Rannsóknaraðferð óháð niðurstöðu rannsóknarinnar

Hreyfiafl stjórnmála í nokkrum Asíulöndum er aðgangur og aðild að auðlindum og þjóðarauði. Það er rökstudd niðurstaða Jóns O. Halldórssonar í Íslenskum félagsritum 1992 (Ríkið og greining á langtímaþróun stjórnmála). Ég hef enga ástæðu til að vefengja hana.

Á undan og í kringum rökstuðninginn um eigin athugunarefni þar eystra athugar hann ríkisskipan, annars vegar frá sjónarhorni formgerðar-verkhyggju, með kenningar um margræði og nývæðingu í fremstu röð, og hins vegar frá sjónarhorni nýmarxískrar formgerðarhyggju. Ég tel víst, að kynning hans á því efni sé prýðileg. Sömuleiðis þykist ég vita, að í greininni allri birtist vinnubrögð, sem njóti almennrar viðurkenningar stjórnmálafræðinga. Ég leyfi mér að gera greinina að efni til að benda á nokkur einkenni á stjórnmálafræðilegum vinnubrögðum yfirleitt, sem auðvelt á að vera að bæta og löngu tímabært.

Raunasaga stjórnmálafræðinnar

Hvað getur maður, sem á að gera grein fyrir hreyfiafli stjórnmála í ríkjum Vestur-Asíu eða ríkjum Mið-Afríku, lært af greinargerð Jóns? Þarf hann fyrst að máta á ríkin kenningar um margræði og nývæðingu? Á hann að búa sig út með Gamla-Marx eða Ný-Marx í rannsóknina? Skyldi maður, sem að tuttugu árum liðnum vildi finna hreyfiafl stjórnmála í þeim ríkjum, sem Jón rannsakaði, geta beitt sömu vinnubrögðum?

Þótt ég hafi engin rök til að andmæla niðurstöðu Jóns um hreyfiafl stjórnmála í tilgreindum ríkjum Austur-Asíu, kemur ekki fram, að hann hafi beitt vinnubrögðum, sem eru óháð niðurstöðunni. Stjórnmálafræðilegar rannsóknir eru með því marki brenndar yfirleitt, að menn máta millistigskenningar, sem aðrir hafa sett fram eftir athugun á öðrum stöðum og öðrum tímum, við athugunarefni sitt og velja þá kenningu, sem efnið fellur best að.

Greinargerð Jóns um kenningar stjórnmálafræðinnar er raunasaga. Stjórnmálafræðin, eins og aðrar greinar þjóðfélagsfræði, þarf að eignast verkfæri, það er að segja rannsóknaraðferð, sem nota má á hvaða fyrirbæri sem er. Með það verkfæri á valdi sínu á maður að geta snúið sér að rannsókn án þess að vita nokkuð um fyrirbærið. Hann má vita, að þeir, sem rannsakað hafa önnur fyrirbæri, vissu ekki það, sem hann veit að rannsókn lokinni. Hann þarf ekki að staðfesta niðurstöður sínar með niðurstöðum annarra. Gamli Marx rannsakaði ekki það, sem hann á að rannsaka, og ekki Ný-Marx heldur.

Til er slíkt alhliða verkfæri, þar sem athugandinn þarf ekki að vita neitt um niðurstöður annarra á öðrum fyrirbærum. Slík vinnubrögð hafa þróast lengst í mannfræði. Það er eðlilegt, því að í viðfangsefnum hennar hafa menn lengi mátt eiga von á mikilli fjölbreytni og því hefur reynst fánýtt að máta millistigskenningar á borð við margræði, nývæðingu og Ný-Marx á fyrirbærin. Fredrik Barth hefur mér vitanlega komist lengst í því að leggja öðrum til slíkt verkfæri. Niðurstöður stjórnmálarannsóknar, sem þannig er stofnað til, geta síðan vitaskuld verið tækifæri til að athuga, hvort ríkisgerðin reynist í því tilviki einkennast af einhverju því, sem aðrir hafa fundið annars staðar eða á öðrum tímum, en það yrði annað mál.

Fréttabréfi Háskóla Íslands 17 (1995) 6 20