Málsmetandi menn í fiskihagfræði og fiskifræði hafa haldið því fram, að vernd smáfisks geti spillt aflabrögðum til lengri tíma litið. Síðast kom þetta fram í frétt í Morgunblaðinu 2. maí 2008, nefnilega, að fiskveiðistjórn, sem beinir sókninni í stóran, þroskaðan fisk og kveður á um lágmarksstærð á möskva og lönduðum fiski til að láta minni fiskinn sleppa, er á villigötum. Þetta var niðurstaða vísindamanna við Kaliforníuháskóla í San Diego eftir hálfrar aldar rannsóknir og birtist í vísindatímaritinu Nature. Reyndar benti atkvæðamesti fiskihagfræðingur hér um slóðir, Rögnvaldur Hannesson í Björgvin, þegar á svipað fyrir 15 árum, í Morgunblaðinu 8. júní 1994.

Þetta er nógu merkilegt, en þá er ekki síður merkilegt, að hvergi er brugðist við þessu í ritum háskólahagfræðinga í fiskihagfræði, og á ég þá við alþjóðleg fræðirit, þess er ekki einu sinni getið, ekki heldur af Rögnvaldi sjálfum.

Það er því löngu tímabært fyrir háskólahagfræðinga, sem gefa sig að fiskihagfræði, að taka málið fyrir. Fyrst er auðvitað að geta þessa álits, þegar fjallað er um hagkvæma fiskveiðistjórn, en setja síðan fram hugmynd um, hversu mikil verðmæti sé um að tefla. Þá þarf að láta þennan skilning móta tillögur um hagkvæma fiskveiðistjórn. Fiskveiðistjórn getur varla orðið hagkvæm, nema það sé gert. Þetta hlýtur að vera heillandi verkefni.

Heil stétt fræðimanna má ekki sitja svona hjá árum saman og leyfa þjóðinni ekki að njóta hæfileika sinna í þessu brýna úrlausnarefni. Að vísu má vera, að menn hafi reynt, en ekki ráðið við verkefnið. Það væri þá fróðlegt að vita það.

Morgunblaðinu 31. mars 2009 23