Þegar 200 sjómílna fiskveiðilandhelgi varð alþjóðlegur réttur fyrir frumkvæði íslendinga, var hafnað ævafornri reglu Rómarréttar um, að fiskislóðir væru almenningur. Norski réttarsagnfræðingurinn Knut Robberstad telur, að samkvæmt fornum norskum rétti hafi jarðirnar átt fiskveiðiréttinn í sjónum úti fyrir, en í verstöðvum hafi útgerðarréttur verið takmarkaður við þau byggðarlög sem lágu að. Þetta hafi farið að breytast fyrir áhrif Rómarréttar um 1500 og loks farið svo á 19. öld, að svo til öll fiskislóð hafi orðið almenningur.
Íslendingar minnast þess, hvernig komið var á fyrri hluta þessarar aldar með stórvirkan erlendan fiskveiðiflota uppi við strendur og inni á flóum, síðast með sérstökum samningi dana og englendinga. Samkvæmt þessum skilningi Robberstads voru það þá ekki aðeins einstök ríki, sem íslendingar áttu í formlegum deilum við, sem töpuðu í landhelgismálinu, heldur vék þá forn Rómarréttur fyrir fornum rétti strandbúa.
Evrópubandalagið býr nú sjálft við 200 mílna fiskveiðilandhelgi, en vill hafa hana af íslendingum. Það krefst þess að mega nýta mikilvægustu auðlind Íslands án þess að bjóða aðgang að nokkurri auðlind sinni á móti. Það hefur í raun ekki sætt sig við þá réttarreglu, sem varð alþjóðleg við sigur íslendinga árið 1976.
Gunnar H. Kristinsson gerir grein fyrir afstöðu Evrópubandalagsins í nýju riti sínu, Evrópustefnuni, m.a. með eftirfarandi athugasemdum (bls. 30):
Evrópubandalagið skaðaðist mjög verulega af alþjóðlegri viðurkenningu 200 mílna fiskveiðilögsögunnar, þegar strandríki fengu yfirráðarétt yfir stærstum hluta fiskveiðiauðlinda. Sú endurskoðun hins upphaflega sjávarútvegspakka bandalagsins frá 1970, sem átti sér stað 1976-83, var nauðsynleg ekki síst vegna þess, að almenn viðurkenning 200 mílna fiskveiðilögsögunnar olli því, að bandalagsríkin höfðu miklu minni aðgang að fiskimiðum en áður og þess vegna allt of stóran flota. Við þær aðstæður var hætta á, að reglan um jafnan aðgang leiddi til gífurlegrar ofveiði, og hin nýja sjávarútvegsstefna gekk því út á að hindra, að slíkt gæti komið fyrir, með því að skipta þeim afla, sem til skiptanna var, milli aðildarríkja bandalagsins. Innganga Spánar og Portúgals í bandalagið — en Spánn á stærsta fiskveiðiflotann innan bandalagsins þrátt fyrir takmarkaðar auðlindir — var ekki látin breyta í meginatriðum því samkomulagi, sem náðist innan bandalagsins 1983 um skiptingu fiskistofna milli allt of stórs flota aðildarríkjanna. Hins vegar jók aðild Spánar mjög á þrýstinginn innan bandalagsins að afla fiskveiðiheimilda innan lögsögu annarra ríkja.
Þótt bandalagið vilji endurheimta fiskveiðiréttindi, sem ríki þess áttu við Ísland fyrir 1950, hafa fiskimenn þess sjálfs ekki rétt til veiða hvar sem er á fiskislóðum þess. Þar sem það er þvert gegn almennri stefnu bandalagsins um almennan rétt til atvinnurekstrar, hlýtur það að vera verkefni ráðamanna þess að fylgja því máli eftir, þegar færi gefst. Eins og alkunna er, eru nú mörg erfið mál til úrlausnar í bandalaginu, og er ekki nema von, að sum úrlausnarefni verði að bíða, svo sem það að gera fiskveiðislóðir bandalagsins að almenningi.
Hvenær skyldi geta orðið breyting þar á, svo að bandalagið geti fellt sjávarútveg sinn undir þá reglu, að réttur fyrirtækja til rekstrar sé hinn sami hvar sem þau kunna að vera skráð í bandalagin? Það er vitaskuld auðveldara að koma slíkri reglu á, ef svigrúm sjávarútvegsbandalagsins ykist. Þar sýnist geta orðið tækifæri við inngöngu Noregs og Íslands í bandalagið.
Vegna afstöðu Evrópubandalagsins til viðskipta við Ísland á sjávarútvegurinn tvo kosti, og er hvorugur góður. Annar er að láta af hendi fiskveiðiréttindi gegn lækkuðum tolli á unnum fiski. Hinn er að játast undir hinn nýja Rómarrétt (Rómarsáttmálann) með inngöngu í bandalagið og eiga það þá undir stofnunum þess, hvenær forn Rómarréttur um fiskislóðir sem almenningur verður að fullu endurreistur.
Í þessari stöðu virðist það vera í þágu hagsmuna Evrópubandalagsins að láta allt kyrrt um sinn, sem lýtur að því að opna fiskislóðir bandalagsins fyrir öllum fiskimönnum þess. Spánverjum og öðrum, sem eru aðþrengdir með fiskveiðiflota sinn, má þykja vinnandi að bíða og sjá hvað setur, ef ástæða er til að ætla að bilbugur sé á norðmönnum og íslendingum, á hvorn veginn sem færi, en það væri gegn grundvallarreglu hins nýja Rómarréttar að heimila nýju aðildarríki lengur en til aðlögunar að halda yfirráðum yfir auðlindum sjávarins.
Þessi mál yrðu enn auðveldari viðfangs fyrir bandalagið, ef Ísland gerðist aðili að því og íslenska ríkið hefði áður komið á sölu veiðileyfa. Með veiðileyfasölu ríkisins er réttur til fiskveiða við Ísland ekki veittur þeim, sem byggt hafa afkomu sína sérstaklega á þeim, heldur er hann orðinn tekjulind ríkisins af auðlind, sem hinn nýi Rómarréttur stefnir að, að verði almenningur, eins og var í hinum forna Rómarrétti. Það er ólíklegt, að slík tekjuöflun eins ríkis af auðlind, sem bandalagið hefur þegar tekið sér ráðstöfunarrétt yfir og stefnt er að, að verði almenningur, geti samrýmst þeim rétti. Ætli þætti ekki sjálfsagt í Brussel, að Evrópubandalagið sjálft tæki til sín tekjurnar?
Morgunblaðinu 13. september 1990