Víðtæk athugun á stjórnmálahugmyndum í Evrópu á 20. öld hefur leitt í ljós, að skipan Evrópusambandsins var þannig hugsuð, að tryggt væri, að ekki kæmust aftur til valda menn eins og Mussólíni á Ítalíu, Hitler í Þýskalandi og Pétain í Frakklandi. Athugunin birtist í nýrri bók um stjórnmálahugsun í Evrópu á 20. öld (Contesting democracy) eftir Jan-Werner Müller, þýskan mann, sem starfar í Princeton-háskóla vestra. Forystu í þessu efni höfðu leiðtogar kristilegra demókrata eftir síðari heimsstyrjöld, á Ítalíu, í Þýskalandi og í Frakklandi, þeir Gasperi, Adenauer og Schuman. Þeir höfðu séð meginlandið brenna í ófriði og vildu vinna að því, að slíkir eldar kæmu ekki upp aftur. Til þess yrði valdið að vera fjarri þjóðunum. Flokkar þeirra kenndu sig vissulega við lýðræði, en Evrópusambandið var einmitt skipulagt til þess, að þjóðirnar og lýðurinn héldist í skefjum. Þannig er framkvæmdastjórn Evrópusambandsins betur varin fyrir vantrausti þings en nokkur einstök ríkisstjórn í Evrópu vestan Rússlands. Stofnanir og stofustjórar í einstökum ríkjum eru betur í vari fyrir lagasetningu kjörinna fulltrúa en áður hefur þekkst í löndum lýðræðis. Þá er túlkun laga og stjórnarskrár mjög færð undir dómara, sem almenningur kýs ekki, með teygjanlegu orðalagi í ákvæðum laga og stjórnarskrár. Evrópusambandið er því í senn þjóðfælið og lýðræðisfælið, eins og ætlunin var. Lýðræðishalli, sem talað er um, er það sem átti að verða, en ekki mistök.

Meðan ófriðareldar brunnu á meginlandinu, var á Íslandi og lengur verðbólgubál. Ég hef nýlega rakið það hér í blaðinu, hvernig tveir mikils háttar hagfræðingar og ráðamenn, Gylfi Þ. Gíslason og Jónas Haralz, sem tókst ekki frekar en öðrum að hemja bálið, stefndu að því að koma ráðamönnum í var fyrir þjóðinni með því að koma Íslandi fyrir í Efnahagsbandalaginu, fyrirrennara Evrópusambandsins, til að geta betur ráðið. Þannig skýrðu þeir reyndar ekki mál sitt opinberlega, heldur létu Efnahagsbandalagsmálið heita spurningu um greið utanríkisviðskipti. Aðrir flutningsmenn þess, að Ísland gangi í Evrópusambandið, hafa ekki heldur kynnt framangreindan aðdraganda að skipulagi Evrópusambandsins.

Morgunblaðinu, 28. desember 2012