Því hefur undanfarið verið haldið fram, að þjóðaratkvæðagreiðsla sé ekki í samræmi við stjórnskipunarhefð íslendinga. Vitaskuld er ekki að búast við sterkum hefðum hjá unglingi eins og íslenska ríkið er. Hitt má fullyrða, að þjóðaratkvæðagreiðsla með lagagildi hefur verið í samræmi við hugmyndir ráðamanna um stjórnskipun landsins. Það kemur skýrt fram í skýrslu stjórnarskrárnefndar um endurskoðun stjórnarskrárinnar sem ég varð mér úti um í forsætisráðuneytinu.

Nefndin fjallaði um stjórnarskrána grein fyrir grein, þ. á m. 26. grein um staðfestingu forseta á samþykktu lagafrumvarpi. Hún er svofelld: „Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.“

Stjórnarskrárnefnd lagði til að í stað þessarar greinar kæmi: „Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta eigi síðar en þremur vikum eftir að það var samþykkt. Áður en forseti tekur ákvörðun um staðfestingu frumvarpsins, getur hann óskað eftir því, að um það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Þjóðaratkvæðagreiðslan skal þá fara fram innan tveggja mánaða frá því að ósk um hana var borin fram. Sé frumvarpið þar fellt, er forseta heimilt að neita að staðfesta það. Sé það samþykkt, skal forseti staðfesta það.“

Nefndin taldi eðlilegra, að forseti geti óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, áður en hann tekur ákvörðun um það, hvort hann staðfestir það eða ekki, því að ella þurfi „forseti og meirihluti þings að standa að þjóðaratkvæðagreiðslunni sem andstæðingar.“

Ekki þarf frekari vitna við um einróma afstöðu stjórnarskrárnefndar.

Annað mál er það, að forseti er ekki endilega að lýsa sig andvígan samþykkt Alþingis með málskoti til þjóðarinnar. Í því þarf ekki að vera fólgið annað álit en að um svo mikilsvert mál sé að ræða, að þjóðin skuli öll taka ábyrga afstöðu til þess.

Morgunblaðinu 13. nóvember 1992

Athugasemd

 

í frétt í Tímanum þann 8. Desember sl. gerir EÓ á forsíðu grein fyrir stöðu EES-málsins eftir að Svisslendingar höfnuðu aðild að samningunum. Hann segir: „EFTA-ríkin telja sig ekki geta beðið lengur eftir að komast inn fyrir tollmúra EB."

Sjö ríki Fríverslunarbandalags Evrópu,

EFTA, hafa hvert um sig samning um fríverslun, þ.e. tollfrjálsa verslun, við Evrópska samfélagið, sem myndað er úr 12 ríkjum. Ríkin 19 mynda því fríverslunarsvæði. EES-samningurinn er ekki gerður til að afnema tolla, heldur til að skuldbinda EFTA-ríkin til að lúta lögum og reglum Evrópska samfélagsins um efnahagsmál, eins og þau eru á hverjum tíma. Þess vegna er nýskipaninni valið heitið efnahagssvæði.

Morgunblaðinu 13. nóvember 1992 (Bréf til blaðsins)