Er það endilega heppilegt fyrir fylgi flokks að halda aðeins fram skoðun öruggra fylgismanna?  Svo getur staðið á, að hluti flokksins telji annan málstað sér til framdráttar og treysti því, að „gamla fylgið“ finni samt ekkert skárra að styðja.

Getur verið heppilegast fyrir flokksforystuna, ef skoðanir eru mjög skiptar meðal flokksmanna, að sniðganga flokksstofnanir og láta flokksmenn standa frammi fyrir máli sem orðnum hlut?  Þá er andstaðan orðin árangurslaus, en flokksforystan getur skírskotað til hollustu við flokkinn.

Þetta m. a. getur valdið því, að afstaða flokkaþings eins og Alþingis verði öndverð afstöðu almennings í mikilvægum málum.  Skyldi þetta ekki hafa ráðið niðurstöðu EES-málsins á Alþingi?  Síðasta skoðanakönnunin um afstöðu til EES-samningsins, sem DV kynnti, sýndi 60 nei og 40 já, en á Alþingi voru hlutföllin að lokum þveröfug.

Nýlega hafa verið stofnuð samtök um stjórnarskrárbót og þjóðaratkvæði.  Tilefnið er reynslan af meðferð EES-málsins.  Tilgangurinn er að vinna að því, að sett verði ákvæði í stjórnarskrána til að búa svo um hnútana, að málum, sem varða grundvöll þjóðfélagsins, verði ekki ráðið nema með samþykki þjóðarinnar.  Meðal ákvæðanna er það, að þriðji hluti þingmanna geti vísað nýsamþykktum lögum strax til þjóðaratkvæðis.

Slíkt ákvæði hefur verið í dönsku stjórnarskránni síðan árið 1953.  Fyrirfram komu fram áhyggjur af því, að því yrði beitt í ótíma.  Sú hefur ekki orðið raunin.  Með slíku ákvæði eru það eðlileg viðbrögð ríkisstjórnar með tæpan meirihluta á þingi að hugsa ráð sitt vel og berja ekki í gegn lög, sem ekki njóta stuðnings almmennings.  Raunin hefur orðið sú á 40 árum, að aðeins einu sinni hefur minnihlutinn beitt þessu ákvæði.  Það var árið 1963 um fjögur lagafrumvörp um jarðamál.  (Þau voru öll felld).

Stundum hefur ráðandi mönnum verið þóknanlegt að leggja mál fyrir almenning, en stundum hefur þeim þótt allt öfugt við það.  Tillögur um grundvallarbreytingar á stöðu landsins hafa nokkrum sinnum verið lagðar fyrir almenning.  Þær voru felldar 1908 — það var svokallað uppkast.  Þær voru samþykktar 1918 -um stofnun fullvalda ríkis — og 1944 — um stofnun lýðveldis.  Í þessi skipti þótti ráðamönnum rétt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu.  Öðru máli gegndi síðastliðinn vetur.  Þá höfnuðu ráðamenn því að bera EES-málið undir þjóðina þrátt fyrir ótvíræðan vilja almennings.

Hér hafa iðulega komið upp mál, þar sem minnihluti á þingi eða í borgarstjórn hefur gert tillögu um almenna atkvæðagreiðslu, en meirihlutinn hafnað henni.  Menn hafa stundum rengt einlægni minnihlutans og haldið því fram, að hann hefði ekki viljað slíka atkvæðagreiðslu, ef hann hefði verið í meirihluta.  Stundum hefur verið vísað til dæma um, að minnihlutamenn hafi við önnur tækifæri verið á móti almennri atkvæðagreiðslu um mál.  Með þessu ákvæði er minnihlutinn gerður ábyrgur, þar sem afstaða hans getur ráðið.
Almenn regla í stjórnarskránni um rétt þriðjungs þingmanna til að vísa nýsamþykktum lögum til þjóðaratkvæðis mundi bæta lýðræðisandann í landinu.  Af sömu ástæðum væri til bóta að setja það ákvæði í samþykktir borgarstjórnar og annarra sveitarstjórna, að þriðjungur sveitarstjórnar geti vísað máli til atkvæðagreiðslu meðal almennings.

Vísi 23. nóvember 1993