Við ættum að geta gert eins og norðmenn gerðu, nefnilega að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig má heyra, þegar rætt er um Evrópusambandsmálið. En hvað gerðu norðmenn?
    Norðmenn bjuggu sig undir Efnahagsbandalagsmálið á sjöunda áratug síðustu aldar með því að setja í stjórnarskrá ákvæði um framsal á valdi. Það var þannig, að framsal á valdi til bandalags ríkja, sem Noregur er aðili að, getur gerst með samþykki þriggja fjórðu þingmanna.

Aðild að Efnahagsbandalaginu var á dagskrá í Noregi fljótlega eftir þessa stjórnarskrárbreytingu. Mið-hægri stjórn Bortens vann að henni, en málinu var hleypt upp. Stjórn Verkamannaflokksins, undir forystu Brattelis, hélt málinu áfram. Fyrirsjáanlegur var meirihluti á þingi fyrir aðild, en ekki þrír fjórðu. Samtök fyrir aðild lögðu þá til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún var ekki bindandi, því að engin ákvæði voru um slíkt í stjórnarskránni. Ef einhverjir þingmenn, sem voru andvígir aðild, mundu greiða atkvæði með aðild með vísan til þess, að meirihluti þjóðarinnar hefði reynst vera fylgjandi aðild, hefði meirihlutinn á þingi getað farið í þrjá fjórðu. Andstæðingar aðildar lýstu sig samþykka þjóðaratkvæðagreiðslu, og þingið ákvað, að hún skyldi fara fram. Þá hófst heiftúðugt stríð meðal landsmanna. Fullur fjandskapur varð gjarna meðal vina og ættingja. Í Verkamannaflokknum var kröftugur minnihluti andvígur aðild. Bratteli lýsti því, að stjórn hans mundi segja af sér, ef þjóðin felldi aðild. Svo fór. Það var 1972, og Bratteli sagði af sér. Aðildarsamningurinn var ekki borinn undir þingið.

Tveimur árum síðar heyrði ég Einar Gerhardsen, fyrirrennara Brattelis, á málstofu um þjóðaratkvæðagreiðsluna í stjórnmálafræðideild Oslóarháskóla lýsa afsagnarhótun Brattelis sem býsnum. Ef enginn hefði komið fram í andstöðu við aðild í flokknum, sagði hann, hefði flokkurinn þurft að búa til slíka andstöðu í honum. 1994 var líka svo, að meirihluti var á þingi með aðild. Þjóðaratkvæðagreiðsla (ekki bindandi) fór fram, og aðild var hafnað. Samningur Noregs um aðild var ekki borinn undir þingið.

Síðar hefur það gerst fyrir þingkosningar, að andstæðingar aðildar hafa kannað skipulega meðal frambjóðenda, sem voru líklegir til að ná kjöri og höfðu lýst sig andstæða aðild, hvort þeir ætluðu að standa við það, enda þótt þjóðaratkvæðagreiðsla færi á annan veg. Þá hafa aðildarsinnar á þingi lagt til að breyta ákvæði stjórnarskrárinnar um aukinn meirihluta úr þremur fjórðu í tvo þriðju, en án árangurs.

Morgunblaðinu 14. maí 2013