19, eru þeir reyndar 391. |
29 |
Í Gísli Gunnarsson: Monopoly trade and economic stagnation: Studies in the foreign trade of Iceland 1602-1787. Skrifter utg. af Ekonomisk-historiska föreningen i Lund XXXVIII. Lundi 1983, bls. 21, eru aldursmörkin raunar níu árum hærri: „below the age of 40“. |
30 |
Ólafur Oddsson: Ólafur Stefánsson og tilraunir hans með iðnað og útgerð að erlendum hætti, 1 og 2. |
31 |
Ólafur Oddsson: Ólafur Stefánsson og tilraunir hans með iðnað og útgerð að erlendum hætti, 45. |
32 |
Ólafur Oddsson: Ólafur Stefánsson og tilraunir hans með iðnað og útgerð að erlendum hætti, 72. |
33 |
Ólafur Oddsson: Ólafur Stefánsson og tilraunir hans með iðnað og útgerð að erlendum hætti, 79. |
34 |
Ólafur Oddsson: Ólafur Stefánsson og tilraunir hans með iðnað og útgerð að erlendum hætti, 102. |
35 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 42-3. |
36 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 238-9. |
37 |
Jón Sigurðsson: Lítil varníngsbók, bls. 67. Kaupmannahöfn 1861. |
38 |
Sbr. búalög, Skúla Magnússon: Sveitabóndi: Riti Lærdómslistafélagsins IV, 182. 1784, og Ferðabók Eggerts og Bjarna I, 120. 1981. |
39 |
Arnór Sigurjónsson: „Þættir úr íslenzkri búnaðarsögu.“ Árbók landbúnaðarins 1970, 11-100. |
40 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 116. |
41 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 117-18. |
42 |
Hans Christian Bech: Om handelen paa Island, 5. 1781. Handrit á Landsbókasafni. |
43 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 120. |
44 |
Lýður Björnsson: „Ágrip af sögu innréttinganna.“ Í Reykjavík í 1100 ár, 137. Safni til sögu Reykjavíkur. 1974. |
45 |
Landsnefndin 1770-1771. 1, 200. |
46 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, tafla 2.5. |
47 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 49. |
48 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 72. |
49 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, mynd 5.3. |
50 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 72. |
51 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987, 253. |
52 |
Hans Christian Bech: Om handelen paa Island, 56-7. 1781. Handrit á Landsbókasafni. |
53 |
Harald Gustafsson: Scandinavian studies 58, 67-8. 1986. |
54 |
Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987. bls. 268. |
55 |
Ég dæmi ekki um miðkafla ritsins, verslunarsöguna í þrengri skilningi, því að til þess hef ég ekki forsendur. |
Sögu 26 (1988), 131-51