Eins og kunnugt er, var það orðin ríkjandi skoðun meðal almennings eftir miklar rökræður í blöðum, að bera skyldi EES-samninginn undir þjóðaratkvæði. Meðal þeirra, sem kröfðust þess, að Alþingi bæri hann undir þjóðaratkvæði, áður en það lyki málinu, var miðstjórn Alþýðusambands Íslands. Eftir að Alþingi hafnaði því 5. nóvember, tók þing Alþýðusambandsins málið upp og ítrekaði ósk sína til Alþingis um þjóðaratkvæði. Fulltrúaþing Kennarasambandsins varð hvað fyrst til að krefjast þjóðaratkvæðis um málið (í júní 1991). Fulltrúaráð þess ákvað nú í lok nóvember að minna æðstu menn þjóðarinnar á samþykkt sína.

Úr því að Alþingi hafnaði því að bera málið undir þjóðaratkvæði, áður en það lyki málinu, getur það nú aðeins sinnt kröfunni með því að setja í lögin um samninginn ákvæði um, að þau taki ekki gildi, nema þau verði samþykkt með þjóðaratkvæði.

Ýmsir hafa mælt með EES-samningnum með skilyrðum, sem Alþingi ætti að fullnægja. Það er fyrst eftir afgreiðslu Alþingis, að þeir geta dæmt um það, hvort skilyrðunum hafi verið fullnægt svo vel, að meðmæli þeirra haldist. Það er enn frekari ástæða til að bera málið undir þjóðaratkvæði eftir afgreiðslu þess á þingi.

Ef Alþingi sinnir því ekki, er eftir réttur forseta Íslands til að vísa málinu undir þjóðaratkvæði samkvæmt 26. grein stjórnarskrárinnar. Engin skilyrði eru sett um það hvenær ákvæði greinarinnar eigi við. Stjórnarskrárnefnd hefur fjallað um hana á áratuga setu sinni og lét einróma í ljós það álit, að þessi réttur forseta skuli haldast án fyrirvara um það, hvers eðlis málið er. Þjóðin hefur því kosið forseta til að fara meðþetta vald.

Í þessu efni er forseti stjórnvald, og eins og gengur með stjórnvald, getur afstaða þess orðið umdeild. Það er óvenjulegt um forsetaembættið, þar sem það er fyrst og fremst sameiningartákn. Ég hef orðið þess var, að fólk, sem vonast til að forseti vísi málinu undir þjóðaratkvæði, telur óviðeigandi að beina þeirri kröfu, sem sneri að Alþingi, til forseta. Það hlýtur samt að vera rétt í lýðræðisríki, að almenningur láti stjórnvald vita vilja sinn.

Vilji almennings hefur vitaskuld komið fram. Ekki er ástæða til annars en að ætla, að þeir, sem töldu rétt að Alþingi ákvæði þjóðaratkvæði um málið, telji jafnrétt, að það farifram með atbeina forseta.

Þeir, sem óskuðu eftir þjóðaratkvæði, hafa hver haft sína ástæðu. Fyrir mér er aðalástæðan sú það, sem ég hef heyrt svo oft á fólki, að stjórnmálaflokkarnir hafi ekki reynst trúverðugir í þessu máli. Um er að ræða að taka af dagskrá Alþingis stóran hluta þeirra mála, sem hafa verið helstu ágreiningsefni íslenskra stjórnmálaflokka, og láta þau ráðast af erlendu valdi. Aðeins einn stjórnmálaflokkur lýsti fyrir síðustu kosningar stuðningi við málið án skilyrðis, sem ekki verður fullnægt við afgreiðslu þess á þingi. Í fjórum flokkum, sem eiga 53 fulltrúa á þingi, var annaðhvort lýst andstöðu við EES-samninginn eða sett skilyrði, sem ekki varð fullnægt í samningnum og Alþingi ræður ekki heldur við.

Vísi 28. desember 1992.