Ýmsir hafa áhyggjur af því að allmargir Íslendingar hafa undanfarið flust búferlum til Norðurlanda og ekki skilað sér til baka. Þykir sumum sem flótti hafi brostið í liðið og óttast um framtíð þjóðarinnar, ef svo haldi fram sem horfir. Þjóðviljinn varði heilli opnu undir þetta mál hinn 5. þ.m. með viðtali við Stefán Ólafsson mannfélagsfræðing, þar sem hann les ýmislegt úr skýrslum Hagstofunnar um búferlaflutninga og getur sér til um orsakirnar. Er þar um að ræða tilgátur sem kunnar eru úr almennri umræðu á víð og dreif, en eru hér aðgengilegar á einum stað. Tilgáturnar eru studdar óbeinum heimildum, en kunna þó að reynast réttar, eins langt og þær ná, þegar þær hafa verið staðreyndar með beinum athugunum á högum þess fólks sem hefur flutt. Í tilefni af viðtalinu er ástæða til að Skýra málið í almennu samhengi með skilningi mannfélagsfræðinnar. Vil ég gera grein fyrir því, eftir löng kynni af Norðmönnum og Svíum og samneyti við fræðimenn á þessu sviði fólksflutninga.

Flestir hafa undanfarið flust búferlum til Svíþjóðar. Flutningar Íslendinga þangað eru þó eins og örsmá kvísl í miklum straumi fólksflutninga um Evrópu síðustu áratugi. Þetta eru fólksflutningar í kjölfar iðnvæðingar. Sveitamenn flytjast þangað sem kaupin gerast betri en heima fyrir. Þessir fólksflutningar voru bundnir við þjóðlöndin, eftir að Norður- Ameríka lokaðist að mestu, en síðustu tvo - þrjá áratugina hafa sveitamenn Júgóslavíu, Grikklands, Tyrklands, Marokkó, Indlands og Pakistan og fleiri landa flykkst til iðnríkja Vestur-Evrópu. Hvað einkennir sveitamennina? Þeir eru sjálfbjarga og félagslyndir og ættræknir með öra viðkomu. Fyrstu kynslóðinni vegnar vel, hún hefur góða heimanfylgju, hefur alist upp við holl skilyrði og hefur stoð af ættingjum og sveitungum heima og heiman. Hún þarf lítið að leita til geðdeilda félagsmálastofnana borganna, þó að hún vinni lítils metin störf sem innlendir sniðganga. Næstu kynslóð vegnar að sama skapi illa. Hún elst upp við óholl skilyrði og þolir því uppkomin jafnlítið og foreldrarnir þoldu mikið. Sveitamenn í þessum skilningi geta eins verið frá fjölmennum þorpum, en framleiðsluhættir eru í smáum stíl og mikil ábyrgð á hendiheimilanna um framfæri og uppeldi, menn byggja yfir sig sjálfir og bera ábyrgð á húsum sínum og framleiðslutækjum. Flestir eru á einhvern hátt virkir þjóðfélagsþegnar. Starfsmenntun eftir þörfum framleiðslu í stórum stíl er hins vegar takmörkuð. Uppkomnir Íslendingar, og þar með taldir Reykvikingar, eru sveitamenn í þessum skilningi, bornir saman við Svía. Íslendingar hafa þó miklu betri starfsmenntun en aðrar þjóðflutningaþjóðir.

Hvað einkennir svo þjóðfélag sem tekur við erlendum þjóðum, eins og Svíþjóð? Þar eru margir lítt sjálfbjarga og lítið félagslyndir, en njóta margs konar fyrirgreiðslu og afgreiðslu eftir föstum reglum. Tiltölulega margir eru óvirkir þjóðfélagsþegnar —er meinuð þátttaka í störfum eða fólk er keypt til þess að draga sig úr starfi (atvinnulausir og hvers konar bótaþegar). Heldur illt er milli kynslóða og viðkoma er svo hæg, að þegnum Svíaríkis hefði þegar fækkað stórlega, ef ekki hefðu komið til innflytjendur sem fjölgar að sið sveitamanna. Framtíð Svíþjóðar kann að vera borgið með þessum innflutningi, slíkt hefur áður gerst í sögu mannkynsins. Milljónir sveitafólks víða um heim vildu leita þangað, ef kostur væri, og fylla í skörð hnignandi þjóðar.

Þau ráð sem bent er á hér á landi til að menn freistist ekki af sænskum lífskjörum og flytjist búferlum, er að taka sem flest eftir Svíum og bjóða hér sem líkust lífskjör. Raunar er fyrirsjáanlegt hlutskipti þorra hinna yngstu Íslendinga þegar að litlu leyti hlutskipti sveitamannsins í hinni víðtæku merkingu sem hér er notuð. Tvennt greinir þó þjóðfélögin helst, eins og komið er. Hér á landi eru miklu fleiri virkir þjóðfélagsþegnar og hér standa margir fyrir byggingu eigin húsnæðis og viðhaldi. Þar er um átak í lífi fólks að ræða sem laðar fram fjölhæfni og reynir á og styrkir samheldni ættmenna og önnur persónuleg sambönd. Stefnt er að því af ráðandi öflum að eyða þessum mismun varðandi húsbyggingar, og öldrunarráð ríkisins vill venja þjóðina við þá tilhugsun að hlutskipti gamals fólks hér verði líkt og í Vestur-Evrópu sem óvirkir þegnar (skv. nýlegu útvarpsviðtali við formann ráðsins). Hvað sem rétt kann að gera í þeim efnum í einstökum atriðum og þegar skammter litið, er með slíku verið að styrkja einkenni þess þjóðfélags sem endurnýjar sig ekki sjálft og þegar eru orðin sterk.

Munurinn á Svíþjóð og Íslandi er sá, að íslendingar geta miklu síður bætt upp eigin hnignun með innflutningi fólks af öðrum þjóðum, þó að þær búi flestar við naumari kost — til þess er landið of lítið aðlaðandi útlendingum.

Þjóðviljanum 14. janúar 1982 og Morgunblaðinu 15. janúar 1982