Menn hafa sett á ræður um það í tilefni af 75 ára afmæli íslenska ríkisins hvað sé fullveldi. Nýjasta dæmið er grein Guðmundar Hálfdanarsonar „Hvað er fullveldi?“ í blaðinu á aðfangadag.
Margt er þar athyglisvert, en kjarni málsins frá sjónarhóli almennings held ég sé annar og hann komi fram í því, sem var ágreiningsatriði í sambandslögunum 1918. Með þeim var dönum tryggður réttur á Íslandi til að stunda og reka þar vinnu til jafns við íslendinga. Tveir þingmenn, Benedikt Sveinsson og Magnús Torfason, greiddu atkvæði gegn samningnum af þessari ástæðu, þótt sami réttur félli íslendingum í skaut í Danmörku. Þessi réttur féll niður, þegar Ísland varð lýðveldi.
Nú, 75 árum síðar og mánuði betur, er heldur betur snúið við blaðinu með gildistöku EES-samningsins. Þar er jafnréttisákvæði líkt og var 1918. Enginn vafi er á því, að almenningur hefði hafnað því, hefði hann mátt ráða, eins og þeir Benedikt og Magnús gerðu. Fólk metur einfaldlega meira þá hagsmuni, sem það nýtur nærri sér, en tækifæri til vinnings í fjarlægu umhverfi.
Þessi réttur, sem nú á að afnema, hvetur til ábyrgðar og framtaks, því að fólk fer nærri um hverjir muni njóta góðs af atvinnuuppbyggingu. Slíkum rétti til handa heimamönnum, hvar sem er í heiminum, mundi trúlega fylgja aukin atvinnu um allt og af því drægi úr aðsókn annars vinnuafls en þess, sem er velkomið. Þessi einfaldi skilningur væri hollur þeim ráðamönnum í Vestur-Evrópu, sem leitt hafa yfir þjóðirnar atvinnuleysi, sem er svo geigvænlegt, að viðeigandi er að kalla samninginn um evrópskt efnahagssamvinnusvæði samninginn um evrópskt atvinnuleysi.
Ófriðarefnin í heiminum eru mörg. Réttindaskerðingu fylgir aukin ólga og ófriður. Það fer því best á því, ef menn vilja vinna að friði meðal þjóða, að réttur manna til að ráða brýnustu hagsmunum sé virtur. Rétturinn til að ráða því, hvenær aðkomumenn megi ganga í vinnu, er mikilvægt framlag til friðar og atvinnuuppbyggingar.
Tímanum 4. janúar 1994