Tvennt varð kunnugt á árunum eftir 1956 af hugsunum og ráðagerðum hagfræðinganna Gylfa Þ. Gíslasonar, sem varð árið 1956 ráðherra viðskiptamála, og Jónasar H. Haralz, sem varð þá fljótlega efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar. Annað var þær efnahagsráðstafanir, sem gerðar voru 1960, reyndar af sama tagi og efnahagsráðstafanirnar 1950. Hitt var að skipa Íslandi í Efnahagsbandalag Evrópu, sem var þá í mótun. Þeir fullyrtu, að dagar Fríverslunarbandalagsins væru senn taldir, og því væri það ekki kostur fyrir Ísland.

Þeir unnu samkvæmt þessu í nokkur ár—Jónas þá orðinn ráðuneytisstjóri, en því starfi var hætt  án opinberrar tilkynningar. Hins vegar var þá ekki alveg kunnugt, hvað fyrir Gylfa vakti með aðild að Efnahagsbandalaginu. Hann skýrði það 1973 á málstofu í viðskipta- og hagfræðideild Háskólans (háskólamálstofa er opinber vettvangur). Hann var þá nýorðinn prófessor í deildinni eftir 16 ára hlé frá því starfi.

Seðlabankastjóri hafði framsögu á málstofunni um tilurð seðlabankans og verkefni. Á eftir lýsti Gylfi því, hvernig honum hafði orðið við 1956, þegar hann varð fyrst ráðherra. Þá hefði honum fundist sem á sér stæðu þúsund spjót, þar sem honum var ætlað að vinna að svo mörgu, sem almenningi höfðu verið gefin fyrirheit um, en það var langt umfram það, sem tök voru á að efna. Til að verjast svo taumlausum kröfum almennings sá hann þann kost að skipa Íslandi í Efnahagsbandalagið.

Ekki er kunnugt um skýringu Jónasar Haralzs á því, hvað fyrir honum vakti í þessu máli umfram hinn  opinbera rökstuðning embættismannsins, en það varð viðkvæði hans síðan varðandi stöðu Íslands á vettvangi Evrópuríkja, að á Íslandi vantaði aga í efnahagsstjórn. Agi getur verið þannig, að maður ber ábyrgð á sér og hefur sjálfsaga. Svo er sá agi, þar sem maður er látinn hlýða. Slíkan aga hafa menn vænst að fá í Evrópusambandinu.

Undanfarið hefur mátt fylgjast með því, hvernig fjarstjórn Evrópusambandsins er ætlað að bæta óstjórn einstakra ríkja þess, það er með því að hlýða Brüssel. Óstjórnin felst í því, að ráðamönnum tekst illa að sammælast um efnahagsstjórn. Svo, ef sammæli tekst, helst það gjarna stutt. Það var slík óstjórn, sem Gylfi hafði kynnst sem hagfræðingur og stjórnmálamaður.

Í þessu sambandi má minna á það aðhald og aga til sjálfstjórnar, sem felst í sjóðvali. Í því eru áhrifum hvers þátttakanda sett mörk með úthlutun atkvæða í sjóð hans. Það kostar hann atkvæði að hafa áhrif á niðurstöðu máls, í því er aðhald og agi. Í sjóðvali getur birst, hvernig hver og einn hefur beitt atkvæðum sínum og hvað hvert einstakt mál kostaði hvern mörg atkvæði.

Það á nú að vera kunnugt, hvernig fjalla má um málefni af ýmsu tagi í sjóðvali, svo sem við gerð samgönguáætlunar, í skólamálum, og þar sérstaklega við skipan háskóla, og ekki síst við gerð fjárhagsáætlunar og fjárlaga. Þetta kallast sjóðval um stórmál. Í sjóðvali geta verið mörg mál í sama málaflokki. Óskir, sem í þeim felast, geta virst eins og þúsund spjót, sem beinast að stjórnvöldum, en í sjóðvali gefst við afgreiðslu hvers einstaks máls færi á að skjóta skildi fyrir með því að tengja afgreiðsluna við önnur mál, þar á meðal útgjaldarammann. Í þessu felst sjálfstjórn og sjálfsagi sjóðvals.

Sammælið, sem sjóðval er, getur breyst í málaflokknum með því að taka upp fyrri niðurstöður. Slík endurskoðun í sjóðvali er öguð með almennum reglum sjóðvals og setur því ekki sammælið í uppnám. Það má byrja smátt, meðan menn eru óreyndir. Sjóðval er ekki nauðsynlegt að lögfesta sem vinnubrögð frekar en hvert annað samráð.

Morgunblaðinu, 22. nóvember 2012