Yfir öllu í Rómarsáttmálanum er, að ríki Evrópusambandsins mismuni ekki í viðskiptum og hvers konar atvinnurekstri; ef víkja má frá því, verður að taka það sérstaklega fram. Þetta gildir einnig á Evrópska efnahagssvæðinu. Til eftirlits þessu eru stofnanir, sem taka fyrir brot á lögmálinu, ótilkvaddar eða eftir kæru. Þegar Evrópusambandið skipaði málum innistæðueigenda með tryggingasjóði árið 1999, var það útfærsla á þessu lögmáli, að ríki mismuni ekki, eins og getur falist í því að ábyrgjast innistæður. Kaup breska og hollenska ríkisins á IceSave-innistæðunum mismuna fjármálastarfsemi. Þar var ekki aðeins IceSave-innistæðueigendum mismunað innbyrðis, heldur öllum innistæðueigendum á Evrópska efnahagssvæðinu. Í þessu sambandi skiptir ekki máli, hvort breska og hollenska ríkið framvísa ábyrgðinni á endanlegum kostnaðinum á íslenska ríkið. Brotið hefur verið framið, hver sem tilgangurinn var. Hann helgar ekki meðalið. Þá mildar það ekki brotið, að menn vilja rækja dyggðir með því að kosta mismununina, það er að segja að leggja IceSave-ábyrgðina á íslenska ríkið. Greinarhöfundur nokkur taldi manndóm í því, annar vildi, að íslendingar friðþægðu þannig fyrir taumleysi sitt undanfarið. Á sama hátt er, að íslenska ríkið má ekki láta af hendi fé til stuðnings atvinnustarfsemi, hversu göfugur sem tilgangurinn kann að vera, það brýtur gegn lögmálinu.
Hvernig sem fer með IceSave-ábyrgð íslenska ríkisins, verður að snúa sér að fylgja því eftir, að eftirlitsstofnanir EFTA og Evrópusambandsins ómerki upphafið, kaup breska og hollenska ríkisins á innistæðunum, en þá er IceSave-samningurinn úr sögunni. Þótt menn semji af sér með IceSave-samningnum réttinn til að fylgja IceSave-deilu Íslands, Bretlands og Hollands eftir fyrir dómi, geta menn ekki samið sig undan rétti og skyldu eftirlitsstofnananna.
Morgunblaðinu 25. águst 2009 19