Á Alþingi er verið að fjalla um lög um hinn raunverulega EES-samning. Ef þau verða samþykkt, verða þau sem önnur lög að hljóta staðfestingu forseta Íslands eða þjóðarinnar. Vigdís Finnbogadóttir vék sér undan því hinn 13. janúar s.l. að vísa staðfestingu laganna um fyrrverandi EES-samning til þjóðarinnar með þeim rökum, að hún óttaðist, að þá yrði hún ekki tákn sameinaðrar þjóðar. Hún vísaði einnig til þess, að færsla embættis hennar væri í mótun.
Margir eru, sem kunnugt er, þeirrar skoðunar, að það styrki ekki embætti forseta Íslands sem tákn sameinaðrar þjóðar að víkja sér undan því að vísa EES-málinu til þjóðarinnar til staðfestingar, og vilja, að embættið mótist m.a. með tilliti til þeirrar heimildar, sem 26. grein stjórnarskrárinnar veitir forseta til að færa ráðin í tilteknum málum frá ríkisstjórn til þjóðarinnar.
Það er ekki nema von, að kappsfull ríkisstjórn þrýsti fast á forseta, ef til greina kemur að færa úrslit máls frá henni til þjóðarinnar. Skrifstofa forseta og skrifstofa forsætisráðherra eru undir sama þaki. Það má vera táknrænt fyrir aðstöðu forseta til að halda hlut þjóðarinnar gegn ríkisstjórn, ef svo ber undir.
Eins og víða hefur komið fram, urðu það mörgum vonbrigði, að Vigdís skyldi ekki beita heimild stjórnarskrárinnar í þessu efni í vetur. Með undirskriftasöfnun er almenningi um land allt gefinn kostur á að taka undir yfirlýsingu um, að ekki megi taka frá þjóðinni þann rétt, sem felst í því, að forseti getur vísað staðfestingu laga til hennar, og þess óskað, að sá réttur verði nýttur við lok EES-málsins.
Með undirskriftasöfnuninni er ekki verið að ýfast um orðinn hlut, heldur horft fram á við til að gæta stjórnarskrárbundins réttar almennings. Mörgum þykir líklegt, ætla ég, að Vigdís vilji nema vilja almennings í málinu og láta forsetaembættið mótast með tilliti til hans. Síðan í janúar hafa rökræður skýrt stöðu forseta í þessu efni; þar má einkum minnast greinaflokks Sigurðar Líndals prófessors.
Tímanum 8. og Degi 14. apríl 1993