Með stjórnarskránni 1874 endurheimti Alþingi íslendinga vald til að setja lög. Um leið var stofnað sérstakt stjórnarráð fyrir Ísland. Það starfaði eftir lögum Alþingis ásamt dönskum lögum. Þannig fékk Alþingi tækifæri til að móta með löggjöf atvinnuvegi landsmanna. Á 100 árum, sem síðan eru liðin, hefur hvort tveggja gerst að lagasetning hefur mótast af framleiðsluháttum hvers tíma og framvindu þeirra og framleiðsluhættir og atvinnulíf hafa ráðist af lagasetningu. Oft getur verið erfitt að dæma hvort hefur verið undanfari hins. Iðulega sýnist svo að Alþingi hafi áréttað og staðfest með löggjöf það, sem var orðið eða á góðri leið með að verða og fært það í skipulegt horf. Vissulega eru önnur dæmi um hitt að ný lög hafi skipt sköpum. Ekki þarf að taka það fram, að framleiðsluhættir landsmanna hafa tekið miklum stakkaskiptum á þessu tímabili. Oft er því lýst þannig, að hér hafi verið bændaþjóðfélag og aðrar stéttir varla verið til, en nú sé komið þjóðfélag fjölbreyttra atvinnuhátta, þar sem þorri manna vinni við atvinnugreinar, sem aðeins var vísir að fyrir 100 árum—iðnaður, verslun, flutningar og þjónusta. Sjávarútvegur með fiskverkun löngu orðinn sjálfstæð atvinnugrein, en áður hafi sjór verið stundaður frá sveitaheimilum eða á vegum þeirra, þar sem menn fóru í verið. Þannig hefur komist á atvinnuskipting og verkaskipting í stað þess að hvert heimili fullnægði þörfum sínu beint, eins og tök voru á. Þróun efnahagsmála hefur stöðugt stefnt í átt til meiri verkaskiptingar til fjöldaframleiðslu, til fjöldaafgreiðslu á málum og fjöldafyrirgreiðslu.
Ætla má að mönnum 19. aldar hafi ekki þótt það lýsa best stöðu sinni að segja að þeir stunduðu landbúnað. Nær lagi hefði verið að segja, að menn hafi unnið hver sínu heimili, hvort sem menn unnu úti eða inni, heima eða að heiman. Með fólki var vissulega nokkur verkaskipting en hún breytti því ekki, að heimilin voru hvert um sig lítill heimur, eins og orðmyndin minnir á.
Löggjafinn, Alþingi, hefur eðlilega tekið mið af lífskjörum þjóðarinnar og getu hennar til að leggja til hliðar og búa í haginn fyrir seinni tíma. Ekki þarf að lýsa því með orðum, hvað öll vöruneysla hefur aukist stórlega og hvað þjóðin hefur komist í mikil efni miðað við það, sem var. Mannfjölgunin er áþreifanlegasti vitnisburður þessa. Miklu munaði til fjölgunar, að íslendingar hættu að sækja sér lífsbjörg með því að flytjast til Vesturheims. Börn hafa yfirleitt verið boðin velkomin í heiminn það sem af er þessari öld. Það talar sínu máli um lífskjörin. Menn hafa ekki talið eftir sér að bæta á sig nýjum borgara. Tækifæri til að afla sér kunnáttu til að hafa hemil á barneignum hafa vafalítið ekki verið minni en í ýmsum löndum þar sem fólk hefur tímgast mun hægar, ef menn óskuðu að hagnýta sér slíka kunnáttu.
Heilbrigði þjóðarinnar og vellíðan er oft lýst með tölum. Er þá mæld dánartíðni og sennileg ævilengd á hverjum tíma. Í þessu efni hafa orðið miklar breytingar síðan fyrir aldamót. Mest hefur munað um það hvað fleiri hafa náð fullorðinsaldri en áður. Það er ekki fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld, að þess fer að gæta, að þróunin í þessum efnum snýst við, fyrst meðal karla, en þegar síðast var gert upp, var svo komið, að konur og karlar í öllum aldursflokkum (nema meybörn á fyrsta ári) máttu af reynslu annarra vænta skemmri ævi en áður hefur verið lengst.
Þannig kemur fram að heilbrigði barna og unglinga hefur aukist fram undir síðustu tíma. Öll aðbúð barna og unglinga hefur breyst. Síðustu áratugina hefur allt svigrúm þeirra þrengst til daglegra athafna. Geta ekki aðeins borið um það þeir, sem flust hafa úr sveit eða sjávarþorpi til Reykjavíkur, heldur einnig þeir innfæddir reykvíkingar, sem nú eru að koma börnum af höndum sér og minnast æskuára sinna. Mæðir þetta á mörgum heimilum.
Mikilvægasta breytingin, sem orðið hefur á mannaforráðum í atvinnumálum er að forræðið, sem áður var að mestu á heimilunum, hefur hægt og hægt færst í hendur fyrirtækja, félaga og samtaka og opinberra aðila. Með stjórnarskránni frá 1874 var eins og áður segir stofnað sérstakt stjórnarráð fyrir Ísland, en samt var það svo fram á þessa öld, að í öllum veigamiklum málum hafði hvert heimili sitt eigið stjórnarráð, ef svo má að orði komast, þar sem atvinnumál, félagsmál (framfærsla), uppeldis—og fræðslumál voru afgreidd—þó að sjálfsögðu án þess að menn flokkuðu mál með slíkum nafngiftum. Þó að karlar og konur gengju hvor tveggja að úti- og inniverkum, réð húsbóndi helst fyrir útiverkum, en húsmóðir fyrir inniverkum. Langt fram eftir þessari öld tíðkaðist það víða, að karlar sæktu vinnu og önnur erindi fjarri heimili sínu. Varð staða kvenna (húsmæðra) í atvinnumálum og umsýsla af þeim sökum meiri en ella. Þær þurftu stöðugt að vera færar um að bæta á sig stjórn og ábyrgð. Umsýsla hefur þróast í það að verða sérhæfð starfsgrein í höndum hvers konar stjóra og aðstoðarliðs þeirra. Sú stjórn er svo til öll í hendi karla, en forræði kvenna hefur minnkað að sama skapi og umsýsla heimilanna. Hefur farið svo þrátt fyrir að Alþingi hafi sett ýmis lög, sem jafna eiga rétt karla og kvenna á sviði atvinnu- og fjármála. Sú lagasetning hefur vissulega skipt konur máli–þó mest fámennan hóp nokkuð skólagenginna kvenna, en hlutskipti þorra kvenna hefur fylgt rýrnandi forræði heimilanna. Í staðinn hafa komið forræðislaus störf utan heimilis. Þarna hefur vel hugsuð löggjöf ekki megnað að breyta nema í litlu þeirri rás mála, sem sjálfir atvinnuhættirnir móta.
Það hefur löngum verið ágreiningsmál meðal landsmanna, hver atbeini opinberra aðila skyldi vera í þróun atvinnuveganna. Óhætt er að telja að fjármagn hafi alla tíð verið mikilvægasta forsenda atvinnuþróunarinnar. Fjármagnið í sjálfu sér býr ekkert til, en það greiðir götu aukinna umsvifa við verkaskiptingu. Með lánsfé gefst tækifæri til að draga að föng til framleiðslunnar án þess að þau þurfi að skila strax arði og menn fá tækifæri til að hafa meira umleikis en þeir eru borgunarmenn fyrir á stundinni.
Með lögum um landsbanka 1885 var stigið mikilvægt spor í þessu efni. Það greiddi fyrir því að hér kæmist á sérhæfður sjávarútvegur með þilskipum, aðskilinn frá samhæfðu heimilishaldi heimilanna. Stofnun Íslandsbanka 1904 (lög 1902) með erlendu fé hleypti af stokkunum innlendri togaraútgerð. Þau umskipti sem þá urðu í landinu eru sambærileg við iðnbyltingu í löndum Norður-Evrópu. Þá komst á stórrekstur og mynduðust fjölmennar stéttir fólks sem réð sig í annarra þjónustu án kauptryggingar og fastráðningar sveitabúskaparins eða þess öryggis sem embættismenn bjuggu við. Þá urðu einnig straumhvörf í búsetu landsmanna. Höfuðstaður landsins, Reykjavík, óx á tímabili hraðar en fyrr og síðar og verður um nokkra áratugi útgerðarbær fyrir þorra bæjarbúa, en var áður fyrst og fremst kaupstaður og stjórnarsetur.
Dönsk yfirvöld ákváðu að setja Alþingi í Reykjavík og flytja Bessastaðaskóla þangað. Var um þau mál ágreiningur meðal íslendinga. Síðan slík mál komust í hendur landsmanna má segja að þeir hafi verið samtaka um að setja niður í eða við Reykjavík, með eða án beins tilstyrks Alþingis, hvers konar stofnanir, skrifstofur og fyrirtæki sem starfað hafa í þágu alls landsins. Slík starfsemi hefur vaxið því, sem var atvinnugrundvöllur reykvíkinga fyrir síðari heimsstyrjöld, sjávarútveginum, yfir höfuð.
Íslandsbanki var að nokkru leyti undir stjórn danskra manna. Að öðru leyti hefur skipting innlends lánsfjár verið alveg í höndum íslendinga og mikið til undir opinberri stjórn. Atvinnutæki voru í upphafi þess tímabils sem hér er fjallað um að mestu í eigu þeirra, sem höfðu reksturinn með höndum. Þó voru margir bændur leiguliðar, en þeim hefur síðan fækkað hlutfallslega. Mest hefur leiguliðum einstaklinga fækkað, en nokkuð einnig leiguliðum á þjóð- og kirkjujörðum. Alþingi hefur lagt þróun landbúnaðarins sívaxandi lið, þó að ríkisjörðum hafi fækkað, með því að leggja fram fé til hvers konar jarðabóta. Er það eini vöruframleiðsluatvinnuvegurinn sem notið hefur að ráði beinna framlaga til framkvæmda. Landbúnaður nútímans hefur þróast jafnt og þétt frá búskap fyrri tíma, en ekki hafa verið gerðar verulegar tilraunir til stökkbreytinga. Þó voru um tíma nokkrar ráðagerðir í þá átt með stofnun nýbýlahverfa. Það, sem varð úr þeim ráðagerðum, var unnið á vegum Landnáms ríkisins. Að öðru leyti hefur við alla uppbyggingu landbúnaðarins verið komið til móts við búskaparhefð þjóðarinnar, eins og hún hefur verið á hverjum tíma.
Sveitaheimilin hafa sem vonlegt er ekki verið einfær vegna smæðar sinnar um ýmsa þá fyrirgreiðslu, sem nýr tími hefur getað boðið. Hafa það orðið viðtekin vinnubrögð í landbúnaðinum, að sveitaheimilin hafa myndað með sér hvers konar samtök til að leysa til sín mál, kaupfélög til að hafa á hendi aðdrætti og sölu og vinnslu afurða og ýmsa fyrirgreiðslu, en búnaðarfélög til að standa fyrir jarðabótum, kynbótum og hvers kyns fræðslu um búskap. Alþingi hefur fengið búnaðarfélögum hreppanna, búnaðarsamböndum héraðanna og Búnaðarfélagi Íslands ýmis verkefni. Hefur það m.a. gert þau umboðsaðila fyrir ríkið vegna þeirra framlaga til jarðabóta, sem áður er vikið að. Ekki er síður að geta þessara samtaka vegna ráðgjafarþjónustu og rannsókna. Sú starfsemi er mótuð með landslögum. Alþingi hefur með lögum komið skipulagi á vinnslu og sölu búsafurða, hvort heldur um hefur verið að ræða viðskipti með búsafurðir innanlands eða við önnur lönd.
Segja má að sjávarútvegur og iðnaður hafi fetað með skipulag sitt nokkuð í slóð landbúnaðarins. Sjávarútvegurinn fékk stuðning Alþingis við samtök sín um útflutning, og í þágu hans hafa starfað með tilstyrk ríkisins ráðgjafar- og rannsóknatofnanir sambærilegar við það sem landbúnaðurinn nýtur. Þessi skipan mála hefur orðið ofan á, þrátt fyrir það að fyrirtæki í sjávarútvegi eru mörg miklu stærri en í landbúnaði og því einfærari um að leysa mál sín á þessu sviði. Hafa ekki síst minni fyrirtækin notið þessa skipulags, líkt og í landbúnaði. Loks er sama skipan að taka á sig mynd í iðnaði. Í þessu efni hefur verið erfiðara um vik í iðnaðinum vegna þess hvað iðnrekstur er margbreytilegur og þarfir og geta einstakra fyrirtækja misjöfn, en að sínu leyti hefur verið aðgengilegast að koma á samtökum og stofnunum af þessu tagi fyrir landbúnaðinn þar sem fyrirtækin, búin, eru flest með sama sniði og hafa því hvert um sig sömu not fyrir það sem bjóða má.
Fyrirtæki þessara þriggja atvinnuvega hafa að mestu verið í eigu einstaklinga og félaga, helst hlutafélaga. Samvinnufélög hafa þó átt allmikinn hlut í fiskverkun og ýmsum iðnaði. Framleiðslufyrirtæki í eigu opinberra aðila hafa verið nokkur. Opinberu fyrirtækin hafa helst verið stofnuð við sérstakar kringumstæður.
Fyrri hluta þess tímabils sem hér um ræðir voru íslendingar á undanhaldi með rétt sinn til gæða lands og sjávar. Erlendir menn höfðu eignast virkjunarréttindi víða, og danir höfðu með samningi hleypt enskum fiskiskipum upp í landsteina, og fylgdu önnur skip á eftir. Íslenska ríkið hefur nú leyst inn virkjunarréttindi útlendinga. Allar virkjanir, sem nokkuð hefur kveðið að, hafa verið á vegum opinberra aðila í landinu. Oftast hefur orðið gott samkomulag milli þeirra sem eiga árnar og hins opinberra sem staðið hefur fyrir virkjunum. Eftir að Ísland varð fullvalda ríki hefur tekist að endurheimta fyrri rétt íslendinga til gæða sjávarins og jafnvel meira en það. Er þá svo komið að landsmenn eru svo vel búnir tækjum, að þeir gætu fullnýtt og jafnvel spillt fiskimiðum ef þeir notuðu þau til hlítar. Hefur það því orðið verkefni Alþingis að veita fiskveiðiítök. Er það enn eitt dæmi þess, hvernig landsmenn eru orðnir hver öðrum háðir um atvinnu og framfærslu. Áður þurftu menn ekki að óttast að góður hlutur eins skerti hlut annars.
Framan af þessari öld var beinn hlutur útlendinga í atvinnurekstri nokkur, og kvað að þeim við nýsköpun atvinnuveganna. Eftir fyrri heimsstyrjöld setti Alþingi ýmis lög, sem torvelduðu erlendum mönnum og fyrirtækjum þeirra atvinnurekstur hér. Síðan hefur það verið að mestu verk íslenskra manna að standa fyrir nýsköpuninni, en fyrirmynda er stöðugt leitað erlendis. Álverið í Straumsvík er þó nýlegt dæmi um mikinn beinan hlut erlendra manna í þessu efni.
Önnur mikilvæg forsenda en lánsfé fyrir þróun verkaskiptingar og fjöldaframleiðslu er stór markaður með greiðar samgöngur og hagkvæma flutninga. Alþingi hefur verið stórtækt í framlögum til samgöngubóta. Hafa þær svo til allar verið á opinberri hendi. Nokkuð hefur verið um, að opinberir aðilar hafi staðið fyrir flutningum. Má þar fyrst nefna póstferðir, en síðar komu strandferðir á vegum ríkisins. Samgöngur innanlands bötnuðu mikið svo að landið varð smám saman einn markaður á mörgum sviðum, en fram eftir allri 19. öld átti hvert hérað greiðastar samgöngur og viðskipti við erlendar borgir vegna beinna siglinga. Þannig hafa samgöngubætur orðið til eflingar þeim atvinnugreinum sem hraðast vaxa með verkaskiptingunni, verslun og viðskiptum, þjónustu og iðnaði, að ekki sé nefnd sjálf flutningastarfsemin, sem er orðin mikil atvinnugrein. Yfirleitt má segja að beinar opinberar fjárveitingar og opinber atbeini hafi verið minnst vegna þessara nýju atvinnugreina. Eru þar þó undanskilin raforkuver og raforkudreifing, sem hefur að mestu verið verk opinberra aðila, eins og bent hefur verið á. Margs konar fjárframlög hafa oft verið skoðuð sérstaklega í þágu landbúnaðar og sjávarútvegs eða einstakra landbúnaðarhéraða og útgerðarstaða og hafa vissulega orðið þeim til styrktar, en um leið hefur nýsköpun þessara hefðbundnu atvinnuvega gert þá óháða nokkru af vinnuafli sínu og beint starfsfólki í hinar nýju atvinnugreinar, verslun, viðskipti, iðnað og þjónustu. Sést þetta vel á því hvað landbúnaður og sjávarútvegur nota nú orðið mikið til rekstrarins aðföng sem koma frá verslunar- og iðnfyrirtækum með milligöngu banka og lánasjóða. Enn frekara dæmi um þetta frá síðustu árum er svokallaður framleiðnisjóður landbúnaðarins. Mest af því fé sem veitt hefur verið úr honum, hefur farið til uppbyggingar iðnfyrirtækja, nefnilega sláturhúsa.
Íslendingar fengu árið 1874 vald til að tolla innflutta voru. Var það helst gert til að afla landssjóði tekna, en lítið eða ekki til að verja innlenda framleiðslu fyrir erlendri samkeppni. Á tímabilinu frá því í fyrri heimsstyrjöld og nokkuð fram yfir síðari heimsstyrjöld var gripið til ýmissa ráða sem ýmist höfðu þann tilgang eða að minnsta kosti leiddu til þess, að innlend framleiðsla ýmis stóð betur að vígi en innflutt vara á innlendum markaði. Er það enn í gildi um landbúnaðarafurðir. Síðustu árin hefur verið stefnt í átt til viðskiptahátta 19. aldar um tollfrjálsan innflutning á iðnaðarvöru. Hefur það orðið gagnkvæmt með samningum, þannig að sama á við um íslenska iðnaðarvöru sem flutt er til landa Norðvestur- Evrópu og nokkurra annarra landa.
Hinum nýju framleiðsluháttum með verkaskiptingu og fjöldaframleiðslu hefur fylgt sú breyting að þorri manna ræður sig nú í þjónustu annarra, en þeim fækkar stöðugt hlutfallslega, sem hafa mannaforráð eða ráða sjálfir sínum verkum. Ætla má að fyrir einni öld hafi þessir hópar manna verið nokkuð svipaðir að stærð. Þeir sem ráða sig í þjónustu annarra hafa með sér samtök um samninga við samtök þeirra sem hafa mannaforráð (vinnuveitendur). Þeir samningar móta orðið mjög allt efnahagslífið. Hafa afleiðingar þeirra alveg síðan í síðari heimsstyrjöld verið mikið viðfangsefni og vandamál stjórnvalda. Víðtækar almennar ráðstafanir stjórnvalda ætlaðar til framdráttar atvinnurekstri eiga sér þó lengri sögu. Má þar nefna kreppulán landbúnaðarins og skuldaskil sjávarútvegsins nokkru fyrir síðara stríð.
Það hefur haft mikil áhrif á samningsaðstöðu verkafólks og vinnuveitanda hvort atvinnuástandið hefur verið þannig að kallað er á vinnuafl eða hvort menn verða að bjóða sig fram. Engin ein lög hafa ráðið þessu, heldur öll löggjöf og stjórnsýsla. Náttúrulegar árstíðasveiflur hafa valdið því að hluta úr hverju ári má segja að hver hönd hafi verið velkomin til verka. Áður fyrr voru víða dauðir kaflar á milli.
Staða hvers konar liðléttinga hefur breyst mikið líkt og annarra. Börn, unglingar, gamalmenni og fatlað fólk hafði sín verkefni á heimilunum meðan svo til allur atvinnurekstur var á þeirra vegum. Framþróun framleiðsluháttanna hefur tekið verkefni eftir verkefni af heimilunum. Þó að liðléttingar hafi þannig misst mörg verkefni hafa þeir notið þess að eftirspurn eftir vinnuafli hefur langtímum saman verið mjög mikil. Hefur því farið svo að eiginlegt utangarðsfólk (fangelsismatur) hefur ætið verið heldur fátt og er enn, og hefur það létt af opinberum aðilum ýmsum félagsmálavanda. Nýir atvinnuhættir hafa breytt mjög stöðu barna, unglinga og gamalmenna, og er það orðið mikið viðfangsefni stjórnvalda að taka á því máli, með miklum fjárútlátum. Ekki hafa fundist önnur ráð handa gamalmennum en að tryggja þeim á ýmsan hátt nóg að bíta og brenna (ellilaun, ellilífeyrir). Þar sem öll umsvif hafa minnkað á heimilum og víða enginn vel verkfær maður heima við á daginn, hefur það orðið helst að ráði að koma gömlu fólki fyrir á sérstökum gamalmennahælum. Eru það nýjar stofnanir í sögu þjóðarinnar. Lengi sáu sérstök samtök og sveitarfélög um þau mál, en upp á síðkastið er farið að ætla ríkinu hlut að máli.
Annað hefur orðið uppi á teningnum vegna barna og unglinga. Þar hefur margt gerst í senn. Það er allt sprottið úr þróun atvinnuveganna. Börn fá stöðugt minna svigrúm til frjálsra athafna og færri tækifæri til að verða að liði í daglegri önn. Samfara þessu hefur verkleg og önnur þekking hlaðist upp án þess að nútímalegir heimilis- og atvinnuhættir hafi getað miðlað þeirri þekkingu til barna og ungs fólks. Hafa þessi mál verið leyst með síauknu skólahaldi opinberra aðila. Menn hafa fellt sig við mikil lögboðin fjárútlát til skóla vegna þess, að þeir leysa mörg verkefni, meðal annars það að takmarka með skilyrðum um skólagöngu aðgang að störfum, sem veita meira en meðalafkomu. Nokkuð hafa þessar breyttu kringumstæður komið misjafnt við fólk. Til sveita og í minni útgerðarstöðum hefur athafnafrelsi barna og unglinga haldist betur en annars staðar. Þar hefur einnig verið meira lið í þeim í daglegri önn fullorðinna. Skólaganga hefur á hinn bóginn orðið fólki þar útlátasamari. Af þessum sökum hefur útkoman orðið sú, að tiltölulega fleiri úr slíkum stöðum hafa orðið réttindalausir til ýmissa starfa en í mesta þéttbýlinu. Stjórnvöld hafa nokkuð viljað vinna til að jafna þetta misræmi, sumpart með fjárhagslegri aðstoð, en sumpart með því að takmarka frekar athafnafrelsi barna- og unglinga (fleiri skólaskylduár og lengra skólaár). Á fleiri vegu verða stjórnvöld að taka tillit til breyttra heimilishátta við skólahald. Lengi hefur tíðkast að börn fengju heimaverkefni úr skóla, jafnvel svo mikið að þau sóttu skóla svo sem ekkert—tóku aðeins próf, en einnig þegar þau hafa sótt skóla daglega. Var þá eðlilegt að foreldrar og annað fullorðið heimilisfólk fylgdist með barnafræðslunni. Má telja víst að með þessu móti hafi verið haldið upp umfangsmikilli fullorðinsfræðslu óbeint, þó að barnafræðslan hafi verið það sem stefnt var að. Nú hefur öll atvinna og umsvif minnkað svo mikið á heimilum, að það er sett á dagskrá stjórnvalda skólamála og fjármála að flytja þennan þátt barnafræðslunnar alveg inn í skólana og láta börnin þannig hafa nýjan samastað í návist fullorðinna. Eins og skólahaldi hefur verið háttað, þar sem börnum er sett fyrir frá degi til dags og frá einni kennslustund til annarrar, er skólahald í stíl við stöðu þorra fólks á vinnustað, sem hefur ráðið sig í þjónustu annarra og lætur segja sér fyrir verkum.
Umfangsmikið skólahald er annars vegar að nokkru leyti afsprengi verkaskiptingarinnar og hinna nýju atvinnugreina sem spretta af henni. Hefur verið drepið á það. Hins vegar reynist það vera mest í þágu þessara atvinnugreina—þær fá flest af langskólagengnu fólki í sína þjónustu og störf þess flýta enn frekar verkaskiptingu og þróun hinna nýju atvinnuvega.
Svipull er sjávarafli er gamalt orðtæki. Landið er líka misgjöfult. Atvinnuhættir landsmanna hafa löngum verið slíkir, að menn hafa lifað í stöðugri óvissu um afkomu sína og jafnvel líf. Þegar fólk hefur orðið fyrir áföllum hafa menn hlaupið saman til hjálpar. Hefur það verið svo á hverju heimili, í hverri sveit og á öllu landinu. Vestmannaeyingar áttu engin tryggingarskírteini vegna eldgoss, en íslendingar voru fljótir að strengja þess heit að duga þeim eftir eldgosið. Oft fylgir það sögu af bæjarbruna að lágt hefur verið tryggt. Þegar til kemur reynist mönnum þó oft furðulega vel borgið, því að þeir eiga heima í samgróinni mannvist, sem veitir í reynd mikla tryggingu. Nýir framleiðsluhættir breyta heimilisháttum og heimilistengslum. Þar sem lengst gengur verða menn í stuttu máli sagt heimilislausir. Utangarðsfólkið í landinu er heimilislaust fólk. Glíma stjórnvalda við utangarðsunglinga er oft tilraun að búa þeim heimili. Það er erfitt á tímum, þegar atvinna og verkefni hafa mikið horfið af heimilum.
Íslendingar voru fyrir hluta núlíðandi löggjafarskeiðs mikið á ferðinni vegna starfa síns, eftir árstíðum og til lengri dvalar. Heimilin voru í senn opin—fólk kom og fór—og nokkuð öruggt athvarf. Heimilin voru fastur vinnustaður. Verkefni frá einu heimili til annars voru mjög svipuð. Nálæg heimili leituðu því oft hvert til annars um aðstoð. Þannig urðu menn nágrannar, ekki aðeins í rúmi og tíma, heldur líka með huga og hönd. Ættir tengdu heimili saman og veittu fyrirgreiðslu án formlegra skilmála, eins og efni stóðu til. Þjóðin skipaði sér í sveitir, ekki aðeins í landbúskaparlegum skilningi, heldur líka í félagslegum skilningi—þeim skilningi, sem skáldið hafði, þegar það hvatti þjóðliðið til að skipa sér í sveit Öxar- við ána. Í ýmsum sveitum var til utangarðsfólk, sem varð að sæta afarkostum, eins og hreppaflutningi, en það kom við fæsta. Fleiri hafa hins vegar notið þess, að samgróin sveit gat verið sterkt tryggingarfélag, án tryggingarskírteinis. Atvinnuhættir, heimilishættir og félagshættir hafa smám saman losað um tengsl heimila, ætta, sveita og nágrennis, þannig að menn leita tryggingar með formlegum samningum og samþykktum í vaxandi mæli. Stjórnvöld eiga mikinn hlut að máli með almannatryggingum, lögum um bjargráðasjóð, löggjöf um tryggingar einstakra atvinnuvega, einkum sjávarútvegs, og með lögum um lífeyrissjóði. Utangarðsfólk nútímans vantar ekki aðeins heimili heldur líka almennan félagsskap—það á ekki heima í neinni sveit manna. Á landsbyggðinni skipast menn enn í sveit, en flestir skipast fyrst og fremst í stéttir—starfsstéttir. Opinber átök hafa lengi helst orðið milli þeirra. Þannig mótast félagshættir almennings af fornum og nýjum atvinnuháttum og opinber mál og málefni atvinnuveganna fléttast á ýmsa vegu saman.
Þáttur ríkisvaldsins, Þróun 874-1974, sýning á þróunarsögu atvinnuveganna og fleiri þátta þjóðarsögunnar; 1974, 51-71 [sýningarskrá]