Í tilefni af athugasemdum Gísla Gunnarssonar, „Álitamál, túlkun þess og vinnubrögð", í blaðinu 11. þ.m.

 

Nokkrir ritdómar birtust um enska útgáfu rits Gísla Gunnarssonar um verslunarlagið á 17. og 18. öld og þjóðfélagið. Einn ritdómaranna, Harald Gustafsson, sérfræðingur í stjórnsýslu hér á landi á 18. öld, komst svo að orði í Scandinavian Studies 1986 (í þýðingu minni): „En þegar kemur að því, að Gísli Gunnarsson fjalli um hin víðtækari mál (víðari en verslunarmálin, innskot BSt), er ekki alltaf gott að vita, hvort fullyrðingar hans eru niðurstöður byggðar á traustum rannsóknum, lauslegar tilgátur eða hvort hann hefur þar yfirleitt nokkuð fyrir sér."

Sagnfræðingafélag Íslands hélt ráðstefnu um nýsköpun atvinnulífs haustið 1986. Þar flutti Gísli upphafserindið, en ég tók að mér framsögu um erindi hans, sem ég hafði fengið til lestrar áður. Þar kynnti ég leiðbeiningar um vinnubrögð fræðimanna við að greina forsendur nýsköpunar og stöðnunar (sbr. Ritsafn Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands: Iðnbylting á Íslandi. 1987). Þegar rit Gísla, Upp er boðið Ísaland, birtist rúmlega ári síðar sá ég, að Gísli hafði haft ábendingu Gustafssons og leiðbeiningar mínar um vinnubrögð að engu. Ég samdi því væna ritgerð um ákveðin atriði í bókinni til birtingar í Sögu á komandi hausti, eins og Gísli greindi frá í athugasemdum sínum. Þar sem bókin hafði vakið allmikið umtal í dagblöðum, fannst mér skylt að sýna fram á það í blaðagrein, að það tvennt, sem helst hafði vakið athygli í henni, stæðist ekki. Gerði ég það í greininni „Nýsköpunartilraunir á 18. öld" í blaðinu 23. f.m.

Annars vegar rakti ég þar, hvernig Ólafur Stefánsson amtmaður, sem Gísli kynnti sem foringja íhaldssamrar valdastéttar, hefði með eigin fé beitt sér fyrir nýsköpun í iðnaði og sjávarútvegi, að því er virtist vitandi það að nýsköpun gæti ekki tekist án kaupstaðamyndunar. Með þessu sýndust mér ekki rök til að halda því fram, að andstaða Ólafs við ýmsar hugmyndir Skúla Magnússonar landfógeta hefði verið eiginleg andstaða við nýsköpun og kaupstaðamyndun. Gísli studdi skoðun sína á afstöðu Ólafs með tilvísun til rita hans, en athugaði ekki athafnir hans né ýmislegt ritað mál, sem Ólafur Oddsson dró fram í ritgerð sinni. Gísli kveðst samt ekki sjá ósamræmi í túlkun sinni og frásögn minni. Það nær þá ekki lengra gagnvart honum.

Hitt atriðið í Morgunblaðsgrein minni var sú kenning Gísla, að með verslunarlagi 18. aldar hefði fé færst frá sjávarútvegi til landbúnaðar. Ég hélt því fram með rökum, að hann hefði ekki reiknað dæmið. Á þetta atriði minnist Gísli ekki í athugasemdum sínum í blaðinu. Og meira á ég handa honum, sem ég geri mér vonir um, að hann geti sæst á, þegar að því kemur.

Gísli er ákafur að gefa einkunnir löngu liðnum mönnum, sem ekki geta áfrýjað. Ég fæ líka mína einkunn í athugasemdum hans og Morgunblaðið birtir einnig feitletrað og stórletrað undir mynd. Hún er svohljóðandi: „Björn Stefánsson er umfram allt að verja þá mynd af þessu gamla samfélagi, sem haldið hefur verið að íslendingum lengi; að það hafi einkennst af góðri menningu og samstöðu fólks, höfðingja og hjúa."

Ég kannast ekki við að eiga mér þessa mynd af 18. öldinni, og ég vísa ekki til menningarþjóðarinnar í greininni í einum né öðrum skilningi, og ekki er þar heldur orð að finna um samstöðu höfðingja og hjúa. Mynd mín af 18. öldinni var mest mótuð af ævisögu Jóns Steingrímssonar. Sú mynd var ekki fögur. Ég hef ástæðu til að brýna fyrir Gísla að lesa hana vandlega. Nei, „umfram allt" vakti fyrir mér með þessum skrifum að halda áfram þeirri umræðu um rannsóknir á breytingu þjóðfélagsgerðarinnar, sem fór fram á ráðstefnu Sagnfræðingafélagsins.

Það er misskilningur, sem Gísli heldur fram, að ég hafi fagnað birtingu rits hans á íslensku. Ég hef þann sið að leita til hollráðra gagnrýnenda með ritverk mín, áður en þau birtast. Eftir lestur þeirra og ábendingar kemur fyrir, að ég sjái ástæðu til að umturna því, sem ég hafði jafnvel haldið, að væri vel samið, vegna sjálfs mín og efnisins. Eftir ábendingar mínar og Gustafsson mátti Gísli skilja, að þetta þyrfti hann að gera, að endursemja þá kafla, sem lutu að þjóðfélagsgerðinni og viðhaldi hennar og umbreytingum.

Þar sem Gísla skaust yfir merka ritgerð Ólafs Oddssonar, minnist hann á það (í leiðréttingu til blaðsins 12. þ.m.), að það sé raunar mjög slæmt hve margar nemendaritgerðir við Háskóla Íslands hafi gleymst og þurfi sannarlega að bæta úr því. Menn mega vita, að í Háskólanum er skrá um þessar ritgerðir, og er hyggilegt að kynna sér hana, þegar fjallað er um íslensk málefni. Þar með er ekki sagt, að ástæða sé til að birta þær. Hið sama reynist mér vera um nemendaritgerðir þær á sviði þjóðfélagsmála, sem áður gáfu lísensíatgráðu, en nú doktorsgráðu í Noregi og Svíþjóð, að þær mega margar vera mál höfundar og leiðbeinenda hans og prófdómenda einna, þar með talin ritgerð Gísla. Hins vegar kann að koma fyrir, að ástæða sé til að semja upp úr þeim sérstaka ritgerð til birtingar, og vitaskuld hefði það átt við um ritgerð Gísla.

Úr því að Gísli skýrði frá væntanlegri ritgerð minni í Sögu (Sögufélag gefur út), sem ég taldi bæði vegna fyrirferðar og efnistaka eiga betur heima í fræðiriti en dagblaði, er ekki úr vegi að ljúka þessum skrifum með lokakafla hennar, sem ber yfirskriftina Að skapa sögu ísinni mynd. (Er það gert með leyfi ritstjórnar):

Afkoma höfðingja 17. og 18. aldar var háð góðri afkomu almennings. Bjargarskortur almennings bitnaði á heimilum höfðingja. Landskuldir hlutu að heimtast betur, ef gæði jarðanna voru vel nýtt, m.a. með sjósókn og verferðum.

Ætla verður, að hugmyndaheimur höfðingja hafi miðast við ofangreinda hagsmuni. Eðlilega gat orðið ágreiningur um, hvað helst væri til ráða til að styrkja hag þjóðarinnar. Vitaskuld stóðu höfðingjar varðstöðu um valdastöðu sína. Ekki hafa komið fram sannfærandi dæmi um, að þeir hafi vegna slíkrar varðstöðu snúist gegn þjóðþrifamálum. Það var meira en hagsmunir reiknaðir í ríkisdölum, sem var í húfi, ef landbúnaðurinn brást, það var líf almennings. Sá, sem skilur þetta ekki, hlýtur að misskilja flest annað varðandi afstöðu 18. aldar manna til bjargræðisvega þjóðarinnar.

Þegar litið er til baka má skilja hvaða forsendur vantaði til framþróunar. Reynslan skar úr um það á fyrri hluta 19. aldar, að efnabændur og kaupmenn höfðu fullan hug á að nýta gæði sjávarins og gerðu það, þegar forsendur voru til þess, og héldu þannig uppi því merki, sem Ólafur Stefánsson hóf með atvinnurekstri sínum. Ekki hafa verið færð rök að því, að tengsl landbúnaðar og sjávarútvegs hafi spillt þar fyrir, hvorki í löggjöf né í atvinnuháttum.

„Sérhver öld skapar sagnritun í sinni mynd." Svo ályktar Gísli í lok rits síns. Það hlýtur samt að vera keppikefli hvers sagnfræðings að skila þannig verki, að það sé sem minnst skapað í mynd höfundarins eins. Gísli hefur ekki skapað þjóðfélagssögu 17. og 18. aldar í mynd sinnar aldar með riti sínu, til þess er hún um of hlaðin hleypidómum, sem öldin mun ólíklega vilja eigna sér.

Auk þess sem ótamin dómgirni einkennir verkið (ég dæmi ekki um miðkafla ritsins, verslunarsöguna í þrengri skilningi, því að til þess hef ég ekki forsendur), vantar þar skilning nútímans á forsendum farsællar samkeppni. Einnig skortir skilning á því, hvernig almenningur tryggði afkomu sína á 17. og 18. öld, þegar flest vantaði, sem almenningur hagnýtir sér nú til að jafna hag sinn, svo sem lífeyrisréttindi, tryggingar, innstæður, fasteignir og lán.

Morgunblaðinu 25. m aí 1988