Það er almenn skoðun, að EES-samninginn eigi að bera undir þjóðaratkvæði. Þetta hefur komið vel fram í vetur og vor. Helsta undantekningin frá því eru þeir, sem stjórna landinu. Margvísleg fjölmenn samtök hafa sett fram kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Undir kröfuna hafa tekið tvívegis í vetur þingmenn úr fjórum stjórnmálaflokkum. Til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu verður að koma fyrr eða síðar.

Það er engin ástæða til þess fyrir fjölmenn samtök í landinu að láta stjórnvöld hunsa sig í þessu efni. Í haust á samkvæmt sveitarstjórnarlögum að greiða atkvæði um sameiningu sveitarfélaga um svo til allt land. Atkvæðagreiðslunni á að vera lokið fyrir 1. desember. Vegna hennar verður útbúin kjörskrá í flestum sveitarfélögum. Það ætti ekki að vera mikið mál fyrir hin ýmsu samtök almennings, sem krafist hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn, að taka höndum saman, hagnýta sér kjörskrána og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hann framhjá stjórnvöldum. Atkvæðagreiðslan um sameiningu sveitarfélaga fer væntanlega fram á laugardegi, sinn daginn á hverjum stað í nóvember. Atkvæðagreiðsla framhjá stjórnvöldum um EES-samninginn gæti þá staðið á sama stað frá föstudegi til sunnudags og farið fram í nálægum húsakynnum, ef kostur er; jafnvel undir sama þaki, þar sem svo semdist.

Morgunblaðinu 22. maí 1993