Fjallað er um þá skoðun Gunnars Halldórssonar, Jóns Ó. Ísbergs og Theodóru Þ. Kristinsdóttur (GJTh), að menn hafi af hollustu við lúterskan rétttrúnað tafið fyrir hagkvæmum nýmælum í atvinnuháttum. Þegar dæmi þeirra eru rýnd, kemur í ljós, að undir lok tímabils hins lúterska rétttrúnaðar höfðu verið teknar upp við fiskveiðar hagkvæmar aðferðir, sem höfðu verið bannaðar við upphaf hans. Rætt er um, hvernig vanda megi vinnubrögð til að forðast hleypidóma um gerðir manna og hvatir.

Áherslur í stjórnmálasögu hafa verið misjafnar. Lengi var persónusaga ríkjandi. Í stjórnmálafræði var viðfangsefnið lengst af formlegir stjórnarhættir og yfirlýsingar um þjóðfélagshugsjónir. Það er ekki langt síðan stjórnmálafræðingar fóru að marki að skyggnast í reyndina. Könnun á þjóðfélagsformi og yfirlýsingum um stefnu er eitt, athugun á reynd og gerðum annað.

Í Sögu 1988 1 fjallaði ég um þá kenningu Gísla Gunnarssonar, 2 að íslenskir landeigendur hefðu öldum saman snúist gegn hagkvæmum nýmælum í efnahagsmálum til varnar þeirri þjóðfélagsgerð, sem bar þá uppi. Í athugasemdum Gísla í Sögu 1989 3 telur hann sig ekki þurfa að svara gagnrýni minni efnislega þar, heldur vísar til greinar sinnar í Morgunblaðinu 11. maí 1988. 4 Ég vil þá vekja athygli á leiðréttingu hans við þá grein í sama blaði daginn eftir, 12. maí, svari mínu í Morgunblaðinu 25. sama mánaðar 5 og lokum ritdeilu okkar í Þjóðviljanum vorið 1989. 6

Í sama hefti Sögu (1989) skýra þrír nemendur í Háskóla Íslands viðbrögð ráðamanna við nýmælum í atvinnuháttum með hollustu þeirra við lúterskan rétttrúnað. 7 Höfundarnir (GJTh) halda því fram, að Lúter hafi mælt gegn framtakssemi og vísa þar til rits sagnfræðingsins Tawneys, sem kom út árið 1948. Þar hefði átt við að geta heimilda um sem nýjast mat sagnfræðinga á skoðun hans.

Látum vera, hvað rétt kunni að vera hjá Tawney, en ekki kemur fram, að hann hafi athugað tengsl trúarkenninga og efnahagsmála á Íslandi. Því hljóta menn að spyrja, hvernig þau atriði lútersks rétttrúnaðar, sem lúta að framtakssemi hafi verið kynnt á Íslandi. GJTh vísa þar til guðsorðabóka yfirleitt, en tilgreina Jón Vídalín einan. Ræðubók hans kom út 1718-20, við lok þess tímabils, sem yfirvöld kirkjunnar kenndu lúterskan rétttrúnað. GJTh kynna boðskap Jóns í stuttu máli og með einni tilvitnun, þar sem Jón segist vænta, „að svo hafi flestir auðgast, að þeir eða þeirra forfeður hafi tekið nokkuð ranglega frá öðrum.“ 8 Þessi athugasemd reynist vera í prédikun á pálmasunnudag gegn stærilæti, en þar segir nokkrum línum ofar:

Láti því enginn ofurdátt að sjálfum sér, því allt hvað vér höfum, hvað gott eður kostulegt sem það er, það er þó allt saman lánsfé og ekki vort eigið. Segið mér: Hvar af skyldu menn þó stæra sig? Af auð og ríkidæmi? Því skyldi ég hroka mér upp af því, sem lukkan kann eins að gefa níðingi svo sem besta manni, sem aflað er með mikilli áhyggju á mörgum árum, en fargast í einu augnabliki, ef til vill? 9

Ég er ekki lesinn í guðsorðabókum 17du aldar, en fleyg eru orð Jóns Vídalíns í prédikun á 3ja sunnudag í aðventu: „Þann veg hef ég nú sýnt, bræður mínir, að ríkdómur og fátækt eru Guði jafn kær, þegar með hvorttveggja er réttilega farið.“10

Athugið, að ríkur maður er að áliti Jóns guði ekki síður þóknanlegur en fátækur. Þar sem flestir kjósa frekar góð efni en fátækt, er því ekki fundið að því, að menn reyni „réttilega“ að komast í góð efni. Eitt er að finna að því, að menn dragi sér fé með rangsleitni, en annað að finna að framtaki í atvinnurekstri. Enn stíga í stólinn lúterskir prestar, stuðningsmenn frjáls framtaks og samkeppni, og biðja menn að fara „réttilega“ með fé sitt.

Það er því lítið hald í þessari einu tilvitnun GJTh.

Í þessu sambandi hefðu höfundar mátt gera grein fyrir því, á hvern hátt kirkjuleiðtogar á tímum lútersks rétttrúnaðar voru til fyrirmyndar um framtak um auðsöfnun. Hvað kenndu þeir Guðbrandur Þorláksson, biskup á Hólum 1571-1627, og Brynjólfur Sveinsson, biskup í Skálholti 1639-74, íslendingum um framtakssemi með fordæmi sínu? Eða Páll í Selárdal (1621-1706), hámenntaður prestur, og gerði út skútu?

Ekki kemur fram, hvaða árabil GJTh telja mótað af lúterskum rétttrúnaði. Venjulegt mun vera að eigna honum tímann frá 1580, en að honum ljúki um 1730. Það ár kom til ríkis í Danmörku Kristján konungur VI. Með honum „náði Pietisminn fullkomnum tökum í Danmörku …“ 11 Þau nefna dæmi um það, sem þau telja vera andóf gegn framtakssemi allt frá Píningsdómi árið 1490, en Lúter fæddist árið 1483. Að Kristjáni konungi VI föllnum árið 1746 tekur við tími upplýsingarstefnunnar. GJTh fjalla um þessi þrjú tímabil kirkjukenninga í Danmörku, eins og það sé allt tími lútersks rétttrúnaðar.

Undir hvaða áhrifum skyldu þeir hafa verið, sem stóðu að Stofnununum í Reykjavík um miðja 18. öld? Skyldu þær hafa verið lagðar niður, vegna þess að hugmyndir Lúters höfðu náð sterkari tökum á mönnum? Hvernig verður það vitað? Hitt er vitað, að stórfé tapaðist á Stofnununum, ekki síst á þilskipaútgerðinni,12 og sömuleiðis töpuðu þeir Ólafur Stefánsson amtmaður og Thodal stiftamtmaður stórfé á þilskipsútgerð sinni. Á að skilja það sem hollustu við rétttrúnað Lúters, sem raunar var úr gildi fallinn í Danmörku, að menn vildu ekki halda áfram slíkum taprekstri? Hlaut ekki íslenskur ráðamaður að gera sig hlægilegan, ef hann að fenginni þessari reynslu byði fram fé í slíka útgerð eða mælti með slíkum útgerðarháttum við stjórnvöld árið 1785? Hvar stóðu danir sjálfir á 17du og 18du öld í þessum efnum? Trúarkenningar á Íslandi voru fengnar frá yfirstjórn kirkjunnar í Danmörku. Varð ekki nokkur nýsköpun í atvinnurekstri dana á hinum viðurkennda tíma lútersks rétttrúnaðar á 17du öld og fyrsta þriðjungi 18du aldar fyrir framtak einstaklinga?

Framtíðarsýn Páls Vídalíns

Ég er ekki sagnfræðingur, en fór að kynna mér forsendur þær, sem Gísli hafði fyrir ályktunum sínum um afstöðu heldri manna til atvinnuhátta af áhuga á vinnubrögðum við þjóðfélagsgreiningu. Mér þótti merkilegt, þegar ég kannaði ýmsar heimildir Gísla, að ég las iðulega úr þeim allt annað en hann. Sagnfræði hans varð vissulega spennandi, en á annan hátt en sagnfræði hefur þótt spennandi.

Nokkuð líkt þessu varð uppi á teningnum, þegar ég fór að kynna mér heimildir GJTh, að þar lesa þau annað en ég. Lítum fyrst á, hvernig þau vísa til skoðunar minnar í Sögu 1988: 13

Hann virðist líta svo á, að ekkert í löggjöf landsins, atvinnuháttum eða hugarfari manna hafi hamlað gegn þróun sjávarútvegs, heldur hafi einungis skort efnahagslegar forsendur, svo sem peninga og markað.

Ályktun mín á tilvitnuðum stað var takmarkaðri, nefnilega, að ekki hafi „komið fram sannfærandi dæmi um, að höfðingjar hafi snúist gegn þjóðþrifamálum af ótta við röskun á valdastöðu sinni.“ 14 GJTh nefna dæmi, þar sem afstaða lútersks rétttrúnaðar til framtakssemi komi fram, og segja, að um það hafi virst ríkja

allgott samkomulag með „betri bændum“ landsins, hvort sem þeir höfðu aðgang að sjávarjörð eða ekki, að komið skyldi í veg fyrir, að einstaka menn gætu með svokallaðri gróðafíkn spillt „hagsmunum heildarinnar.“ Þannig var snúist gegn „þjóðþrifamálum“ af ótta við breytingar í samfélaginu. 15

Athugum nokkur dæmi.

Í greininni í Sögu nefndi ég rökstudda tillögu Páls Vídalíns um stofnun kaupstaðar sem dæmi um áhuga betri bænda á nýsköpun. Þegar þau líta nánar á viðreisnartillögur Páls, komast þau að svofelldri niðurstöðu: 16

Þær skorður, sem hann vildi setja þessari þéttbýlismyndun, sýna aftur á móti glöggt, hve fráleitt væri að líta á tillögu hans sem hugmynd að meiri háttar breytingum á atvinnu- og samfélagsháttum.

Þessi niðurstaða er m.a. rökstudd þannig:

Páll gerði aðeins ráð fyrir, að stofnað yrði eitt kauptún í landinu og þaðan gerð út fimm þilskip í upphafi. Í þessu litla kauptúni skyldi safnað saman pörupiltum og öðrum fátæklingum, sem erfitt ættu með að sjá sjálfum sér farborða til sveita. Markmið Páls var því ekki síst að létta af bændum fátækraframfærslu, styrkja þannig stétt sína efnahagslega og vinna jafnframt bug á eymd utangarðsmanna.

Í greininni í Sögu 1988 vísaði ég til hugsjónar Páls, sem hann setti fram á latínu, samkvæmt traustri ábendingu, en án frekari athugunar, enda er ég slakur latínumaður. Hvað sá ég þá, þegar ég las um tillögur Páls á þeim síðum, sem GJTh vísa til í nýlegri íslenskri útgáfu? 17 Ég verð að verja nokkru rúmi til samanburðar:

Eftir tillögum höfundar skyldi fyrsta verkefni amtmannsins vera að vinna bug á eymd almúgans með bættum búskaparháttum og rétta við alla heimilisstjórnun. Besta ráðið til þess hugði hann vera að stofna dálítið kauptún. Þangað skyldi safnað pörupiltum á aldrinum 12-21 árs og þar ættu þeir að læra hinar nauðsynlegustu handiðnir, einkum þó þær er þjónuðu meðferð ullar- og skinnavöru, en til að kenna þeim yrði að fá erlenda meistara. Í kaupstaðnum þyrftu að vera minnst fimm fiskiskútur (húkkortur) og svo margir Norðmenn sem þörf krefði til að kenna síldveiði og síldarverkun. Hvorttveggja yrði að stunda allt árið, eftir því sem tíðarfar leyfði. Þessir menn skyldu búsettir í kaupstaðnum allt árið? Manna ætti skúturnar að nokkru leyti heilsuhraustum lausamönnum en að nokkru kvæntum fátæklingum, sem aðeins ættu eitt barn undir 12 ára aldri. Þá væri hægt að venja unglingana við sjómennsku, svo að þeir þegar fram í sækti gætu sótt afkomu sína í sjóinn á samskonar veiðiskipum. 18

Til hvers taldi Páll, að þetta mætti leiða í atvinnuháttum?

Þá hyggur höfundur, að fiskimennirnir gætu eignast hús sín og skútur, með því að þeir nytu skattfrelsis í nokkur ár og jafnframt hins örugga hagnaðar. Því hver erlendur skipstjóri þyrfti ekki nema tvo útlendinga með sér á skipið. … Ekki væri nema sanngjarnt að landsmenn greiddu fyrir útvegun þess (þ. e. fæðis á skipin, BSt), þar sem skútuútgerðin losaði þá við lausingjalýðinn. … Af fiskveiðunum og iðnaðinum skapaðist svo verslun af sjálfu sér, bæði milli landsmanna sjálfra og við útlendinga, … 19

Hvernig yrði þetta „litla kauptún“ og hvernig mundi þjóðin menntast?

Höfundur hugsar sér margskonar hagsbætur af þeim stofnunum, sem kæmu í kjölfar kaupstaðarmyndunar … fleiri greinar kunnáttu, þekkingar og ýmissa stofnana, svo sem reikni- og stýrimannaskóla, skíðaíþrótt, vega- og brúargerð. … Í bænum mundu margir vandræðagripir og lítils nýtir menn breytast í dugandi borgara og raunverulega fjölga þjóðinni og bæta efnahag hennar því að upp kæmu nýjar atvinnugreinar og hinar eldri yrðu betur stundaðar. 20

Það er bjart yfir þessum bæ. Mér verður hugsað til fyrirmynda í Danmörku, sem Páll og aðrir íslenskir höfðingjar máttu þekkja. Þar, sem annars staðar í nálægum löndum, mátti sjá framvöxt kauptúna, sem landeigendur áttu hlut í og höfðu hag af.

Hvernig gat leiðtogi eins og Páll helst sannfært lesendur um ágæti hugsjóna sinna? Hann benti á aðgerð, sem stefndi til nýrra atvinnu- og samfélagshátta og var um leið lausn á því, sem var mál málanna á líðandi stund, en það var að létta ómagabyrðina.

Var það ekki eitthvað þessu líkt, sem átti að koma í framkvæmd með Stofnununum í Reykjavík hálfri öld síðar? Þegar Ólafur birti sitt um jafnvægi bjargræðisveganna aldarþriðjungi síðar, hafði hann fylgst með og tekið þátt í misheppnuðum nýmælum í atvinnuháttum, þ. á m. þilskipaútgerð.

Það er skemmtilegt að greina persónutengsl þeirra, sem í orði og í reynd áttu frumkvæði að nýsköpunartilraunum á 18du öld. Tengdasonur Páls Vídalíns, Bjarni Halldórsson sýslumaður á Þingeyrum, var einn þeirra höfðingja („landeigenda“), sem lögðu fé í Stofnanirnar. Hann kostaði Ólaf Stefánsson til náms að föður hans látnum. Starfsferill Ólafs hófst á skrifstofu Stofnananna. Magnús Gíslason amtmaður var þar í forystu og varð tengdafaðir Ólafs Stefánssonar.

Hverja léku móðuharðindin verst?

GJTh túlka orð Ólafs Stefánssonar svo, að hann hafi talið, „að ástandið hafi verið betra í sveitunum, þegar harðnaði á dalnum.“ 21 Þau andmæla þessu, þar sem það stangist „mjög á við nýjustu rannsóknir Guðmundar Hálfdanarsonar sagnfræðings, sem komst að þeirri niðurstöðu, að mannfall í móðuharðindunum hafi verið meira í landbúnaðarhéruðunum en þurrabúðunum við sjávarsíðuna.“

Harðindin á þessum öldum voru af ýmsum ástæðum. Móðuharðindin bitnuðu mest á gróðri vegna gjóskufalls og kulda, sem fylgir gjósku í háloftum. Lítum á, hvað Guðmundur segir um þessi ár, fyrst almennt: 22

Íslenskur landbúnaður beið mikið afhroð á árunum 1783-1785. Fiskveiðar landsmanna áttu hins vegar sæmilegu gengi að fagna á þessum árum, a.m.k. í verstöðvunum á Suðvestur- og Vesturlandi.

Um hungrið á þessum árum segir hann:

Hungrið var því fólki hættast, sem hafði ótryggustu afkomuna, þ.e.a.s. ómögum og flökkurum, en þeim, sem höfðu vinnu og ráku bú, var minni hætta búin.“ 23

Hverjir dóu helst úr hor?

Dánartíðni úr hor er greinilega stéttbundin. Hungrið tók háan toll í lægstu þrepum þjóðfélagsstigans, en fáir úr hópi bænda og vinnufólks urðu því að bráð. 24

Þessar þrjár athugasemdir Guðmundar má í stuttu máli orða svo, „að ástandið hafi verið betra í sveitunum, þegar harðnaði á dalnum,“ eins og GJTh túlka álit Ólafs Stefánssonar.

Almannaregla við sjósókn

Í framhaldi af umfjöllun um lúterskan rétttrúnað og þröngar skorður, sem GJTh halda fram, að hann hafi sett gróðaviðleitni, nefna þau ákvæði Píningsdóms, sem hafði lagagildi og kveðinn var upp árið 1490. 25 Ákvæðið var það, að búðseta var bönnuð þeim, sem ekki áttu búfé og eignir til þriggja hundraða. Ákvæðið takmarkaði því ekki rétt þeirra, sem sátu sjávarjarðir og studdust við sjávarfang, til að ráða fólk til sjósóknar og fiskverkunar. Í þessu skilyrði kemur fram það sama og í ákvæðum um vistarband frá 19du öld, að ekki var amast við því, að fólk í sæmilegum efnum settist án vistráðningar að við sjóinn og í þéttbýli, þar sem lítil hætta var á, að slíkt fólk yrði öðrum til byrði.  26 Ekki hefur slík varúð neitt með andúð á gróðaviðleitni að gera, þvert á móti er með þessum ákvæðum þeim einum treyst, sem hafa efnast af gróðaviðleitni eða á annan hátt, en þéttbýlinu tryggt traustasta fólkið.

GJTh nefna dóm, sem kveðinn var upp árið 1581 á Grund í Eyrarsveit á Snæfellsnesi, til stuðnings þeirri ályktun, að nýjungar hafi verið bannaðar í þeim anda lútersks rétttrúnaðar, að allir skyldu sitja áfram við sama borð. 27 (Þarna er fljótt brugðist við boðskapnum, ef tímabil lútersks rétttrúnaðar hefst um 1580). Þar segja þau ástæður dómsins vera í fimm liðum. Réttara sagt eru þar raktar í fimm liðum ástæður þeirra, sem fluttu málið og vildu leggja af lóðir, en í dómnum segir ekki, að hvaða leyti þær ástæður hafi ráðið niðurstöðu dómsins eða skoðun sýslumanns, sem einnig er skráð. Fyrsta ástæðan var, að eyrsveitungar höfðu skrifað höfuðsmanni, sem kvað upp dóminn, að þeim hefði ekki gagnast að róa á Hjallasandi vegna þeirra manna, sem þar væru með lóðalagningu. Þeir geta þess, að tekið hafi fyrir göngu fisks á Eyrarsveitarmið, eftir að lóðaveiðar byrjuðu í Rifi. 28

GJTh nefna annað dæmi til stuðnings ofangreindri ályktun. 29 Það er dómur alþingis árið 1609, sem bannar að beita fjörumaðki „af þeirri einföldu ástæðu, að þeir voru fleiri sem hvorki vildu né gætu beituna haft.“

Frásögn Lúðvíks Kristjánssonar af málinu tengir ormabannið við lóðabannið: 30

Þegar hér er fyrsta sinn deilt um beitunotkun, svo vitað sé, er það vegna fjörumaðksins. Sú deila reis milli Breiðfirðinga og Snæfellinga í byrjun 17. aldar. En svo er að sjá sem eyjaskeggjar hafi mest beitt maðki og landsmenn verið óánægðir með það, sökum þess að þeir gátu ekki náð í maðk eða vildu ekki beita honum. Vegna þessa ágreinings var bannað með dómi Alþingis 1609 að beita fjörumaðki, þar sem þeir voru fleiri, sem ekki áttu kost á að afla hans. Ókunnugt er, hvert hald hefur verið í þessum dómi og eins hve lengi hann hefur verið í gildi. Að framkvæmd hans er aldrei vikið í varðveittum heimildum og ekki virðist aftur getið um fjörumaðk sem beitu fyrr en um 1700.

Í Jarðabókinni er maðkur talinn nýttur til beitu á eftirtöldum stöðum: Eyrarsveit, Höskuldsey, Hvallátrum, Láganúpsverstöð og Hænuvík. Ótrúlegt er, að það hafi ekki víðar verið gert í byrjun 18. aldar. … Ekki fer á milli mála, að fjörumaðkurinn hefur ásamt kræklingi átt mikinn þátt í velgengni útgerðar í Eyrarsveit um og eftir aldamótin 1700. Leiguliðar, hjáleigubændur og þurrabúðarmenn þar eiga þá 56 skip og báta, sem er meira en getið er um annars staðar. Lóðin var þá aðalveiðarfærið, en gagnsemi hennar er komin undir því að góð og nægileg beita fáist.

Eftir eina öld hefur þá farið þannig um þær takmarkanir á athafnasemi við sjósókn, sem voru í anda lútersks rétttrúnaðar að dómi GJTh og eyrsveitungar koma við sögu. Lóðin, sem eyrsveitungar fengu bannaða 1581, er orðin undirstaða velgengni þeirra, en hún nýtist ekki nema beitt sé fjörumaðki, sem snæfellingar fengu alþingi til að banna árið 1609. Hafði lúterskur rétttrúnaður látið undan síga í lok 17du aldar í Eyrarsveit og annars staðar á Snæfellsnesi og meðal ráðandi manna á alþingi og í embættum, sem létu viðgangast slíka gróðaviðleitni, sem hefur raskað jafnvægi og skotið eyrsveitungum fram fyrir aðra?

Andúð á lóðum hélst lengi. Lúðvík Kristjánsson getur um lóðatakmarkanir í fiskveiðisamþykktum fram um síðustu aldamót.31 Það er einfalt að eigna þær andúð á gróðaviðleitni. Lúðvík getur um ýmsar aðrar ástæður. Í verstöðvum, þar sem verið er að nýta sameiginlega auðlind, hefur það lengi verið og er vitaskuld enn talin nauðsyn að halda uppi almannareglu. Ófriðarefnið og þær ástæður, sem menn bera fyrir sig, þurfa yfirvöld, sem bera ábyrgð á almannareglu, ekki að láta sig varða, heldur beita sér að því, sem stillir til friðar. Jafnvægi og regla við nýtingu sameiginlegrar auðlindar er ekki skilyrðislaust andstæð gróðaviðleitni og framtaki einstaklings, heldur getur iðulega talist nauðsyn, til þess að framtak fái að njóta sín.

Það virðist GJTh ríkt í huga, að ekki geti farið saman góður félagsandi og framtak einstaklings, sbr. niðurlagskafla þeirra um Baldvin Einarsson og Ármann á alþingi. Í grein minni í Sögu 1988 tel ég, að það kunni að hafa ráðið andstöðu við notkun marköngla á Vestfjörðum, að hún hafi spillt félagsanda meðal skipsverja á sama hátt og kaupauki í fiskvinnslu öldum síðar þótti spilla starfsanda.32 Þau GJTh minnast ekki á slíkan skilning, þótt þau fjalli um markönglamálið með vísun til mín.33

Niðurlagsorð

Enn ein fullyrðing GJTh um áhrif lútersks rétttrúnaðar á atvinnurekstur: „Jafnvægi meðal „betri bænda“ alls staðar á landinu var tryggt með banni við vetursetu útlendinga og útgerð þeirra héðan.“34 Þetta var fyrst gert með Píningsdómi árið 1490. Enn, árið 1990, er útlendingum bönnuð útgerð héðan. Það er vitaskuld gert til að einoka nýtingu fiskstofnannna í þágu landsmanna. Á þeim tímum, þegar íslendingar höfðu ekki með höndum útflutning afurða sinna, hefði það veikt stöðu þeirra enn frekar en það gerir nú að leyfa útlendingum útgerð héðan. Eru slík hyggindi ekki nægileg skýring? Mér sýnist lúterskur rétttrúnaður geti varla komið þar við sögu, hvorki þegar Lúter var sex ára að aldri né nú þegar hér hefur verið lútersk þjóðkirkja í 450 ár.

Eftir kynni mín af riti Gísla Gunnarssonar og málflutningi GJTh, sem og riti Magnúsar Guðmundssonar um sögu ullar og ullariðnaðar,35 þar sem mönnum er eignuð andstaða við nýsköpun atvinnuhátta af grundvallarástæðum þrátt fyrir gagnstæða viðleitni og athafnir, hef ég spurt mig, hvaða hugmyndir ráði hleypidómum höfundanna. Ég ætla, að þar komi fram sú hugmynd, að bændur hafi hlotið að snúast gegn nýsköpun, þar sem hún drægi fólk úr sveitunum. Þá er þess að gæta, að hagsmunir hinnar fámennu stéttar landeigenda á tímum einveldis voru ekki bundnir við búsetu þeirra. Þeir sóttu arðinn iðulega í önnur héruð, en ómagabyrðin var mál alls landsins.

Öðru máli gegndi um óbreytta bændur, þegar þeir komust til áhrifa með kosningarétti til löggjafarþings á 19du öld og síðar. Meðal þeirra, sem þeir kusu fulltrúa, gætti frekar þeirra sjónarmiða að verja þá hagsmuni, sem voru tengdir búsetu í sveitum. Óbreyttir bændur sáu hagsmunatogstreitu við aðra atvinnuvegi varðandi vinnufólk, og síðar kom upp það sjónarmið að beita opinberum aðgerðum, til að sem flestum, þ. á m. börnum þeirra, gæfist kostur á að stofna heimili í nágrenninu, en blómlegt mannlíf í hverri sveit var vitaskuld háð því, að ungu fólki byðust þar viðunandi skilyrði. Af því að bændur og fulltrúar þeirra höfðu orð um þessa togstreitu, kynnu menn að vænta þess, að þeir snerust gegn eflingu annars atvinnurekstrar en landbúnaðar. Þeir hafa þó oft orðið að beygja sig fyrir þeirri staðreynd, að landbúnaðinum væru takmörk sett, bæði í næsta nágrenni þeirra og yfirleitt í landinu. Það eru því mörg dæmi, sem ættu að vera augljós, um, að þeir hafi beitt sér fyrir öðrum atvinnurekstri, sbr. áðurnefndan ritdóm minn um sögu ullariðnaðarins og ótal önnur dæmi um atbeina kaupfélaga undir forystu bænda um útgerð, fiskvinnslu og annan atvinnurekstur í þéttbýli.

Hvernig mega sagnfræðingar varast þá hleypidóma um bændur, sem dæmin sanna? Ráðlegast er að vera við öllu búinn, svo sem með því að hafa í huga bændur, sem voru miklir áhugamenn um nýsköpun, eins og Gestur á Hæli og Eyjólfur Landshöfðingi, sem undirbjuggu af kappi stórvirkjun á Suðurlandi meira en hálfri öld fyrir virkjun Þjórsár við Búrfell, og Þorvaldur í Núpakoti, sem lagði fyrr en flestir fé í togaraútgerð. Hitt væri líka ráð að temja sér önnur vinnubrögð almennt við greiningu á gerðum manna, sem varða viðhald og umbreytingu þjóðfélagsins. Þá skyldu menn spyrja sig fyrst, þegar skilja skal gerðir manna, hvað þeir hafi viljað (þ.e. hvaða markmið þeir hafi haft), hvað þeir hafi getað (þ. e. hvaða tækifæri þeir hafi haft til að fá sínu framgengt), hvað þeir hafi orðið að gera (þ. e. hverjar skyldur þeirra hafi verið) og hvað þeir hafi mátt (þ.e. hvað hafi verið leyfilegt samkvæmt lögum og siðaboðum). Þetta þarf allt að hafa í huga í senn.

Til að átta sig á hverju nýsköpun strandaði, hefði Gísli Gunnarsson getað fylgt eftir öllum þekktum tilraunum til nýjunga í sjávarháttum, t.d. tilraunum með þilskipaútgerð. Þá hefði hann vitað, hvað þeir, sem að stóðu, vildu (þ.e. nýsköpun), en eftir stóð að átta sig á því, hvað þeir gátu, máttu og urðu að gera. Þá hefði hann hlotið að rekast á tilraunir Ólafs Stefánssonar, sem hann kveðst ekki hafa vitað um,36 og því varla farið að eigna honum andstöðu við nýmæli af grundvallarástæðum varðandi valdastöðu, hvað sem afkomu manna liði. Þá hefði GJTh vitaskuld verið óhætt að byrja athugun sína á áhrifum lútersks rétttrúnaðar á þeim lið greinargerðar Grundardóms, sem sýnist vera í anda hans, og á alþingisdómnum um beitunotkun, en í framhaldi af því hefðu þau ekki þurft að lesa nema eina blaðsíðu hjá Lúðvík Kristjánssyni til að uppgötva, að öld síðar, þegar enn átti að ríkja hér lúterskur rétttrúnaður, höfðu eyrsveitungar heldur betur snúið við blaðinu. Þá vildu þeir, gátu og máttu gera annað en áður. Það hefði þá orðið dálítið önnur saga en nú mátti lesa um áhrif lútersks rétttrúnaðar á nýsköpun og framtak. Mér þykir jafnvel líklegt, að þá hefði ekki orðið eftir neitt efni í slíka sögu. Með því held ég því þó ekki fram, að alls ekki hafi gætt slíkra áhrifa.

Sögu 28 (1990) 157-67

 

Neðanmálsgreinar

1

Björn S. Stefánsson: „Forsendur og fyrirstaða nýsköpunar.“ Saga XXVI, 131-151. Reykjavík 1988

2

Gísli Gunnarsson: Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787. Reykjavík 1987.

3

Gísli Gunnarsson: „Forsendur og fyrirstaða gagnrýni.“ Saga XXVII, 157-8. Reykjavík 1989.

4

Gísli Gunnarsson: „Álitamál, túlkun þess og vinnubrögð.“ Morgunblaðinu 11. maí 1988.

5

Björn S. Stefánsson: „Að skapa sögu í sinni mynd.“ Morgunblaðinu 25. maí 1988.

6

Björn S. Stefánsson: „Söguskýringar.“ Þjóðviljanum 8. júní 1989.

7

Gunnar Halldórsson, Jón Ólafur Ísberg og Theodóra Þ. Kristinsdóttir: „Íhaldssemi og framfarahugmyndir fyrr á tímum.“ Saga XXVII, 137-151.

8

Gunnar Halldórsson, Jón Ólafur Ísberg og Theodóra Þ. Kristinsdóttir: „Íhaldssemi og framfarahugmyndir fyrr á tímum.“ Saga XXVII, 139.

9

Jón Þorkelsson Vídalín: Húspostilla eður einfaldar prédikanir yfir öll hátíða og sunnudaga guðspjöll árið um kring. Reykjavík 1945, 283.

10

Jón Þorkelsson Vídalín: Húspostilla eður einfaldar prédikanir yfir öll hátíða og sunnudaga guðspjöll árið um kring. Reykjavík 1945, 32.

11

Magnús Jónsson: Saga kristinnar kirkju. Reykjavík 1946.

12

Þorkell Jóhannesson: Saga Íslendinga 6, 502.

13

Gunnar Halldórsson, Jón Ólafur Ísberg og Theodóra Þ. Kristinsdóttir: „Íhaldssemi og framfarahugmyndir fyrr á tímum.“ Saga XXVII, 144.

14

Björn S. Stefánsson: „Forsendur og fyrirstaða nýsköpunar.“ Saga XXVI. Reykjavík 1988, 149.

15

Gunnar Halldórsson, Jón Ólafur Ísberg og Theodóra Þ. Kristinsdóttir: „Íhaldssemi og framfarahugmyndir fyrr á tímum.“ Saga XXVII, 142.

16

Gunnar Halldórsson, Jón Ólafur Ísberg og Theodóra Þ. Kristinsdóttir: „Íhaldssemi og framfarahugmyndir fyrr á tímum.“ Saga XXVII, 145.

17

Um viðreisn Íslands. Deo, regi, patriae/1699/1768. Páll Vídalín samdi frumgerð 1699. Jón Eiríksson endursamdi, jók og gaf út í Sórey 1768. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenskaði. Reykjavík 1985, 72-84.

18

Um viðreisn Íslands. Deo, regi, patriae/1699/1768. Páll Vídalín samdi frumgerð 1699. Jón Eiríksson endursamdi, jók og gaf út í Sórey 1768. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenskaði. Reykjavík 1985, 72-3.

19

Um viðreisn Íslands. Deo, regi, patriae/1699/1768. Páll Vídalín samdi frumgerð 1699. Jón Eiríksson endursamdi, jók og gaf út í Sórey 1768. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenskaði. Reykjavík 1985, 74-5.

20

Um viðreisn Íslands. Deo, regi, patriae/1699/1768. Páll Vídalín samdi frumgerð 1699. Jón Eiríksson endursamdi, jók og gaf út í Sórey 1768. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenskaði. Reykjavík 1985, 82.

21

Gunnar Halldórsson, Jón Ólafur Ísberg og Theodóra Þ. Kristinsdóttir: „Íhaldssemi og framfarahugmyndir fyrr á tímum.“ Saga XXVII, 146.

22

Guðmundur Hálfdanarson: „Mannfall í Móðuharðindunum“, Skaftáreldar 1783-1784. Ritgerðir og heimildir. Reykjavík 1984, 145.

23

Guðmundur Hálfdanarson: „Mannfall í Móðuharðindunum“, Skaftáreldar 1783-1784. Ritgerðir og heimildir. Reykjavík 1984, 149.

24

Guðmundur Hálfdanarson: „Mannfall í Móðuharðindunum“, Skaftáreldar 1783-1784. Ritgerðir og heimildir. Reykjavík 1984, 150.

25

Gunnar Halldórsson, Jón Ólafur Ísberg og Theodóra Þ. Kristinsdóttir: „Íhaldssemi og framfarahugmyndir fyrr á tímum.“ Saga XXVII, 142.

26

Björn S. Stefánsson: „Ráðningarskilmálar í lok 19. aldar.“ Skírnir 160. Reykjavík 1986.

27

Gunnar Halldórsson, Jón Ólafur Ísberg og Theodóra Þ. Kristinsdóttir: „Íhaldssemi og framfarahugmyndir fyrr á tímum.“ Saga XXVII, 144.

28

Alþingisbækur Íslands I, 432-3.

29

Gunnar Halldórsson, Jón Ólafur Ísberg og Theodóra Þ. Kristinsdóttir: „Íhaldssemi og framfarahugmyndir fyrr á tímum.“ Saga XXVII, 143-4.

30

Lúðvík Kristjánsson: Íslenskir sjávarhættir IV. Reykjavík 1985, 81.

31

Lúðvík Kristjánsson: Íslenskir sjávarhættir III. Reykjavík 1983, 430.

32

Björn S. Stefánsson: „Forsendur og fyrirstaða nýsköpunar.“ Saga XXVI. Reykjavík 1988, 135-6.

33

Mér þykir einnig sennileg sú ábending Halldórs Kristjánssonar í ritdómi í Sögu 1989 („Nýtt hefti Sögu“), að með notkun marköngla hafi orðið hagsmunatogstreita með vinnumanninum og bóndanum, sem átti hlut hans. það er að segja það, sem ekki fékkst á markönglana.

34

Gunnar Halldórsson, Jón Ólafur Ísberg og Theodóra Þ. Kristinsdóttir: „Íhaldssemi og framfarahugmyndir fyrr á tímum.“ Saga XXVII, 142.

35

Björn S. Stefánsson: Ritfregn: Magnús Guðmundsson: Ull verður gull. Ullariðnaður Íslendinga á síðari hluta 19. aldar og á 20. öld. Saga XXVII, 224-8. Reykjavík 1989.

36

Gísli Gunnarsson: „Leiðrétting.“ Morgunblaðinu 12. maí 1988.

Heimildir

 • Alþingisbækur Íslands I.
 • Björn S. Stefánsson: "Forsendur og fyrirstaða nýsköpunar,? Sögu 26 (1988) 131-51.
 • Ritfregn: Magnús Guðmundsson: Ull verður gull. Ullariðnaður Íslendinga á síðari hluta 19. aldar og á 20. öld, Sögu 27 (1989) 224-8.
 • "Ráðningarskilmálar í lok 19. aldar,? Skírni 160 (1986) 223-30.
 • "Að skapa sögu í sinni mynd,? Morgunblaðinu 25. maí 1988.
 • "Söguskýringar,? Þjóðviljanum 8. júní 1989.
 • Gísli Gunnarsson: "Álitamál, túlkun þess og vinnubrögð,? Morgunblaðinu 11. maí 1988.
 • "Forsendur og fyrirstaða gagnrýni,? Sögu 27 (1989) 157-8.
 • "Leiðrétting," Morgunblaðinu 12. maí 1988.
 • Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787, Reykjavík 1987.
 • Guðmundur Hálfdanarson: "Mannfall í Móðuharðindunum.? Í Skaftáreldar 1783-1784 139-162, Reykjavík 1984.
 • Gunnar Halldórsson, Jón Ólafur Ísberg og Theodóra Þ. Kristinsdóttir: "Íhaldssemi og framfarahugmyndir fyrr á tímum,? Sögu 27 (1989) 137-51.
 • Halldór Kristjánsson: "Nýtt hefti Sögu,? Tímanum 19. desember 1989.
 • Jón Þorkelsson Vídalín: Húspostilla eður einfaldar prédikanir yfir öll hátíða og sunnudaga guðspjöll árið um kring, Reykjavík 1945.
 • Lúðvík Kristjánsson: Íslenskir sjávarhættir III og IV, Reykjavík 1983 og 1985.
 • Magnús Jónsson: Saga kristinnar kirkju, Reykjavík 1946.
 • Páll Vídalín: Um viðreisn Íslands, Reykjavík 1985.
 • Þorkell Jóhannesson: Saga Íslendinga 6, síðari hluti, Reykjavík 1943.

 

Summary

This is a critique of an article by Gunnar Halldorsson, Jon O. Isberg and Theodora Th. Kristinsdottir (GJTh) in Saga 1989, and especially of the thesis that adherence to orthodox Lutheranism was a deterrent to the introduction of profitable innovations in industry. GJTh do not demonstrate by what means Evangelical Lutheran doctrine demanded that people should refrain from innovating. Attention is given to enterprising church leaders of the age. It is shown how fishery methods which had been prohibited early in the Lutheran orthodox era were reintroduced towards its end and were shown to be economically sound.

Pall Vidalin`s vision of establishing a town in Iceland is introduced as a move towards far-reaching changes in the social structure and in industry.

It is pointed out that Governor General Olafur Stefansson`s view that during hard times people had been better off in the countryside than by the sea is in line with Gudmundur Halfdanarson`s deductions about the great famine in the 18th century ("Moduhardindi").

The necessity of a rule of common access to fishing is demonstrated and it is also shown that this rule was maintained although individual enterprise was accepted.

An explanation is given of how the interests of landowners during the period of absolute monarchy were not dependent on their place of residence, but attention is drawn to the changes that followed the emergence of spokesmen for farmers and following the election of their own representatives. In spite of the wishes of farmers that the countryside should support as many people as possible, they had to realise how limited the conditions of agriculture were. In fact, through their organizations, they began to establish various industries in urban areas.

Finally, a note on improving working methods in order to avoid prejudice over people`s intensions and actions with examples taken from GJTh`s article and Gisli Gunnarsson`s Upp er bodid Isaland (Iceland auctioned off).