Í Útvarpinu í morgun (20. þ. m.) spurði Óðinn Jónsson fréttamaður, hvort Ísland væri í Evrópu. Nefndi hann nýlegt dæmi úr dagblaðinu Independent í Lundúnum, þar sem fjallað var um evrópsk málefni, en Ísland ekki nefnt, það var ekki einu sinni með á uppdrætti blaðsins af Evrópu. Hélt ÓJ því fram, að tilhneiging væri til þess upp á síðkastið að geta Íslands að engu, þegar fjallað væri um evrópsk málefni.

Ég er viss um, að það eitt gæti vakið verulegan áhuga evrópskra blaða á Íslandi, að íslendingar leyfðu skipum Evrópuríkja að veiða á fiskislóðum við landið, eins og erlendum skipum var leyft fram til 1972. 12 mílna landhelgi, sem þá gilti, er nú innbyrðis fiskveiðilandhelgi ríkja evrópsku samfélaganna. 3.000 lesta afli af karfa er ekki nema brotabrot úr prómilli af öllum sjávarafla þessara ríkja. Það er alltof lítið til að vekja áhuga blaða þessara ríkja á landinu, þótt þau geri það að vísu að skilyrði fyrir aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Mér þykir ekki trúlegt, að það sé ný bóla, að Íslands sé að litlu getið í enskum blaðaskrifum. Ég þekki vel til umræðu á norðurlöndum. Þótt Ísland sé fullgildur aðili að málum norðurlanda, er alvanalegt í tali manna þar ytra um þau efni, að nefna Ísland ekki. Þegar sagt er frá einhverju í norskum blöðum, sem Noregur er framarlega í, er gjarna þagað um stöðu Íslands, sem iðulega er ofar en Noregur. Norðmenn hafa látið sig Ísland litlu varða, síðan Ísland færðist úr höndum þeirra í hendur dana fyrir sex öldum. Líkt er það í sænskum dagblöðum, þegar sagt er frá samanburði landa, þar sem Svíþjóð er ofarlega á blaði, að gjarna fellur niður að geta um Noreg, þótt kunnugir viti, að Noregur sé ofar á blaði, eins og oft er. Svíar hafa löngum horft til meginlandsins, enda eiga þeir um margt samleið með þjóðverjum.

Samstarfsráðherrar norðurlanda gera það að tillögu sinni fyrir næsta þing Norðurlandaráðs, að ríkin afnemi í reynd landamæri sín á milli varðandi atvinnurekstur. Það væri eðlilegt og rökrétt í framhaldi af afnámi landamæra að afnema landhelgi. Ég er sannfærður um, að þá fyrst færu norðmenn að muna eftir Íslandi, ef þeir fengju aðgang að fiskislóðum við Ísland, eins og þeir höfðu fyrri hluta aldarinnar. Þá höfðu danir rétt til útgerðar hér við land og athafna á landi. Það kunnu færeyingar að hagnýta sér sem þegnar Danmerkur, en ekki danir sjálfir. Nú er sjávarútvegur dana miklu betur búinn til þess að hagnýta sér íslenskar fiskislóðir.

Morgunblaðinu 22. febrúar 1992 (Bréf til blaðsins)