Af tali manna að ráða er almennur skilningur á áhrifum innflytjenda á hag landsmanna. Innflytjendur þrengja helst að þeim, sem standa veikt, svo sem fyrri innflytjendum, en aðrir hafa ávinninginn af innflytjendunum. Vandinn er sá að ofbjóða ekki, svo að sú tilfinning vakni, með réttu eða röngu, að þrengt sé að ýmsum, sem hér hafa alið aldur sinn og hafa átt í vök að verjast. Þannig verða leiðindi, sem meðal annars birtast sem hatursorðræðu. Vitaskuld er hatursorðræða landsmanna um eigin landsmenn miklu rammari en hatursorðræða þeirra um útlendinga og hefur lengi verið.

 

            Innflytjendahópar hér hafa lengi lifað sínu eigin lífi og samlagast, eins og margir þekkja af eigin raun. Það er mikið spurning um, hvernig fer, hvort straumurinn er stríður til landsins. Ég hef löng kynni af Noregi, þar sem ég var ungur árum saman og kem enn iðulega þangað, helst vegna starfs. Í Osló blasir við nærri járnbrautarstöðinni líf, sem á rætur í fjarlægum löndum. Fyrir nokkrum árum var sagt frá því í blöðum, að þar, í hverfinu Grönland, hefði síðasta norska fjölskyldan með barn í skóla flust burt. Stundum leysist alþýðlegt samfélag upp, þegar efnamenn kaupa þar eignir og setjast að. Í Grönland sótti fátækt fólk, eins og innflytjendur voru yfirleitt, inn í gróið hverfi alþýðufólks, og aðlagaðist ekki, heldur varð smám saman einrátt.

            Nýleg athugun sýndi, að innflytjendur í Osló skera sig ekki úr á mestu þjóðræknishátíð í Noregi, þjóðhátíðardeginum 17. maí. Þar er þjóðfáninn með merki kristninnar, krossinum, mest áberandi. Þetta þótti benda til aðlögunar. Annað kom fram í athugun, sem nýlega var gerð í Grorud í Osló. Þar er mikil nýbyggð, sem hófst upp úr miðri síðustu öld, og var allt af myndarskap gert, eins og blasti við á ferð um hverfið. Ég ber Grorud saman við Grafarvogshverfið í Reykjavík, þar sem ekki aðeins er myndarbragur, heldur má líka skynja þar gott mannlíf með öflugu félags- og menningarstarfi. Það er ekki sjálfgert, að vel takist við slíka nýbyggð á tímum, þegar hversdaglegt líf er sundrað.

            Grorud-hverfið var athugað með tilliti til innflytjenda. Spurningin vill vera, hvernig samlögunin tekst. Samlögunin reyndist ekki aðeins hafa mistekist, heldur höfðu norðmenn á Grorud hætt að taka þátt í því samfélagi, sem þeir höfðu mótað, og dregið sig hver inn í sína skel, sína íbúð.

            Maðurinn, sem rannsakaði, valdi fólk til viðtals. Hann sniðgekk þá, sem voru í stöðu til að vinna að málum íbúanna og höfðu þess vegna opinbera afstöðu. Ég minnist sögu úr skýrslu hans. Norsk kona sagði, að svo væri komið, ef hún gengi eftir götu þar í hverfinu, vitaskuld klædd alla vega, eins og gerist meðal norskra kvenna, þá horfðu ‘þeir’ á hana grimmdaraugum. Söguna hafði hann til að lýsa sundrung almennt meðal íbúanna. Samtölin fóru fram með nafnleynd, aðeins þannig fékkst fólk til að tjá sig, sagði rannsakandinn.

Morgunblaðinu 27. desember 2016