Almennast er í umræðu að líta á EES-samninginn með samanburði við aðild Íslands að Fríverslunarbandalagi Evrópu og fríverslunarsamning Íslands við Evrópsku samfélögin. Þegar umræðan er á því stigi, má benda á, að nú þegar selja íslendingar hraðfrystar afurðir tollfrjálst til allra EES-ríkja, og ekki er heldur lagður tollur á fullunnar sjávarafurðir. Tollur er hins vegar á nokkrum lítt unnum sjávarafurðum.

Varðandi tækifæri íslendinga til að reka fyrirtæki í ES-ríkjum getur óbreyttur útvarpshlustandi komist að því, að íslendingar athafna sig nú þegar án EES-samnings með ýmis fyrirtæki í Bretlandi. Þar er því engin fyrirstaða. Í umræðu á þessu stigi á við að spyrja, hvernig raunverulegar landhelgisvarnir íslendinga fái til lengdar staðist í félagsskap þar sem aðalreglan er, að fyrirtæki fái að starfa, hvar sem er og við hvað sem er, óháð því hverjir eiga það.

Aðrir leggja málið fram, eins og þeir séu að boða siðaskipti. Fremstir þar eru utanríkisráðherra og Þröstur Ólafsson (ÞÓ), sem hann hefur ráðið sér til aðstoðar. Röksemdafærsla þeirra er eins og röksemdafærsla trúboða, eins og vel kom fram í greinaflokki ÞÓ. Hvernig er röksemdafærsla trúboða? Hann telur sig koma fram fyrir hönd þeirra afla, sem hljóta að sigra heiminn. Hann leggur áherslu á, að menn þori að kasta sér á djúp trúarinnar. Hann lofar fólki nánu samfélagi í stað einsemdar og einangrunar. Þessi þrjú atriði eru kjarninn í þremur greinum ÞÓ.

Trúboðar láta hugtök fá nýtt gildi. Það, sem kallað hefur verið forræði eigin mála, kallar ÞÓ einangrun. Til þess að fá trúboða niður á jörðina verður að taka til raunhæf dæmi. Ég dreg fram tvö mál, þar sem íslensk lög veita viðkomandi forræði til að velja sér æskilega þátttakendur, en hafna öðrum. Þar kemur fram, að slíkt forræði er ekki einangrunarstefna. Eins og í síðustu grein er ég svo heppinn að eiga í fórum mínum grein til skýringar, sem ekki fékk rúm á síðum Morgunblaðsins. Hún hefur haldið gildi sínu, þótt ég hafi sent blaðinu hana fyrir jól 1990. Á eftir henni ber ég saman stjórnlag íslendinga við stjórnlag Evrópsku samfélaganna, að því er varðar réttindi manna til starfa og atvinnurekstrar.

 

Breytingar á lögum um hlutafélög

Í lögum um hlutafélög eru ákvæði, nýstaðfest af Alþingi, sem setja hömlur á ráðstöfunarrétt manna yfir eignum sínum. Í 19. grein er leyft að ákveða í samþykktum „að við eigendaskipti að hlutabréfi, önnur en við erfð eða búskipti, skuli hluthafar eða aðrir hafa forkaupsrétt.“ Í 20. grein er leyft að ákveða „í samþykktum að veðsetning, sala eða annað framsal á hlutum megi einungis fara fram með samþykki félagsins,“ en þó má ekki skv. 18. grein „leggja hömlur á viðskipti með almenn hlutabréf milli íslenskra aðila í hlutafélögum þar sem hluthafar eru 200 eða fleiri.“

 

Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar

Séreignarfyrirkomulagið er einn af hornsteinum íslenskrar stjórnskipunar, og án þess fengi frjálst markaðshagkerfi ekki þrifist. Eignarrétturinn er varinn í 67. grein stjórnarskrárinnar, en þar segir orðrétt: „Eignarrétturinner friðhelgur. Engan má skylda til þess að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji; þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“ Þetta stjórnarskrárákvæði verndar þá meginreglu, að mönnum sé frjálst að ráðstafa eignum sínum með þeim hætti, sem þeir telja heppilegast, enda fari það ekki í bága við „almenningsþörf“ eða lögvarin réttindi manna.

Í lögfræði hefur eignarrétturinn verið skilgreindur sem einkaréttur ákveðins aðila yfir tilteknum líkamlegum hlut innan þeirra marka, sem þessum rétti eru sett í lögum. Einstaklingar geta öðlast réttindi yfir eignum eða eignast hluti með ákveðnum hætti svo sem með kaupum eða við erfðir. Það er frumforsenda séreignarskipulagsins, að eignir geti gengið kaupum og sölum. Að öðrum kosti er séreignarskipulagið ekki sá aflvaki viðskipta, sem til er ætlast. Ef einstaklingar geta ekki hindrunarlaust selt eignir sínar verða eignirnar fljótt byrði eða kvöð á viðkomandi og raunhæft verðmat á eignum er úr sögunni.

 

Stjórnum hlutafélaga falið víðtækt vald

Hvers vegna lét Alþingi slík lög frá sér fara? Er ekki sú hindrun, sem er í þeim, óeðlileg? Er ekki stjórnum minni hlutafélaga falið of víðtækt vald til þess að hindra, að einstaklingar geti selt eignarréttindi? Ekki er sett neitt skilyrði um, með hvaða rökum stjórn hlutafélags getur bannað eiganda að selja hlut sinn. Kallar þetta fyrirkomulag ekki á spillingu, þar sem einstaklingunum, sem sitja í stjórnunum, er gert mögulegt að stjórna því hverjir kaupa hlutina og hverjir ekki? Geta ekki hlutafélagsstjórnarmenn eða lagsmenn þeirra sölsað undir sig heilu hlutafélögin?

 

Um jarðalög

Það, sem hér segir um ákvæði laga um hlutafélög, eru raunar rök Gunnars J. Birgissonar lögmanns um jarðalög í greininni „Nauðsynlegar breytingar á jarðalögum“ í blaðinu 11. desember, þar sem hann mælir með frumvarpi Friðriks Sophussonar og Geirs H. Haarde. (Sumu hef ég þó breytt í spurnarform). Þeir leggja þar til að fella brott ákvæði þess efnis, að ekki megi selja jarðir utan þéttbýlis nema með samþykki sveitarstjórnar og jarðanefndar, og að fella niður forkaupsrétt sveitarfélaga við sölu jarða.

Það kemur sem sagt í ljós, að sams konar hömlur eru á sölu hlutabréfa. Hvaða ástæður eru til að hafa slíkar hömlur á sölu hlutabréfa? Með þeim er komið í veg fyrir, að sá komist til áhrifa í félaginu, sem menn geta óttast, að spilli félagsanda. Þannig má halda sundurvirkum aðilum frá, sem hafa önnur markmið en stjórnin ætlar félaginu. Sá, sem ekki fær að selja slíkum aðila hlut sinn, á rétt á fullum bótum, og eins er með forkaupsrétt félagsins, að þar fær seljandi að fullu það, sem honum hafði verið boðið, þótt úr annarri hendi sé.

Ákvæði jarðalaga um sölu jarða hafa sömu eigindi. Sveitarstjórn getur með því varast þá, sem gætu spillt sveitaranda. Það voru tækifæri búlausra til að eignast jarðir til orlofsdvalar, sem var mál GJB. Vonandi telja flestir orlofsgestir það nokkurs um vert, að vel fari á með þeim og sveitarmönnum. Þegar sveitarfélag neytir ekki forkaupsréttar á jörð, hefur það á vissan hátt boðið nýju eigendurna velkomna. Forkaupsrétturinn hreinsar því andrúmsloftið.

Það er að skjóta yfir markið að tala hér um frelsisskerðingu, hvort heldur það eru hlutafélagalög eða jarðalög, og eitthvað mætti finna sér fyrr til málflutnings en að halda því fram, að hömlur hlutafélagalaganna brjóti gegn ákvæði í stjórnarskránni.

Frelsis njóta menn best í samhentum félagsskap. Reglur tryggja oft frelsistilfinningu. Þetta þekkjum við, sem starfað höfum í sveit skáta. Þar er ekki allt leyft, heldur ýmsar reglur, og finnst skátum þeir eigi að síður vera frjálsir í góðum skátaanda. Eins er það í sveitum landsins, að mönnum finnst þeir frjálsari, ef þar tekst að halda góðum félagsanda með því m.a. að fá tækifæri til að meta nýja félaga og bægja þeim frá, sem þykja varasamir. Menn eru frjálsir að mynda með sér hlutafélög, en það frelsi væri minna virði, ef menn réðu ekki, hverjir skipast í félagsskap með þeim. Í fjölmenni skiptir minna máli, hver kemur í stað hvers, enda gilda ofangreindar hömlur hvorki um fasteignakaup í fjölmenni bæjanna né um hlutafélagakaup í fjölmennum hlutafélögum.

*

Þetta kann ýmsum að þykja sjálfsagt. Samt þarf að hafa um það orð, þegar komnir eru til áhrifa og valda siðskiptafrömuðir, sem breyta merkingu orða í boðun sinni. Það er ekki löngun til einangrunar, sem vakir fyrir mönnum að setja framangreind ákvæði í hlutafélagalög og jarðalög. Það eyðir tortryggni gagnvart nýliðum, ef þeir, sem fyrir eru, fá að meta það, hvort þess sé að vænta, að þeir bæti félagsskapinn, en spilli honum ekki. Það er margt í löggjöf landsins um rétt útlendinga til starfa og búsetu, sem veitir stjórnvöldum rétt til að velja og hafna. Með því má koma í veg fyrir margt ófriðarefni og árekstra við hagsmuni þeirra, sem fyrir eru. Það er ekki einangrunartilhneiging, sem ræður þar, heldur skilningur á því, að farsælast er að geta ráðið ferðinni, en láta ekki ganga yfir fólk röskun á högum þess, án þess að það fái neinu ráðið. EES-samningurinn skerðir þennan rétt stjórnvalda á ýmsan hátt. Það má oft læra af öðrum þjóðum. Mér þykir trúlegt, að Evrópsku samfélögin gætu lært ýmislegt í þessu efni af íslendingum. Framtíð þeirra yrði vafalaust farsælli, ef sveitarstjórnir þar, héraðsstjórnir og landstjórnir fengju rétt til að velja sér nýja liðsmenn (atvinnurekendur og starfsmenn) og hafna öðrum samkvæmt ástæðum á hverjum stað og hverjum tíma. Það kynni að koma í veg fyrir margt ófriðarefni meðal almennings að hafa slíka reglu að íslenskum hætti.

Tímanum 24. marz 1992