Ég skil ekki, hver geti verið tilgangurinn með að knýja fram með lögum afnám fámennra hreppa. Ýmis lögboðin verkefni verða eftir sem áður ofvaxin þeim, hvort sem miðað er við 250 eða 1.000 íbúa; við slíku er gert í núgildandi lögum með ákvæði um samning um samstarf. Svo er það að bruðla með opinbert fé að gera það að skilyrði fyrir því að njóta framlags að láta af hendi sjálfræði.

    Á Íslandi hefur frá því á 19. öld ráðið umburðarlyndi til löggjafar, þannig séð, að hún hefur verið sniðin ólíkt fyrir þéttbýli og strjálbýli. Þéttbýlið hefur fengið að móta sína stjórnarhætti og strjálbýlið sína; í strjálbýlinu hefur forræði hlotið að mótast meira af áhuga og hollustu við samþegna, en í þéttbýlinu hafa mál verið færð í hendur stofustjóra, sem sinna málum í fullu starfi. Milli þessara tveggja menningarheima hefur ekki alltaf verið sanngjarn tónn, en til þessa hefur þéttbýlið haldið aftur af þeim, sem lítilsvirða áhugamannamenningu strjálbýlisins, og það hefur liðið rétt strjálbýlisins til að spreyta sig á eigin forsendum. Það er leitt til þess að vita, að ofan á skuli hafa orðiðí stjórnarráðinu og í Sambandi íslenskra sveitarfélaga að óvirða slíka fjölmennningu.

    Ég fjallaði um þetta mál í grein í Bændablaðinu í haust (Samningur um samstarf sveitarfélaga). Í lítilli bók (Hreppamál 2013) eru greinar og bókarkaflar eftir mig um skyld mál. Þegar líður á bókina, snýr efnið að því að koma til móts við þarfir þéttbýlisins, svo að allur almenningur þar megi betur en nú njóta þess að heyra til sínu umhverfi á ábyrgan hátt. Gaman væri, ef alþingi sneri sér að slíku verkefni, en hætti ýfingum við þann hluta strálbýlisins, sem enn finnur með sér afl til að ráða sínum málum.

Morgunblaðinu, 5. mars 2020