Í fyrstu grein minni leiddi ég rök að því, að fyrirvarar íslendinga um einkarétt til að veiða fisk við Ísland væru gegn eðli EES-samningsins. Grundvöllur hans er jafn réttur til atvinnurekstrar hvar sem fyrirtæki er skráð á svæðinu og hverjir sem það eiga. Ég benti á, að þeir sem hefðu flutt mál Íslands í þessum samningum væru í hugsjónarbandalagi við upphafsmenn EES-málsins (í samtökum evrópskra jafnaðarmannaflokka), ættu sér því sömu langæju markmiðin, og þeim væri því eðlilegt að skilja málið eins hvoru megin sem þeir sætu við samningaborðið. Þeir mundu bregðast hugsjón sinni að ætla íslendingum þau sérréttindi að halda þorra fyrirtækja svæðisins frá þeirri starfsemi sem umfram allt annað gerir Ísland áhugavert, en það er sjávarútvegur og orkuframleiðsla. Einnig benti ég á, að náið samstarf íslenskra embættismanna við embættismenn svæðisins leiddi til þess, að þeir samræmdu hugmyndir sínar um það sem væri sameiginlegt keppikefli landanna, og það væri vissulega ekki það að ríki sem 0,1% íbúa svæðisins byggðu fengi eitt að halda 99,9% íbúanna frá þeim atvinnurekstri sem vissulega væri á meðfæri fjölda annarra, ekki síst útgerðarfyrirtækja í nálægum löndum (Noregi og Danmörku).
Lýsing Þrastar Ólafssonar í áðurnefndum greinaflokki á ástandi mála á Íslandi er ekki í samræmi við alþjóðlegar hagskýrslur. ÞÓ hefur um það mörg orð í greinaflokki sínum, að íslendingum sé mikil nauðsyn að rjúfa einangrun þjóðarinnar meðal annars með markaðsaðgangi í Evrópu. Í hagskýrslum kemur fram, að varla nokkurt ríki hefur meiri utanríkisviðskipti en Ísland og að þunginn af þeim viðskiptum er við Evrópuríki, tollfrjálst. Hvernig getur aðstoðarmaður utanríkisráðherra lýst slíku ríki sem einangruðu? Svo líkir hann hagkerfi Íslands við tilskipanahagkerfi Ráðstjórnarríkjanna. Hagskýrslur sýna hins vegar, að hlutur hins opinbera er síst meiri hér en gerist í nálægum löndum.
Íslendingar fengu tollfrjálsan markaðsaðgang að Evrópu fyrir svo til allar afurðir sínar með samningum fyrir 15-20 árum. ÞÓ talar um það sem mikið nauðsynjamál að tryggja „markaðsaðgang“ íslendinga í Evrópu. Er það ekki skortur á viðfangsefnum hjá utanríkisráðherra og aðstoðarmanni hans að leggja sig fram við mál sem komust í góða höfn fyrir löngu og ekki stendur til að hrófla við á neinn hátt?
Þetta er ekki óskylt tali utanríkisráðherra síðastliðið sumar um að aðild Íslands að EES mundi veita íslendingum tollfrjálsan markað fyrir fullunnar sjávarafurðir. Þetta taka ýmsir síðan upp eftir honum gagnrýnislaust, þótt Ísland hafi á annan áratug mátt selja tollfrjálst fullunninn fisk til ríkja þeirra sem standa að EES.
Í EES-samningnum eru ákvæði sem takmarka rétt til aðgerða í byggðamálum. Ef íslendingar tilheyrðu svæðinu, þyrftu þeir að rökstyðja aðgerðir stjórnvalda. Það reyndi á, hvernig fulltrúar Íslands skildu þær sjálfir og túlkuðu. Athugum hvernig fulltrúi utanríkisráðherra, ÞÓ, skilur byggðastefnu landsmanna. Í Morgunblaðinu 31. janúar 1991 birtist eftir hann greinin „Byggðastefna“. Ég sendi blaðinu athugasemdir mínar við greinina undir yfirskriftinni „Aflvaki byggðastefnu“ rúmlega viku síðar. Greinin hefur ekki birst þar. Hún varðar efni EES-samningsins sem ekki hefur verið mikill gaumur gefinn og birtist hún því hér:
Aflvaki byggðastefnu
Hvað er það sem knýr Alþingi til aðgerða? Eru það stefnuyfirlýsingar stjórnmálaflokkanna? Stjórnast þær af hugmyndaheimi leiðtoga þeirra? Er þar helst á bak við almenningsálit, ef til vill lítt skilgreint?
Ég held, að þetta fari eftir eðli málsins. Ég hygg, að hugmyndaheimur leiðtoganna ráði mestu um mál, þar sem tekið er af skarið í eitt skipti fyrir öll, svo sem um samskipti Íslands við önnur ríki. Öðru máli gegnir um mál, sem ráðast aldrei endanlega, heldur mótast hægt og sígandi af ótalaðgerðum. Þannig sýnist mér að hafi orðið til það sem kallað er byggðastefna. Menn veifa ýmsum hugsjónum í því sambandi. Þröstur Ólafsson („Byggðastefna“, Mbl. 31. janúar) eignar hana hugsjón ungmennafélaganna frá fyrri hluta þessarar aldar, og hafi þrír af fjórum gömlu stjórnmálaflokkunum framfylgt henni til mikilla vandræða fyrir þjóðina, en Alþýðuflokkurinn einn staðið gegn. Þó hafi Jón Baldvinsson formaður þess flokks stutt eflingu landbúnaðarins.
Lítum á dæmisögu úr félagslegri mannfræði úr framandi landi. Mikilsvirtur embættismaður í Óskalandi hélt iðulega fram gildi menningar ósklendinga í ræðu og riti. Sonur hans menntaðist erlendis og þótti efnilegur. Svo fór, að hann kaus að starfa á Óskalandi og gerði það opinbert. Það embætti sem hann sóttist eftir var þó ætlað öðrum. Þá var brugðið á það ráð að búa til handa honum annað embætti sams konar. Mátti um það segja líkt og sagði af búsæld í fornum sögum, að þar uxu tvö höfuð þar sem eitt var fyrir.
Hvernig eigum við að skilja slík viðbrögð í framandi landi? Var það þjóðrækni þessa mikilsvirta ósklendings, sem hann hafði haldið fram við ýmis tækifæri, sem réð því, að hann beitti áhrifum sínum til að tryggja syni sínum stöðu, eða hefði áhrifamaður á öðrum tímum, sem ekki þekkti þjóðræknishugmyndir, farið eins að? Ætli það sé ekki sammannlegt og hafið yfir allar hugsjónir, eins og þær birtast í ræðum forystumanna, að óska þess að synir og dætur taki upp merkið og búi sér framtíð á sama vettvangi, í Óskalandi og á Íslandi á ýmsum tímum?
Ég held því, að það sé ruglandi af ÞÓ að draga hugsjón ungmennafélaganna fram til skýringar á þeirri viðleitni að tryggja það að maður megi koma í manns stað. Þar hafa embættismenn sitt svið og sumir svo heppnir að geta bætt við það, en almenningur á mörg svið og dreifð um landið og sum smá.
Það hefur verið nokkur samstaða á alþingi, óháð flokkum, að sem flestir mættu njóta grundvallarsamfélagsgæða. Það hefur líka verið nokkur samstaða um að beita samfélagslegum aðgerðum til að áföll í atvinnurekstri sem ekki verða talin sjálfskaparvíti leiki fólk ekki illa. Það hefur verið nokkur ágreiningur um aðgerðir og þá helst um það hvað ætla megi landbúnaði og sveitunum þar mikinn hlut. Ágreiningurinn hefur samt verið smávægilegur miðað við það, að í áratugi hefur sá skilningur verið almennur, að hlutur landbúnaðarins hljóti að rýrna. Samstaðan hefur verið svo mikil, að þar hefur ekki verið spurning um knappan meirihluta á alþingi, sem háður væri kjördæmaskipan, eins og ÞÓ heldur fram í grein sinni. Í því tilliti virðist hann aðeins skipta máli um tækifæri til ríkisstjórnarmyndunar. Það er ekki hugsanlegt, að ríkisstjórn, studd af þingmönnum höfuðborgarsvæðisins einum, treysti sér til að rjúfa þá samstöðu.
Mér sýnist aflvaki þeirra aðgerða sem eignaðar eru byggðastefnu vera samtrygging almennings í landinu, þar sem stjórnmálaflokkunum er beitt. Það er misjafnt hvað í húfi er á hverjum tíma, en ég hygg að fyrir fólki hafi vakað þetta: Nú er það þeirra mál, þeirra vandræði, næst kann að koma að okkur. Þetta er jafnaðar- og almannatryggingaviðhorf almennings, sem hlýtur að móta stjórnmál lýðræðisþjóðfélags. Úrræðin hafa vitaskuld iðulega verið misheppnuð. Stundum á þá við sú afsökun að forsendur hafi breyst. En að breyttu breytanda stendur eftir sama˝ viðhorf og réð aðgerðum þeirra feðga í Óskalandi, þótt almenningur hafi ekki aðstöðu til að láta óskir sínar rætast eins vel.
Sumir sjá fyrir sér miklar andstæður í þessu máli, eins og Þröstur gerir, þegar hann talar um landsbyggðina gegn höfuðborgarsvæðinu. Afstaða Jóns Baldvinssonar var í samræmi við viðhorf alþýðu manna í Reykjavík, sem óttaðist að aðstreymi til borgarinnar yki atvinnuleysi þar. Þá naut flokkur hans miklu meira fylgis í Reykjavík en nú. Nú beita engin skipuleg samtök reykvíkinga sér gegn aðstreymi til Reykjavíkur. Engu að síður falla margar athugasemdir meðal almennings í Reykjavík um það óhagræði sem reykvíkingar verði fyrir af mannfjölgun á höfuðborgarsvæðinu, en af öðrum ástæðum en á dögum Jóns. Það kom m. a. fram í skoðanakönnun, þar sem býsna margir kusu nýju álveri stað fjarri Reykjavík. Þó er þar um að ræða framkvæmd sem mundi ekki bæta nema örfáum prósentum við mannfjölda svæðisins. Það er ekki líklegt, að menn mundu í nokkru öðru héraði snúast gegn atvinnurekstri sem raskaði þar jafnlitlu hlutfallslega. Þarna er annar aflvaki byggðastefnu sem tengir landsbyggð og höfuðborgarsvæði saman. Loks hygg ég að það sé sammannlegt að finna til með mannlegu félagi, hverjir sem í hlut eiga, og fagna vexti og viðgangi, en hryggjast yfir hrörnun þess, þótt ekki séu hagsmunir í húfi.
Menn geta býsnast yfir því böli sem þjóðin hljóti af byggðastefnu og reiknað tortímingu yfir þjóðina hennar vegna. Þá er annaðhvort að snúast gegn helsta aflvaka hennar, jafnaðar- og tryggingaviðhorfi almennings, eða leita úrræða sem sameina jafnaðar- og tryggingaviðhorf almennings almennu gangverki hagkerfisins. Það leiðir til Sturlungaaldarástands að kenna okkur reykvíkingum að líta á utanbæjarfólk og hagsmuni þess sem þjóðarböl. Ýmislegt sem gert hefur verið í nafni byggðastefnu hefur verið til tjóns. Þó yrði það tjón, sem þjóðin hlyti af því viðhorfi, að hún sé sundruð í tvær fylkingar, margfalt meira og óbætanlegt.
*
Með aðild að EES gæti það orðið hlutverk ÞÓ eða skoðanabróður hans að fara til höfuðstöðva EES til að rökstyðja aðgerðir í byggðamálum hér á landi. Þar hljóta að verða tiltækar skýrslur sem sýna, að það eru öfugmæli að telja Ísland einangrað, land sem hefur hlutfallslega meiri utanríkisviðskipti en flest ríki heims. Þar láta menn ekki heldur segja sér að Ísland skeri sig úr öðrum ríkjum svæðisins með lítinn hlut markaðsbúskapar, um það bera vott margvíslegar skýrslur. Hins vegar yrði verra fyrir menn þar að meta þá skýringu á aðgerðum íslendinga í byggðamálum að þær séu hugarfóstur félagsskapar sem varð til fyrir 90 árum. Menn kynnu að spyrja nánar um þann félagsskap og þá kæmi í ljós, að hann starfar nú orðið mest að íþróttum og afþreyingu ungmenna. Ég hygg, að það þyrfti talsvert annan málflutning þar ytra til að fá aðgerðir íslendinga í byggðamálum samþykktar. Eitt meginskilyrði er þar, að ástand mála í viðkomandi byggðarlagi sé talsvert miklu lakara en hér hefur verið nokkurs staðar undanfarna áratugi. Sumum líkar það vel, en öðrum miður.
Tímanum 17. mars 1992