Vitur maður, sem margan heiminn hafði athugað, kenndi mér, að mannlegt félag væri fátækt, þannig skilið, að lítið þyrfti út af að bera, til spilla því, sem fólk mætti una. Ég segi sögu til skýringar. Í fjögurra hæða fjölbýlishúsi í Reykjavík, sem ég var kunnugur fyrir aldarfjórðungi, voru þrír stigagangar. Í miðganginum voru nokkuð stórar íbúðir, en til beggja handa voru íbúðirnar heldur smáar. Húsið var um þrjátíu ára gamalt. Eigendurnir í miðjunni höfðu ráðið fram úr sameiginlegum málum, en nú uppgötvuðu einhverjir, að lög kváðu á um húsfélag og húsfélagsdeildir. Einhver núningur varð í upphafi milli þeirra ráðagóðu manna, sem áttu mest undir sér, og þeirra, sem hlutu kjör til að stjórna að lögum.

    Húsþakið blasti við úr strætisvögnum, sem fóru alloft fram hjá, oft með  farþega. Sýnilega þurfti að mála þakið. Íbúarnir í austasta stigaganginum voru tregir til, þeir voru ekki vel efnum búnir, en þarna var meira í húfi að dómi okkar sumra, nefnilega það álit, sem húsið í heild fékk og hættan á, að það spillti fyrir verði og sölu, þegar skellótt þak blasti við vegfarendum. Samkomulag náðist um síðir um að mála þakið. Ef það hefði ekki tekist, hefði getað myndast vítahringur, því að með lélegu viðhaldi hefði sæmilega efnað fólk forðast kaup á íbúðum og eftir setið efnalítið fólk og viðhald vanrækt enn frekar. 

    Ég sagði frá þessu um daginn, þar sem fólk sat á skrafi. Þá var mér sagt, að nú bæðu menn um íbúaskrá, þegar þeir væru að athuga kaup á íbúð í fjölbýlishúsi. Þar geta menn athugað, hvort framandi fólk samkvæmt nöfnum eigi þar heima. Framandi fólk hér er nú gjarna fátækt fólk. Þannig getur myndast vítahringur. Þetta virðist vera saga heimsins á tímum fólksflutninga. Árangurinn kemur þannig fram samkvæmt könnunum í okkar heimshluta, að segja má, að flótti bregðist í liðið, þegar 5% íbúa hverfis eru framandi, þá leita þeir, sem ráð hafa, annarrar búsetu. Líti nú hver í kringum sig.

    Í áðurnefndu húsfélagi voru reyndar ekki framandi íbúar, en í hverfinu var nokkur þjóðablanda, eins og sjá mátti í leikskólanum. Ég hef það fyrir satt, að starfsfólk hans hafi gert sér far um að láta börn ekki verða útundan vegna útlits. Leiðir heim út leikskólanum voru greiðar án bílaumferðar. Þar blasti það við hverjum sem var, að börnin aðgreindu sig eftir hörundslit.

    Í þessu litla mannfélagi birtist það, sem heimurinn býr við. Í leikskólanum var vönduð framkoma ráðandi, en hún brást, þegar aginn hvarf á leiðinni heim. Í fjölbýlishúsum og íbúðahverfum fer allavega. Margar rannsóknir hafa verið gerðar um það, hvernig fólk unir sér, annars vegar þar sem tala má um fjölmenningu meðal íbúa og hins vegar, þar sem íbúarnir eru einsleitir hvað uppruna varðar og menningu. Niðurstöður eru víst alltaf þær, að fólk yfirleitt unir sér best, þar sem menningin er samstæð, lífið í fjölmenningu fer eftir því einhvern veginn illa í fólk. Engu að síður  er siðavendni víða innrætt. Sagan um miskunnsama samverjann getur verið táknræn um það. Siðavendnin kann að vera virt bæði af einlægni og á yfirborðinu, en kannanir fagmanna leiða í ljós, að ónotin eru undir niðri.

Morgunblaðinu, 4. mars 2023