Það er sérstakt athugunarefni Lýðræðissetursins, hvernig málalok eru háð aðferðum við atkvæðagreiðslu, þar sem raðval og sjóðval er stöðugt haft í huga til samanburðar. Ef raðval hefði verið viðhaft vegna þingsályktunartillögu um Evrópusambandsmálið á alþingi 16. júlí, hefði hver þingmaður raðað þeim kostum, sem voru bornir upp, sett efst þann, sem hann vildi helst, og svo niður á við. Fyrsti kostur þingmanns Sjálfstæðisflokksins samkvæmt samþykkt landsfundar flokksins hefði verið frávísun. Annar kostur hans hefði verið, að stofnað skyldi til þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina. Samþykkt landsfundarins náði ekki til þess, hver þriðji kosturinn skyldi vera. Þingmaður Framsóknarflokksins hefði samkvæmt samþykkt flokksþingsins sett efst tillögu um umsókn með skilyrðum, sem flokksþingið setti. Samþykkt flokksþingsins sagði ekki til um, hvað næst skyldi vera. Fyrsti kostur þingmanns Vinstri grænna samkvæmt stefnuskrá hreyfingarinnar hefði verið að vísa tillögunni frá. Stefnuskráin sagði ekki til um, hvað næst skyldi vera. Að loknu slíku raðvali hefði verið reiknað, hversu mörg stig hver kostur fengi.
Enda þótt atkvæðagreiðslan færi fram að hefðbundnum hætti, varð hún einstök í þingsögu Íslands og ég vil ætla í þingsögu Norðvestur-Evrópu um langt skeið. Málalok fengust með því, að nokkrir þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn sterkri sannfæringu og gegn kosningastefnu flokks síns. Þeir höfðu vel að merkja ekki gengist undir málamiðlun um annað. Ég ítreka þetta: Vinstri grænir höfðu fallist á, að þingsályktunartillagan yrði lögð fram, en stefnuskrá ríkisstjórnarinnar kvað menn síðan hafa frjálsar hendur í málinu. Menn taka oft þátt í málamiðlun gegn því, sem þeir vildu helst. Þarna var málamiðlun Vinstri grænna að fallast á, að þingsályktunartillaga, sem var þvert gegn stefnu hreyfingarinnar, yrði lögð fram.
Það var meira, sem er einstakt í þingsögu Íslands og ég vil ætla Norðvestur-Evrópu. Almenningur gat fylgst með á netinu, þegar þingmenn gerðu grein fyrir atkvæði sínu. Kunnugir sáu þar svip þjáðra þingmanna, og hann geta menn enn séð á vef alþingis. Tveir þingmenn hafa lýst þjáningunni opinberlega, fyrst Margrét Tryggvadóttir á vef sínum daginn eftir atkvæðagreiðsluna:Um hálf ellefu fór ég fram að ná mér í vatnsglas. Þá stóð forsætisráðherra við annan mann á stigapallinum og las óþægum vinstri grænum þingmanni pistilinn. Sá kom stuttu síðar skömmustulegur inn í þingsalinn. Á eftir honum kom þingvörður sem gerði sér ferð að öðrum andstæðingi ESB innan Vinstri grænna, sem vill svo til, að situr beint fyrir framan mig. Honum var gert að fara á fund fram á stigapalli. Tilgangurinn var augljós. Það var þetta, sem Birgittu þótti svo ógeðslegt.
Birgitta Jónsdóttir tók atburðinn upp í þingræðu 23. júlí: Á fimmtudaginn var varð ég ásamt fjölmörgum öðrum þingmönnum vör við atburði hér í þingsalnum, sem samkvæmt skilgreiningu á atferlisfræði er aðeins hægt að skilgreina sem einelti á vinnustað. Í miðri atkvæðagreiðslu voru þingmenn annars stjórnarflokksins, sem vitað var, að ætluðu að segja nei eða sitja hjá við atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB, kallaðir út úr þingsalnum og haft í hótunum við þá. Þá heyrði ég greinilega hv. þingmenn hafa í hótunum við aðra hv. þingmenn í þingsalnum. Þetta gekk svo langt, að einn hv. þingmaður var dreginn út úr salnum í miðri atkvæðagreiðslu af hæstv. forsætisráðherra, og hefðu sennilega fæstir tekið eftir því, nema svo óheppilega vildi til, að hv. þingmaður var fyrir tilviljun sá, sem fyrstur átti að greiða atkvæði sitt.
Engu fræðasetri stendur það nær en Lýðræðissetrinu að athuga þennan einstæða atburð í framkvæmd lýðræðis. Það lýsir því eftir vitnisburðum um hann.
Morgunblaðinu 31. júlí 2009 24