í tilefni af greinargerð Gísla Gunnarssonar „Frá bændaíhaldi til bændaframsóknar" í blaðinu 12. þ.m.
Í 2. jólablaði Þjóðviljans 1988 fjallar Einar M. Jónsson sagnfræðingur í París um rit Gísla Gunnarssonar „Upp er boðið Ísaland" (Þegar tímavíddin hættir að skipta máli og sagnfræðingurinn bregður sér í líki endurskoðandans). Hann vekur athygli á því að „þetta rit Gísla sé mjög eftir kokkabókum „Annálahreyfingarinnar" frönsku, sem nú er í þann veginn að verða sextíu ára gömul, og þá kannske einna helst annarrar kynslóðar hennar, þótt höfundur hafi aðferðir sínar fremur úr öðrum áttum. Helsta nýjung þessarar hreyfingar var sú að tengja saman sagnfræði og ýmis önnur þjóðfélagsvísindi, t.d. félagsfræði og hagfræði — en sagnfræðingar „annarrar kynslóðarinnar" lögðu einmitt mikið upp úr ýmsum greinum efnahagssögunnar — og fjalla um þjóðfélag fyrri tíma nánast því eins og þeir væru félagsvísindamenn að fjalla um eigin samtíma. Í riti Gísl er nýjungin fólgin í því að hann tengir saman á þennan hátt sagnfræði og hagfræði eða jafnvel viðskipta- og rekstrarfræði." Síðan rekur Einar málflutning Gísla í ítarlegu máli og ályktar að þar sé „traust og ítarlegt rit um afmarkað vandamál hagsögu Íslands með miklum upplýsingum, sem ekki hafa áður komið fram, og úrvinnslu úr þeim. Ef maður vildi vera með einhverjar aðfinnslur væri helst að nefna, að sú „sjálfsgagnrýni" Annálahreyfingarinnar, sem Jacques Le Goff nefndi hér á dögunum gæti að nokkru leyti átt við rit Gísla: sagnfræðingarnir frönsku eru sem sé komnir á þá skoðun að þeir hafi ekki gefið atburðasögunni eins mikinn gaum og skyldi, og á sama hátt mætti segja, að ritið hefði orðið enn skýrara ef Gísli hefði gert þeim atburðum, sem hann vísar til hér og þar og rekur stundum, skipulegri skil og fundið þeim stað í uppbyggingu bókarinnar." Svo mælti Einar.
Það var meginboðskapur Gísla, að íhaldssöm innlend valdastétt hefði af ótta við röskun á valdastöðu sinni sett þróun sjávarútvegs þröngar skorður, en þar hefði verið fyrirliði á síðari hluta 18. aldar Ólafur Stefánsson, amtmaður, síðar stiftamtmaður. Við lesturinn kom það mér mjög á óvart að Ólafur sem sat góðar jarðir við Faxaflóa og átti t.d. útræði á Skipaskaga hefði ekki viljað hafa sem mestan arð af sjávarútvegi. Þótt hann gegndi embætti amtmanns á Norðurlandi sat hann hér syðra nærri þeim auðlindum sem útvegsjarðirnar voru honum. Enda kom upp úr dúrnum að Gísla hafði láðst að kanna athafnir Ólafs, sem raunar mátti lesa um í óprentaðri kandídatsritgerð Ólafs Oddssonar með heitinu „Ólafur Stefánsson og tilraunir hans með iðnað og útgerð að erlendum hætti“. Þessi maður sem samkvæmt kynningu Gísla var fyrirliði þeirra sem vildu halda þjóðinni við búskap upp til dala var þá reyndar brautryðjandi í nýmælum í þeim atvinnurekstri sem hann taldi sjálfur ekki geta staðist nema í þéttbýli. Mér þótti ekki nóg að hrista höfuðið yfir slíkri fjarstæðu í riti Gísla, eins og sumir aðrir, heldur samdi athugasemdir um það sem birtust í Sögu 1988.
Það virtist sama hvar gripið var niður í þeim hluta ritsins sem varðaði annað en verslunarsögu í þröngum skilningi, að heimildin sem vísað var til reyndist ekki í samræmi við túlkunina. Hér var því um meira að ræða en það sem Einar hefur eftir Le Goff að franskir annálamenn hefðu lært á því að gefa atburðasögunni frekari gaum, heldur hrundi kenning Gísla eins og spilaborg. Gísli heldur því fram í Þjóðviljagrein sinni, að ég hafi ekki aðeins vefengt söguskýringar hans, heldur deili raunar einnig við fjölmarga aðra sagnfræðinga, sem hann hafi greint frá að framan, en af einhverjum ástæðum nefni ég hann einan. Nú er of seint fyrir mig að deila við þá Sverri Kristjánsson og Björn Þorsteinsson. Björn var um það líkur Gísla að hann sá sýnir í fræðastörfum sínum, en það var ólíkt að hann var fús að endurskoða afstöðu sína. Þó má sjá dæmi um endurskoðun í grein Gísla þar sem hann fjallar um ákvæði sem varðaði flesta sem voru búlausir og var þess eðlis að ráðning þeirra í vinnu og vist skyldi vera til árs í senn. Gísli fjallar nú um það af slíkum skilningi að ég vænti þess að sagnfræðistúdentum við Háskóla Íslands verði héðan í frá ljóst að ákvæðið lét það afskiptalaust hvort menn unnu við sjó eða í sveit. Sá sem stundaði útgerð mátti því ráða til sín tugi manna, ef hann sá sér hag í því. Annað dæmi um endurskoðun Gísla lýtur að mati hans á flutningi verðmæta milli verslana á sláturhöfnum og fiskihöfnum og danska flotans. Um það efni segir hann nú í Þjóðviljagrein sinni: „Björn dregur einnig í efa þá niðurstöðu í bók minni að einokunarverslunin hafi flutt verðmæti frá sjávarútvegi til landbúnaðar. Röksemdafærsla mín fyrir þessu var tiltölulega einföld og er eiginlega óhrekjanleg: Kaupmenn sigldu til Íslands til að kaupa fisk. Hann fékkst einkum á höfnum sunnanlands og vestan. Til að tryggja öllum landsmönnum jafnar siglingar voru handhafar siglingarheimilda á fiskihafnirnar jafnframt skyldaðir til að sigla á sláturhafnirnar norðanlands og austan. En að auki sýndi ég fram á með arðsemisútreikningum að hagnaður verslunarinnar átti fyrst og fremst uppruna í fiskversluninni. ... Birni tekst í raun og veru engan veginn að véfengja þessar augljósu staðreyndir um fiskihafnir og sláturhafnir einokunartímabilsins enda ekki mögulegt. Athugasemdir hans þar að lútandi renna út í sandinn og þarf ég hvergi að hafa fleiri orð um þær.“ Athugasemd mín um samanburð á gróða af fiskihöfnum og verslunarhöfnum laut að atriði sem Gísli fellir nú niður í endursögn sinni. Í bókinni sagði hann frá því að konungur skyldaði kaupmenn til að láta af hendi sauðakjöt á lægra verði en markaðsverð, en kjöt þetta var tekið í þágu flotans. Í arðsemisútreikningi sínum tók hann ekki tillit til þessa sérstaka álags á verslanir sláturhafnanna. Ég lýsti engri skoðun á því hver útkoman yrði, ef hann hefði sett markaðsverð á kjötið, benti aðeins á að hann hefði ekki hagnýtt sér þá vitneskju sem hann legði þó fram í bókinni og ég hélt jafnvel að hann hefði dregið fram í dagsljósið. Nú vill hann hvergi hafa fleiri orð um þessa skemmtilegu ábendingu sína um það hvernig danir kostuðu vígbúnað sinn með álögum á verslanir sauðabænda á Íslandi, en þær áttu svo kost á því að bæta sér það með ágóða af verslun með fisk. Mér þykir það miður, því að ég hefði viljað spyrja hann hvers vegna flotastjórnin kaus ekki heldur að taka fisk af verslununum á niðursettu verði. Ég hefði haft meiri trú á sjóliðum sem lifðu á harðfiski með smjöri en saltkjöti og baunum. Eins og ég bendi á með dæmum í grein minni í Sögu fer Gísli frjálslega með heimildir. Ég ætlað honum ekki að vilja fara rangt með, heldur er hugurinn svo mikill að flytja boðskapinn að hann ræður ekki við orð sín. Í Þjóðviljagrein sinni kemst hann ekki lengra en í 3. málsgrein án þess að fara með ýkjur, eins og nú skal greint. Þar segir frá umskiptum í sveitum landsins tímabilið 1880 til 1930: „Við lok tímabilsins bjó allur þorri íslenskra bænda á eigin jörðum ..." Athugun í jarðamati 1932 leiðir hins vegar í ljós að í þeim sýslum þar sem bændur voru flestir, Árnessýslu og Rangárvallasýslu, var minna en helmingur bænda í sjálfsábúð, en á landinu öllu voru bændur í sjálfsábúð ekki fyllilega þrír af hverjum fimm. Fáir mundu kalla það allan þorra sem ekki nær því hlutfalli. Menn sem sjá sýnir geta verið eins og salt jarðar, en því aðeins að þeir forðist villuljós og ýkjur. Þeir sem eiga nokkuð undir sér hafa stundum aðstoðarmenn til að endurskoða mál sitt. Lúðvík Jósefsson hafði um nokkurra ára skeið þann hátt á þegar hann var að undirbúa málflutning sinn fyrir almenningi að hann lét Jón Böðvarsson hlusta á ræðu sína. Jón sagði mér að Lúðvík hefði líklega viljað ganga úr skugga um að almenningur skildi málið og hefði þóst mega treysta því að það sem hann skildi mundu aðrir líka skilja. Annar heldri maður birtir stundum minningargreinar í dagblöðum. Mig undraði lengi að hann skyldi komast yfir þetta auk annasamra og ábyrgðarmikilla starfa og samt sá ekki þreytu á manninum. En nú veit ég að hann kann að láta vinna fyrir sig. Hann hefur mann til að semja greinarnar, leggur honum aðeins línurnar, en lætur hann afla fullrar vitneskju og semja. Þjóðin mundi njóta sýna Gísla betur ef hann léti gætna aðstoðarmenn sjá um frágang ritsmíða sinna.
Þjóðviljanum 25. maí 1989