Seyðfirðingar njóta oft veðurblíðu, en sól sest þar snemma vegna hárra fjalla í vestri, þótt hún sé enn hátt á lofti. Þeir njóta því færri sólarstunda á sumrin að lokinni vinnu en flestir hér á landi. Það fréttist í sumar, að þar vildu einhverjir bæta úr með því að hefja vinnu og þar með ljúka vinnu klukkutíma fyrr. En ráðið var ekki að fara sjálfir fyrr á fætur, hvað sem aðrir gerðu, ráðið var að flýta klukkunni um allt land, svo að allir færu fyrr á fætur. Með því móti yrði sól í hádegisstað í höfuðstaðnum um hálf þrjú, hálfri annarri klukkustund áður en skrifstofum stjórnarráðsins er lokað.

Nú hafa landsmenn búið við sólargangsblekkingu um langt skeið. Það eru að verða fjörutíu ár síðan blekkingin var látin gilda árið um kring. Reynslan sýnir, að hægt og sígandi hefur almenningur breytt háttum sínum og þá sérstaklega á laugardögum og sunnudögum. Þá hefst svo margt síðar en það gerði áður. Með því jafna menn sig að einhverju leyti eftir að hafa farið á fætur fyrr miðað við sólargang en menn gerðu áður fyrr. Mér þykir ólíklegt, að börn annars staðar séu rekin á fætur eins snemma og hér. Barn, sem á að vera í skóla kl. 8, þarf að vekja einhvern tíma milli 6 og 7. Ef klukka gengi samkvæmt gangi sólar og væri í hádegisstað í höfuðstaðnum sem næst kl. 12, svarar það til þess, að barnið sé rekið á fætur milli kl. 5 og 6. Svefnfræðingur minn segir, að þannig sé illa farið með börn. Ég hef ítrekað vakið athygli umboðsmanna barna á þessu, hvers á fætur öðrum. Ég veit ekki til þess, að hann hafi hreyft málinu.

Morgunblaðinu, 13. nóvember 2008 27