Þegar sagt er frá mælingum á högum almennings í heiminum, kemur það ekki á óvart að íslendingar reynast meðal efstu þjóða. Útlendingar, sem hingað koma og kynnast landi og þjóð, vefengja ekki slíkar mælingar. Ætla mætti, að þeir, sem stjórna slíku farsældarlandi, nytu virðingar og viðurkenningar, en þess verður ekki vart, þegar hlustað er á tal manna.
Stjórn með eftiröpun
Hér hefur legið í landi að leita fyrirmyndar um hvað eina erlendis. Ágreiningur um stjórn landsins hefur ekki verið um það, hvort leita eigi fyrirmyndar erlendis, heldur um það, hvaða fyrirmynd eigi að velja. Þegar litið er til þjóðfélagsskipunar í heild, hefur fyrirmyndin fyrir mörgum verið í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Sumir, sem þannig litu á, horfðu einnig til fyrirmyndar austar, í Rússlandi, eða sunnar, í Þýskalandi, og nú er aðalfyrirmyndin aftur á þeim slóðum. Hugsunin er sú að stjórna með eftiröpun.
Beiningamenn og beiningastjórn
Önnur meginhugsun íslendinga til umheimsins og samstarfs við hann er að hafa eitthvað upp úr samstarfinu. Svo hefur reyndar verið lengi. Íslendingar höfðu lengi fjárhagslegan ávinning af hernaðarstarfi annarra. Í samstarfi ríkja Norðurlanda hafa íslendingar yfirleitt verið þiggjendur um fé og þekkingu. Þá hafa það verið allt að því ósjálfráð viðbrögð hér á landi að búast við því, að græða megi á aðild að Evrópusambandinu. Engin sæmilega óháð greinargerð hefur komið fram um, að svo sé. Yfirleitt tína menn, þegar mælt er með aðild, fram einstök atriði, sem þeim líkar vel, en hirða ekki um heildaráhrif. Þar er merkilegast, að menn telja háa vexti böl. Þeir, sem eiga inneignir og njóta góðrar ávöxtunar (hárra vaxta), eru þá einskis metnir; samkvæmt athugun eru það helst alþýðumenn. Íslendingar hafa verið sem beiningamenn gagnvart umheiminum og stundað beiningastjórn.
Þegar aðild að Rómarsáttmálanum kom fyrst til athugunar (það hét þá Efnahagsbandalagið), var íslenska ráðastéttin orðin langþreytt á því að halda aftur af kröfum almennings, sem leiddu til verðbólgu og vandræða fyrir útflutningsgreinarnar. Forystumenn ráðastéttarinnar sáu aðild ráð til að verjast hóflausum kröfum almennings. Ráðastéttin hefur reyndar yfirleitt haft það meginsjónarmið að kenna íslendingum heimsins sið. Hún var því upphaflega andsnúin stækkun fiskveiðilandhelginnar, sem var gegn heimsins sið (þ.e.a.s. breskum sið), og meðan allur almenningur taldi stjórnvöld beita sér fyrir stækkuninni, sagði einn fremsti fulltrúi ráðastéttarinnar í ræðu á Akureyri (það var 1972), að þetta væri marklaust, þar sem Efnahagsbandalagið mundi fyrr en varði fá vald til að úthluta fiskveiðiréttindum, þar á meðal til Íslands. (Þeir, sem eru komnir í ráðastéttina, þurfa ekki að leita endurkjörs eða þeim er tryggt endurkjör og geta því talað öðru vísi en þeir, sem eru háðir endurkjöri).
Ráðastéttin, sem ætlaði sér að leita skjóls fyrir Alþingi og alþýðusamtökum með því að færa forræði mála undir ákvæði Rómarsáttmálans, eignaðist smám saman eigin söguskoðun, söguskoðun ósjálfstæðisbaráttunnar. Á vettvangi sagnfræðinga hefur verið sýnt fram á grundvallarveilur í henni, en það haggar ekki flytjendum hennar, enda er þeirra mátturinn og dýrðin.
Illspár ráðastéttarinnar
Ráðastéttin hefur alla tíð, þegar hún hefur mælt með, að íslendingar beygðu sig undir Rómarsáttmálann, haldið því fram, að illa hljóti að fara fyrir henni, ef hún fylgi ekki heimsins sið. Upp á síðkastið birtist þetta í umræðu um íslenskan gjaldmiðil. Lítið fer fyrir því, að rannsakað sé, hvort forsendur illspánna hafi staðist. Það er nú nokkuð fyrirsjáanlegt, að álitsgjafi ráðastéttarinnar, sem kemur fram, endar mál sitt á, að illa fari, ef íslendingar gefist ekki upp. Forsendur þessara illspáa, sem nú eru látlausar, eru fimbulfamb um framtíðina. Ég fullyrði hins vegar, að ráðastétt, sem flytti mál Íslands af þunga og með þeim þótta, sem fer þjóðinni vel, eins miklum árangri og hún hefur náð, gæti náð enn lengra í því að móta hér eftirsóknarvert þjóðskipulag. Fyrsta verkefnið gæti verið að fá vald yfir skammtímaflæði fjármagns, sem tapaðist 1995 vegna EES-aðildar, til að koma gjaldeyrismálunum í jafnvægi, enda grunaði menn þá síst, til hvers breytingin leiddi, sbr. erindi aðalhagfræðings Seðlabankans í Háskólanum nú í júníbyrjun. Samningsstaða Íslands innan EES er sterk í því efni, eins og rök málsins eru, með áberandi veikburða efnahagsstjórn ýmissa ES-ríkja, sem ekki hafa eigin gjaldmiðil.
Að ná taumhaldi
Taumleysið í efnahagsmálum mæðir ráðastéttina mest enn þann dag í dag. Menn bjuggust við því, að aðild að Evrópska efnahagssvæðinu mundi bæta þar úr, því að með henni var tekið fyrir sumt, sem menn höfðu farið geyst í, en hófleysið hefur fengið nýjar leiðir fyrir útrás sína, eins og stöðugt er frá að segja. Ég hlýt því að enda mál mitt með því að minna á athugun mína í Morgunblaðinu 29. júní um sjóðval til að ná taumhaldi á efnahagsmálum (Stórmál með sjóðvali, bréf til blaðsins bls. 37).
Morgunblaðinu 14. júlí 2008 20