Víða úr heiminum og frá ýmsum tímum segir af háðulegum árangri stjórnvalda í atvinnumálum. Iðulega reyndust þeir atvinnuhættir, sem ráðamenn trúðu á og beittu sér fyrir, ekki standast samkeppni við það, sem fyrir var. Ráðamenn eru í aðstöðu til að breyta skilyrðum nýmælarekstrar síns til að styrkja stöðu hans í samkeppni við þann atvinnurekstur, sem þeir höfðu talið veikari en reynist, og forðast þannig skömm og skaða. Eitt slíkra dæma eru stofnanirnar í Reykjavík upp úr miðri 18. öld. Með þeim stóðu stjórnvöld ásamt íslenskum efnamönnum að atvinnurekstri, sem áður var óreyndur hér á landi og átti að vera til eftirbreytni.

Meðal nýsköpunaraðgerða á þessum tíma var útgerð konungsverslunarinnar á fiskiskipum við Íslandsstrendur. Hún hófst árið 1776. Ætlunin var að kenna íslendingum bestu tækni í fiskveiðum. Tollstofa konungs fól Thodal stiftamtmanni árið 1775 að sjá til þess, að ráða mætti íslendinga á skipin. Það tókst ekki.[1] Svo var komið árið 1781 að dómi forstjóra konungsverslunarinnar á Íslandi, að ekkert vinnuafl var tiltækt til þátttöku í nýsköpunartilraununum. Engu að síður var nokkurt vinnuafl lausamanna í nágrenni fyrirtækjanna, en það kaus sér önnur störf.[2] Tveimur árum síðar var lausamennska á Íslandi bönnuð með tilskipun konungs. Tilskipunin kemur svo fljótt, eftir að menn konungs höfðu kvartað yfir skorti á vinnuafli, að ætla verður, að tilgangurinn með henni hafi verið að beina þessu lausbeislaða vinnuafli að störfum við „gæluverkefni ráðamanna“, svo að notað sé tískuorð um nýsköpunartilraunir stjórnvalda. Þar með áttu lausamenn í Reykjavík og nágrenni, sem ekki vildu flytjast upp í sveit, þann kost einan að ráða sig til starfa í þágu konungs. Engu að síður misheppnaðist nýsköpunin í Reykjavík.

Tilskipunin frá 1783, sem bannaði lausamennsku og stóð til 1863, kom ekki í veg fyrir, að þilskipaútgerð hæfist og héldist annars staðar. Ég fjallaði um það í Skírni.[3] Guðmundur Jónsson hefur farið ofan í mál mitt þar.[4] Er það efni til að fjalla um rökin í málinu, fyrst almennt og síðan rök Guðmundar.

Í fyrsta árgangi Fjölnis er bókafregn.[5] Er þar fjallað um rit Bjarna Þorsteinssonar amtmanns, Om Islands Folkemængde og oeconomiske Tilstand siden Aarene 1801 og 1821 til Udgangen af Aaret 1833. Í fregninni var sérstaklega vikið að þilskipaútgerð. Fregnritari var henni meðmæltur og vísaði til greina í Kjöbenhavnsposten eftir Benidikt Schevíng, úr Flatey, cand. theol., meðal annars um þá reynslu, sem fengist hefði af henni.[6] Þar segir (bls. 96):

Viðvíkjandi því sem amtm. segir, að fiskiablinn á þiljuskipunum dragi til sín marga vinnandi menn, jarðyrkjunni til hnekkis og skaða, þá segir S. [Scheving] að þessi hnekkir geti naumast verið töluverður, því þeír sem ráðist á þiljuskipin sèu flestallir þurrabúðarmenn, sem vinni ekki mikla landvinnu hvurt sem sè.

Þessi athugasemd er tilefni til að glöggva sig á málinu úr hinum endanum, þegar spurt er um áhrif vistarbandsins á atvinnuhætti. Hinn endinn eru þeir búlausir, sem voru ekki í vistarbandi. Venjan er að kynna vistarbandið sem altækt kerfi. Samkvæmt fregnritara var það ekki altækt, heldur bauð það nýsköpunarmanninum í Flatey nægilegt vinnuafl þurrabúðarmanna, enda segir svo í tilskipuninni frá 1783:

8. Þeim, sem búa við sjávarsíðuna og lifa á fiskveiðum, undir nafni hjáleigumanna og tómthúss- eður búðarmanna má leyft vera, þegar vertíðin er úti, að vinna hjá bændunum fyrir daglaun. Eins má það fólk, sem slíkir fiskimenn þurfa um vertíðina, þjóna hjá bændunum fyrir daglaun, þegar hún er á enda.

Þarna var því nokkurt svigrúm. Á tímum tilskipunarinnar fram til 1863 hófu ýmsir þilskipaútgerð vestanlands. Með tilskipunum konungs frá 1863 um lausamenn og húsmenn og frá 1866 um vinnuhjú áttu fleiri flokkar manna rétt á að vera ekki í vist. Borgunarlaust voru það þeir, sem höfðu staðið í vinnuhjúastétt 20 ár og fengið jafnan góðan vitnisburð - sem sagt við 36 ára aldur, þegar best lét. Í grein minni í Skírni (bls. 228) gat ég þess, að ég hefði ekki orðið þess var í prentuðum heimildum um upphaf og viðgang þilskipaútgerðar til fiskveiða, að komið hafi fyrir, að útgerðina hafi vantað vinnuafl vegna vistarskyldu eða takmarkana á rétti manna til að setjast að í þurrabúð né séð dæmi um, að þau ákvæði hafi tafið nýmæli í atvinnuháttum. Ennfremur hafi ég spurt ýmsa menn kunnuga þessum tíma um það, en þeir hafi ekki þekkt nokkurt dæmi þess og ekki talið líklegt, að þau fyndust.

Guðmundur Jónsson[7] þykist finna þess dæmi í kringum 1890, að útgerðarmönnum þilskipaútgerðar veittist erfitt að manna skip sökum vistarbandsins, og vísar til þriggja ritaðra heimilda. Þegar þær eru lesnar, finnst enginn stafur um slíkt, eins og nú skal greint. Fyrst vísar hann til greinarinnar „Þilskipaútvegurinn og mannaeklan“ (Þjóðviljanum 21. janúar 1892). Þar segir:

Þessi seinustu árin hafa að vísu nokkrir dugandis menn, sem atvinnu hafa við þilskipaveiðarnar, setzt að hér í kaupstaðnum, en þeir eru því miður alltof fáir, og eg vil segja furðanlega fáir, því að ætla mætti, að þessum mönnum myndi þó að mörgu leyti hentugra að vera búsettir þar, er þeir reka sína aðal-atvinnu, eða sem næst þeim stað.

Greinarhöfundur, sem kallaði sig kaupstaðarbúa, taldi ástæður til þessa, en tilgreindi enga. - Ennfremur vísar Guðmundur til tveggja staða í riti Gils Guðmundssonar um skútuöldina. Fyrri tilvitnunin, um útgerðartíma þilskipa á handfæraveiðum við Faxaflóa, geymir þessa athugasemd sem málið varðar: „Um það leyti sem sláttur hófst skipti einatt mjög um menn, og var þá stundum erfiðleikum bundið að ráða fullar áhafnir á skipin.“ - Hin tilvitnunin er frásögn Matthíasar Þórðarsonar, en hann var kjalnesingur:

Þrátt fyrir það þó þilskip, sem gjörð voru út á vetrarvertíðinni, voru ekki mörg, áttu útgerðarmenn fullt í fangi með að fá nægilega marga fiskimenn á þau. Skipin voru hvorki svo stór eða vel útbúin, fæði og aðhlynning svo góð eða hlutavon svo mikil, að menn sæktu eftir atvinnu á þeim. Öllu fremur voru margir neyddir til þess „að ráða sig á skútu“ sakir skorts á atvinnu og vegna skulda og þar af leiðandi skuldbindinga við útgerðarmenn o. s. frv.

Þá nefnir Guðmundur dæmi af Seyðisfirði eystra um menn, sem gripnir voru fyrir lausamennskubrot. Hins vegar nefnir hann ekki dæmi um, að neinn hafi verið sekur fundinn, og ekki kemur annað fram en, að atvinnuþróun hafi gengið sinn gang á Austurlandi á tímum vistarbandsákvæða.

Hér er ekki til umræðu hvort ársvist hafi verið óhagkvæmt ráðningarfyrirkomulag um aldamótin[8] eins og Guðmundur hefur mörg orð um, heldur hvort ákvæðin um vistarband hafi tafið fyrir nýmælum í atvinnuháttum. Skrif Guðmundar bæta engu þar við, en lýsa samúð með fátæku fólki. Þess ber þá að gæta, að það var ekki alþingi vinnufólks, sem afnam vistarbandið - það átti nefnilega ekki kosningarétt - heldur alþingi landeigenda, eftir að danskmenntaður búfræðingur hafði rökstutt það í Búnaðarriti, að vistarbandið veitti vinnufólki svo mikið öryggi, að drægi úr afköstum þess. Sagnfræðingar þeir, sem fjallað hafa um þessi mál, hafa ekki reynst færir um að skilja ástæður þessara tíma, sem eru þó ekki fjær þeim en þetta. Það kann því að ofbjóða hugmyndaflugi þeirra að benda á, að annars staðar í heiminum hefur orðið ekki hægari breyting atvinnuhátta en á Íslandi á þessari öld við skipulag, þar sem fjöldi launþega hefur notið atvinnuöryggis af hendi atvinnurekanda síns og minnir á gagnkvæmar skuldbindingar vistarbands.

Mér hefur ekki tekist með skrifum mínum að gera það öllum skiljanlegt, að það var ekki í hendi bænda upp til sveita að koma í veg fyrir, að menn settust að við sjávarsíðuna, heldur var það á valdi sveitarstjórnar við sjóinn. Í Reykjavík var það sem sagt bæjarstjórnin, sem réð því, hverjir þar settust að, og á Ísafirði hreppstjórar Eyrarhrepps og síðar bæjarstjórnin.

Guðmundur nefnir kvaðir á fátæka fiskimenn. Þær hafi „gegnsýrt drottnunarkerfi landeigenda yfir vinnulýð og leiguliðum“. Þá er vitaskuld um að ræða landeigendur, sem áttu sjávargagn og höfðu beinan hag af sem mestu sjávargagni. Þar er því ekki um að ræða ástæður, sem héldu aftur af mönnum að snúa sér að sjávarútvegi í stað landbúnaðar.

Ég ræði ekki, hvað vakti fyrir mönnum né heldur, hvað ráðamenn báru fyrir sig, þegar þeir mæltu með ákvæðum um vistarband, heldur hvort þau spilltu fyrir viðgangi sjávarútvegs þegar aðrar ástæður leyfðu. Guðmundur fellst á það að mestu, að ákvæðin um vistarband hafi ekki hamlað viðgangi þilskipaútgerðar til fiskveiða, en fullyrðir síðan (bls. 68):

Vistarbandinu og öðrum hömlum á vinnuafli var ekki stefnt gegn fiskveiðum sem atvinnuvegi heldur fjölgun einyrkja í fiskimannastétt og frjálsu verkafólki til sjós og lands. Löggjöfin kom því fyrst og fremst niður á sjávarútvegi á þann veg að takmarka fjölgun þurrabúðarmanna og þar með sjósókn.

Þetta er ekki rétt. Forráðamenn byggðarlaga höfðu það í hendi sér að leyfa fjölgun þurrabúðarmanna, ef skilyrði þóttu lífvænleg. Ekki hafa verið færð rök að því, að hamlað hafi verið gegn slíkri fjölgun. Það er hins vegar engin ástæða til að ætla, að fjölgun einyrkja á árabátum hefði getað orðið forsenda framþróunar atvinnulífsins.

Sögu 33 (1995) 187-191



[1] Gísli Gunnarsson. Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787, (Reykjavík 1987) 41.

[2] Björn S. Stefánsson. Forsendur og fyrirstaða nýsköpunar, Sögu 26 (1988) 138-9.

[3] Björn S. Stefánsson. Ráðningarskilmálar í lok 19. aldar, Skírni 160 (1986) 223-30.

[4] Guðmundur Jónsson. Stjórntæki gamla samfélagsins aflögð, Nýrri sögu 6 (1993) 64-69.

[5] Fjölni 1 95-6. 1835.

[6] Benidikt var sonur Guðmundar kaupmanns, en hann gerði út þilskip til fiskveiða.

[7] Guðmundur Jónsson, 68.

[8] Þórbergur Þórðarson er dæmi um slíka vistráðningu í Reykjavík árið 1909 og var þannig í kolavinnu og á skútu, sbr. Ofvitann (Reykjavík 1973) 76. Hann var sem sagt hlutgengur í samfélagi verkaskiptingar.