Í bók sinni Iðnríki okkar daga, sem er eitt af lærdómsritum Bókmenntafélagsins, gerir höfundurinn, John Kenneth Galbraith, grein fyrir þeim breytingum, sem orðið hafa á stjórnarfari og efnahagslegu skipulagi Bandaríkjanna og raunar annarra stærstu iðnríkja samtímans, þar á meðal Ráðstjórnarríkjanna. Hann heldur því fram, að breytingarnar hafi orðið að miklu leyti óháðar því hugmyndakerfi, sem ríkjandi var í hverju landi. Hugsjónir einkaframtaks, lýðræðisjafnaðarmanna og Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna hafi ekki getað hrundið af sér kröfum hins samhæfða, tækniþróaða efnahagslífs. Ef vísað er til lýsingar hans á efnahagskerfi Bandaríkjanna, þá er raunin þar þessi: Fá stór fyrirtæki gnæfa upp úr og ráða mestu í atvinnurekstri þjóðarinnar. Þau hafa uppi vandaða áætlanagerð, ráða verðlagi og eftirspurn að miklu leyti og eru lítið háð öðrum um fjármagn til áframhaldandi reksturs og aukinna umsvifa. Fyrirtækjunum er ekki stjórnað af eigendum, hluthöfunum, heldur af sérfræðingum sem í krafti þekkingar sinnar hafa öðlast valdið. Engin einn maður ræður, heldur er um að ræða hópstjórn sérfræðinga. Sá sem hefur til að bera þekkingu, sem varðar fyrirtækið miklu, hlýtur raunverulegt vald í samræmi við það, þó að formleg staða hans í þrepveldi fyrritækisins kunni að vera lág. Galbraith telur það vonlaust fyrir þá, sem ekki hafa til að bera sérþekkingu, að ætla að hlutast til um mál fyrirtækjanna, hvort sem það eru hluthafar í Bandaríkjunum, þjóðkjörnir fulltrúar í ríkjum jafnaðarmanna eða erindrekar Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna. Afskipti þeirra verði ekki þoluð, enda hafi þeir ekkert að veita, þar sem fyrirtækin hafi alla þekkingu á valdi sínu og þurfi ekki einu sinni aðleita til bankastjóra um fjármagn. Þeim nægir enda eigið fé fyrirtækisins sem ekki er greitt hluthöfum. Um leið og hann leggur mikla áherslu á, að sjálfræði fyrirtækjanna sé nauðsynlegt og óhjákvæmilegt, bendir hann á hin nánu tengsl, sem eru á milli stórfyrirtækjanna í Bandaríkjunum og ríkisins. Ríkið taki að sér að tryggja næga heildareftirspurn, m.ö.o er öryggi fyrritækjanna tryggt almennt. Auk þess eru einstök stórfyrirtæki í mjög nánum tengslum við ríkið vegna söluviðskipta. Ríkið sér fyrir allri þeirri tækniþjónustu, sem fyrirtækin geta ekki veitt sér sjálf, og þá fyrst og fremst skólahaldi og rannsóknum.
Það getur verið fróðlegt að bera þessa lýsingu saman við skipulag þess atvinnurekstrar hér á landi, sem skipar líkan sess í efnahagskerfi Íslendinga og stóru iðnfyrirtækin gera í Bandaríkjunum, en það er sjávarútvegurinn. það sem er ólíkt blasir við. Fyrirtækin eru dvergvaxin að mannafla, hafa fáa sérmenntaða menn í þjónustu sinni, ráða ekki verðlagi né eftirspurn og eru háð bönkum og lánasjóðum um fjármagn til rekstrar og enn frekar framkvæmda. Ég þykist þó greina ýmis skipulagseinkenni í sjávarútvegi og fiskverkun Íslendinga, sem eru ekki síður í samræmi við nauðsyn tækninnar, en það skipulag sem Galbraith lýsir, og þegar gáð er undir yfirborðið er ýmislegt skylt. Hér er sem sagt ekki mikið um það að ræða, að fyrirtæki hafi sérfræðinga í þjónustu sinni. Sérfræðingarnir eru þó allmargir í þjónustu samtaka og stofnana eins og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og annarra sölusamtaka, Fiskifélagsins og rannsóknarstofnana sjávarútvegsins. Sérfræðingar þessir þjóna fyrirtækum sjávarútvegsins beint eða óbeint eftir því sem þeim eru falin verkefni. Hér hefur það gerst eins og í Bandaríkjunum, að menn hafa myndað samtök og opinberar stofnanir til að annast þau verkefni, sem eru einstökum fyrirtækjum ofviða. Íslensk fyrirtækjaskipan og landshættir ráða því, að þau verkefni eru önnur en í Bandaríkjunum. Íslenskir útflytjendur ráða vissulega ekki einir verðlagi erlendis, en þeir hafa gert mikið til að skipuleggja framboð sitt. Á það við um allar helstu afurðir nema niðurlagða og niðursoðna vöru, lýsi, mjöl og hrogn.
Ekki er síður athyglisvert hvernig Íslendingar hafa farið að því að veita fyrirtækjum sínum öryggi og tryggja að öll hjól snúist. Ég hygg til dæmis, að það muni nokkuð dæmalaust, að þjóð hafi verið eins fljót að umþófta atvinnulífi sínu, þegar snöggar breytingar kalla á það, eins og Íslendingar voru, þegar aflabrestur á síldveiðum og verðfall kipptu rekstrargrundvellinum undan sjávarútvegi og fiskverkun þeirra. Þarna virðist hafa komið til sögunnar mesti fjöldi stjórntækja, fyrst almennar ráðstafanir í efnahagsmálum og síðan aðild ýmissa sjóða, sveitarfélaga og einstaklinga. Ég vildi sérstaklega vekja athygli á hlutverki hinna opinberu sjóða og sveitarfélaganna. Þó að öll íslensk fyrirtæki séu örsmá á mælikvarða þeirra stórfyrirtækja, sem Galbraith eignar máttinn og dýrðina í Bandaríkjunum, eru mörg útgerðar- og fiskverkunarfyrirtæki hér á landi risastór á mælikvarða þeirra byggðalaga, sem þau starfa í, og ég efast raunar um, aðsjávarútvegur annarra landa við Norður-Atlantshaf sé eins stór í sniðum mældur á þennan mælikvarða. Oft er afkoma svo til hverrar fjölskyldu beint og óbeint háð gegni eins eða tveggja atvinnufyrirtækja. Það er því ekkert undrunarefni, að forráðamenn byggðarlaganna, hreppsnefndir og bæjarstjórnir, hafa ekki getað leyft sér að láta fyrirtækin sigla sinn sjó, ekki frekar en Bandaríkjastjórn getur leyft sér að láta stórfyrirtæki landsins bjarga sér eins og verkast vill. Eftir því sem útgerð og fiskverkun, sérstaklega hraðfrysting útgerðarstaða, hér á landi hefur orðið stærri í sniðum, hafa afskipti hreppsnefnda og bæjarstjórna af þeim málum orðið meiri og meiri, ekki nauðsynlega og raunar síður á þann hátt, að um hreppsrekstur eða bæjarrekstur sé að ræða, heldur helst á þann hátt að hreppssjóður eða bæjarsjóður tekur á sig ýmsar skuldbindingar, sem nauðsynlegar eru til að ná saman nægu fé til rekstrarins, annaðhvort með því að leggja fram hlutafé eða gangast í ábyrgð fyrir láni. Þetta hefur gengið svona fyrir sig nokkuð án tillits til viðhorfa ráðamanna hrepps og bæjar til landsmála, alveg eins og hin nána samvinna ríkis og stórfyrirtækja yfir höfðinu á hluthöfunum hefur komist á án tillits til bandarískrar hugmyndafræði um atvinnurekstur.
Þetta framtak hreppsnefnda og bæjarstjórna til að tryggja áframhaldandi atvinnurekstur á útgerðarstöðunum hefur ekki orðið til einungis fyrir sérstaka ábyrgðartilfinningu hreppsnefndarmanna og bæjarfulltrúa. Stjórnarfarið í landinu hefur verið þannig, að fólkið á útgerðarstöðunum hafði stjórntæki í sínum höndum til að bjarga sér. Í fyrsta lagi hafa sveitarfélög hér haft tiltölulega frjálsar hendur í fjármálum. Í öðru lagi trúi ég því að hér hafi ráðið miklu, að flestir útgerðarstaðir sem nokkuð munar um mynda eigið sveitarfélag. Forráðamenn útgerðarstaðanna eiga það því fyrst og fremst við sjálfa sig, hvort þeir vilja takast á hendur þær skuldbindingar sem nauðsynlegar þykja, þurfa til dæmis ekki að spyrja sveitafélagið leyfis, en sveitafólkið kann að vera ófúst að taka á sig áhættu vegna atvinnurekstrar, sem það vinnur ekki sjálft við, þó að það kannist við, að það sé æskilegt að nóg atvinna sé við sjóinn. Eins þurfa forráðamenn útgerðarstaðanna ekki að leita til forráðamanna nágrannaþorpanna um leyfi til atvinnurekstrar og eiga það á hættu að þeir segi sem svo: Hjá okkur gengur allt vel. Það hlýtur að vera ykkur að kenna, að svona illa gengur. Við getum ekki leyft að sveitarfélagið taki þátt í þessu. – Það sýnist því, að það megi þakka framtak forráðamanna útgerðarstaðanna mikið því, að útgerðarstaðir hér á landi eru flestir sjálfstæð og sérstök sveitarfélög. Sveitarfélög hér á landi eru flest hagsmunalega og atvinnulega samkynja, en því fylgir styrkur til að takast á við verkefni, sem íbúarnir sjálfir þurfa að leysa sín vegna. (Þau eru hins vegar misstór og ósamstæð með tilliti til fólksfjölda og stærðar á hrepps- og bæjarskrifstofu. Afleiðingar þess er annað mál, sem ekki verður rætt í þessari grein.) – Útgerðarstaðir hér á landi eru eins mikilvægir í þjóðarbúskap Íslendinga og járnnámur eru í Svíþjóð eða bílaverksmiðjur í Bandaríkjunum, enda virðist það svo, að óumbeðin afskipti ríkisvaldsins af málefnum útgerðarstaða hér séu eins illa metin og afskipti Bandaríkjastjórnar af stórfyrirtækjum þar í landi, samkvæmt lýsingu Galbraiths.
Galbraith lýsir því, hvernig stórfyrirtæki Bandaríkjanna eru sjálfum sér nóg um fjármagn til rekstrar og framkvæmda. Hér á landi er þessu öðru vísi farið í sjávarútvegi eins og kunnugt er. Útgerðar- og fiskverkunarfyrirtæki landsins eru mjög háð bönkum og ýmsum sjóðum vegna rekstrarfjár og fjár til endurnýjunar og aukningar. Þau hafa stöðugt játast undir svo miklar kröfur, að þau hafa ekki verið fær um að halda fé í rekstrinum eða leggja að marki nýtt fé í hann. Það hefur þó hjálpað þeim mikið, að þau hafa getað endurgreitt lánin með talsvert rýrari krónum en þau fengu.
Hvernig verður svo iðnríki Íslendinga? Ég hef þá ekki aðeins í huga Reykjavík og Akureyri. Hringinn í kringum landið eru starfandi verkstæði af ýmsu tagi, vélsmiðjur, trésmiðjur og skipasmíðastöðvar. Reynsla er fyrir því frá öðrum löndum og öðrum tímum að það eru svona verkstæði, sem hafa vaxið upp í að verða vöruframleiðendur. Hvað má helst verða til eflingar iðnaði á stöðum eins og Stykkishólmi, Þingeyri, Ísafirði, Blönduósi, Siglufirði, Egilsstöðum, Fáskrúðsfirði, Hellu og Selfossi? Nú á dögum er dugnaður og útsjónarsemi eigenda og starfsfólks ekki nóg til að breyta lítilli smiðju í verksmiðju. Það sem virðist vanta fyrst og fremst, er tækniþjónusta og sölusamtök. Hvorugt ráða lítil fyrirtæki við sjálf. Þar þurfa að koma til landssamtök eða opinber stofnun. Það sýnist mér vera rökrétt svar við boðskap Galbraiths. Galbraith leggur áherslu á, að fjármögnun stórfyrirtækjanna er í höndum þeirra eigin sérfræðinga. Þó að íslensk iðnfyrirtæki réðu yfir meira eigin fjármagni, réðu þau ekki yfir því liði, að þar mætti segja að fjármögnun þeirra væri í höndum sérfróðra manna. Verður það þá að vera hlutverk banka og lánasjóða að leggja sérfræðilega dóm á allar stærri framkvæmdir sem kalla á lánsfé? Hvernig verður bönkum og lánasjóðum þá best stjórnað, þannig aðmeðal annars íbúar þeirra staða, sem ég nefndi, geti treyst því að lánsfé sé ráðstafað á sanngjarnan og hagkvæman hátt?
Iðnrekstur nútímans er stór í sniðum. Þó er það vitað, að margs konar framleiðsla getur verið tæknilega hagkvæm í tiltölulega litlum verksmiðjum, ef séð er fyrir tækniþjónustu af öðrum t.d. iðnaðarmálastofnun, og framleiðslan seld af sölusamtökum. Þar sem flest byggðarlög hér á landi eru svo fámenn, verða hagkvæm iðnfyrirtæki fljótlega svo stór að þau verða á mælikvarða byggðarlaganna stórfyrirtæki. Iðnrekstur nútímans er nokkuð áhættusamur vegna örrar tækniþróunar, jafnvel ekki síður en sjávarútvegur. Ég tel því líklegt, að það muni ekki þykja ráðlegt að veita miklu fé til iðnaðar hringinn í kringum landið, nema til komi ábyrgð og fyrirgreiðsla sveitarfélaganna. Mér sýnist Íslendingar vera heppnir að þeir hafa oftast þannið sveitarfélög á landsbyggðinni, að þau eru afmörkuð atvinnulega; að það er sjaldgæft að það sé saman í sama sveitarfélagi þorp og verulegt strjálbýli eða tvö eða fleiri þorp. Af því leiðir að íbúar byggðalaganna eiga það yfirleitt við sjálfa sig, hvaða ráðstafanir þeir vilja gera til að tryggja rekstur atvinnufyrirtækja síns byggðarlags, en þurfa ekki að leita til fólks í nágrannabyggðarlögum, sem sækir vinnu annað, um leyfi til nauðsynlegra skuldbindinga. Iðnaðarþorp og kaupstaðir þurfa ekki síður á sjálfstæðum hagstjórnartækjum að halda en útgerðarþorp og bæir landsins. Á mælikvarða viðkomandi staða er ekki um minna að tefla en stórfyrirtæki Bandaríkjanna á mælikvarða þeirra. Nauðsyn virðist krefjast slíkra stjórntækja til aðtryggja rekstur fyrirtækjanna. Þetta allt meðal annars þarf aðhafa í huga þegar rætt er um umdæmaskiptingu landsins.
Það sem sagt hefur verið hér um þarfir atvinnurekstrarins fyrir sveitarfélög, sem eru afmörkuð eftir atvinnuháttum, gildir að sjálfsögðu ekki um Reykjavíkursvæðið. Þar er atvinnulífið svo fjölbreytt, að það er miklu minna í veði fyrir atvinnu svæðisins, þó að eitthvað beri út af með einstök fyrirtæki, ef atvinnuástandið almennt er gott. Að öðru leyti eru þarfirnar í aðalatriðum líkar. Fæst iðnfyrirtæki í Reykjavík (eða Akureyri) munu vera svo sjálfbjarga, að þau hefðu ekki gagn af þess konar iðnaðarmálastofnun og sölusamtökum fyrir iðnaðinn, sem eru brýn nauðsyn fyrir iðnað fámennari byggðarlaga.
Ritað í mars 1971.
Tímanum 2. mars 1971 (gölluð prentun); Hagmálum 14 (1972) 35-9.