Ég kom ekki á kvennaráðstefnuna til að leggja til málanna heldur til að fræðast frekar um afstöðu fulltrúa kvennasamtaka til málefna kvenna vegna fræðilegrar rannsóknar minnar á sögu og stöðu verkaskiptingar og umsýslu á Íslandi. Ég fór því að ráðum Hávamála og var hinn vari gestur og þagði þunnu hljóði, eyrun hlýddi, en augum skoðaði. Nú, þegar ég hef verið beðinn að láta í ljós álit mitt á ráðstefnunni á kvennasíðu Morgunblaðsins, er mér ljósari en áður hugsun, sem er skyld hugmyndum, sem hafa verið að bögglast fyrir mér undanfarið. Mér finnst, að ég hafi ekki verið eini gesturinn á ráðstefnunni, heldur hafi verið líkast því sem kvennaráðstefnan hafi eiginlega verið gestaráðstefna, en húsráðandi sá mikli gerandi sem menn kalla þjóðfélagið eða þjóðfélagsþróunina.

Almenn þátttaka og áhugi á málum ráðstefnunnar sprettur af því, að fornt viðfang kvenna, heimilishald, hefur rýrnað stórlega, en í stað þess sækja konur í síauknum mæli eftir vinnu fyrir peninga. Peningar eru ávísun á stöðugt fleiri og fjölþættari verðmæti og eiginlegt markmið ráðstefnunnar var að vinna að því að konur fengju betri tækifæri til að vinna fyrir peningum og gera þeim peningana notadrýgri. Í þessu efni skiptir minnstu máli, í hvaða fylkingar konur skipuðu sér á ráðstefnunni, þegar greidd voru atkvæði um ályktunartillögur.

Ekki varðar það heldur miklu í þessu efni, hvort menn lýsa yfir hollustu við og virðingu fyrir fornri umsýslu kvenna, heimilishaldinu. Sannleikurinn er sá, að þjóðfélagið hefur þróast nokkuð óháð nokkrum altækum hugmyndum um gerð þjóðfélagsins, heldur hafa menn leyst brýn og hversdagsleg viðfangsefni sín og þjóðfélagsins á þann hátt, sem í fljótu bragði hefur verið aðgengilegast og hagkvæmast. Allt þetta tímabil, sem núlifandi menn hafa látið að sér kveða, hafa þær lausnir verið fólgnar í því að koma á enn frekari verkaskiptingu, þannig að hver maður nái meiri þjálfun í starfi og geti notfært sér afkastameiri tæki, en skjóta inn milliliðum milli þess, sem verkið vinnur og þess sem nýtur. Þannig hefur orðið til þjóðfélag lausra viðskipta með vinnustaði og skrifstofu í stað þjóðfélags heimila með fjölþætt og varanleg samskipti, án þess að þeir, sem málum hafa ráðið á æðstu stöðum, hafi talið þjóðfélag heimilanna íslendingum óhollt og yfirleitt stefnt að því að leysa það af hólmi. Einstaklingar og samtök manna hafa vissulega haft sínar hugmyndir um gott og rétt í þjóðskipulaginu. Trúir þeim hugmyndum hafa menn síðan farið sínu fram við að breyta fyrirkomulagi daglegra athafna með því fyrst og fremst að létta af heimilunum ýmsu ómaki, en njóta heldur fulltingis vinnustaða markaðarins. Það eru þessar breytingar, sem hver fyrir sig hefur verið smávægileg, sem hafa gjörbreytt þjóðfélagsgerðinni, án þess að menn hafi haft núverandi þjóðskipulag í huga, þegar þeir mótuðu daglegar athafnir sínar, hvorki hver fyrir sig né sameiginlega.

Þannig skilið var kvennaráðstefnan gestaráðstefna. Gestirnir voru á valdi húsráðanda, þjóðfélagsins eða þjóðfélagsþróuninnar. Þeir létu með samþykktum sínum skilja á sér, hvað þeim líkaði best af því, sem bjóða mátti hér og nú, en áttu ekki, svo að fram kæmi, neina hugsun, hvað þá ósk um, að önnur þjóðfélagsþróun kæmi til greina en sú, sem felst í vaxandi fyrirgerð lausra viðskipta með fjölgun milliliða og rýrnum heimilishalds. Í þessu efni greindust konur á kvennaráðstefnunni ekki frá körlum á karlaáraráðstefnum aldarinnar.

Morgunblaðinu 9. ágúst 1975