Þúsundir flytja til Íslands, sagði í forsíðufyrirsögn Morgunblaðsins 29. apríl. Undirfyrirsögn segir síðan, að á nýliðnu tímabili fluttu frá landinu 810 fleiri íslenskir ríkisborgarar en til landsins.

 

Ég sakna greiningar á því, hvað er á seyði, en ég heyri ýmsar athugasemdir. Fullyrt er, að þeir, sem standa í stórræðum í framkvæmdum, ráði ekki íslendinga í almenn störf, heldur séu þar pólverjar, en verkstjórarnir íslenskir. Áður fyrr gátu ungir menn fæddir hér á landi haft talsvert upp úr sér í slíkum störfum og lagt grunn að eigin húsnæði.

Þessar framkvæmdir eru að hluta vegna vaxtar ferðaútvegsins. Hverjir sækja helst í láglaunastörfin þar? Eru þeir fæddir hér á landi? Háskólakennararnir Stefán Ólafsson og Hannes Gissurarson deila í blaðaskrifum um mælingu á fátækt á Íslandi og öðrum löndum. Þær mælingar, með einkunn eins og meiri eða minni frjálshyggja, lýsa ekki, hvernig mönnum er skapað hlutskipti. Þær skýra ekki, hvort sá heimur, sem Íslandi er búinn, skákar mönnum út í fátækt, dregur að fátækt fólk frá útlöndum eða ýtir til starfa erlendis þeim, sem gætu verið sjálfbjarga og styrkt efnahag landsins. Meðan ferðaútvegurinn nýtur verulegrar undanþágu frá virðisaukaskatti (0 eða 7% á móti 25,5% á flest annað) verður ekki dæmt um, hvort hann er í raun láglauna- og fátæktargrein.

Það vantar umfangsmikla greiningu háskólanna á ástandinu. Tölur birtast í töflum í greinargerðum, en tölurnar eru í besta falli upphaf á skýringu. Nýlegt dæmi er álitsgerð Samtaka atvinnulífsins um skólamál. Þar er skólasókn ekki skilin og skýrð með atvinnutækifærum ungs fólks, svo sem hvort því séu lokaðar leiðir milli náms og starfs vegna ráðningarstefnu atvinnurekenda og lengingar skólaársins. Dæmigerð öðru vísi umfjöllun en töflur í greinargerðum er í fjölmiðum, þar sem er lýst hrakningsfólki, án tillits til þess hvernig reglur atvinnulífsins, þar á meðal vinnumarkaðsreglur Evrópska efnahagssvæðisins, skáka mönnum út í fátækt og skjól opinberrar forsjár. Slíkt er sjónarhorn félagsráðgjafar, starfsgreinar og fræðigreinar, sem er góðra gjalda verð, en takmörkuð til almenns skilnings á lífsskák einstaklinga í þjóðfélagsskákinni.

Morgunblaðinu 21. maí 2014: 24