Á fundi þings Norðurlandaráðs í Helsingfors um daginn lýsti Kohl, leiðtogi voldugasta ríkis Evrópsku samfélaganna (ES), því markmiði sínu að eyða landamærum í Evrópu. Landamæri eyríkis eru í hafinu. Það getur gætt þeirra með hervaldi, með því að leita viðurkenningar þeirra ríkja, sem það láta sig varða, eða með því að njóta alþjóðaréttar. Það hlýtur að vera skilyrði fyrir gagnkvæmu trausti milli ríkja, að þau viðurkenni landamæri sín á milli.

Íslendingar hafa stefnt að því að verða fullvalda til að nýta hafið við landið. Þeir hófu sókn í því máli árið 1948 með skírskotun til vísindalegrar nýtingar landgrunnsins. Þeir færðu fiskveiðilandhelgi sína út í áföngum í trássi við þá sem héldu því fram, að það væri gegn alþjóðarétti.

Síðan unnu þeir að því að gera 200 sjómílna fiskveiðilandhelgi að alþjóðarétti. Á fundi 30. apríl 1982 samþykkti Hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna (SÞ) með 130 atkvæðum gegn 4 hafréttarsáttmála með slíku ákvæði og fleiri ákvæðum sem lúta að rétti strandríkja til að nýta landgrunnið. Bandaríki Norður-Ameríku greiddu atkvæði gegn honum. 6 ES-ríki sátu hjá: Belgía, Þýskaland (raunar bæði ríkin), Ítalía, Lúxemborg, Niðurlönd (Holland) og Sameinað konungdæmi Stóra-Bretlands og Norður-Írlands. Fulltrúar 145 ríkja staðfestu samþykktina með undirritun. Nú, 10 árum síðar, hefur hann samt ekki fengið gildi. Hverjir tefja fyrir því?

Athugum fyrst hvaða vinnubrögð menn hugsa sér við að láta EES-samninginn fá gildi. Fyrst eiga fulltrúar ríkjanna að undirrita hann, en síðan þarf hann að fá staðfestingu þinga allra ríkjanna auk ES-þingsins til þess að hljóta gildi. Gert er ráð fyrir, að því megi ljúka á hálfu ári. Þetta er athyglisvert með hliðsjón af því að samningurinn um nýtingu hafssvæða í heiminum, sem íslendinga varðar meira en annað í alþjóðasamningum, hefur ekki hlotið gildi 10 árum eftir að hann var samþykktur við atkvæðagreiðslu.

Hvaða ríki hafa staðfest hafréttarsáttmála SÞ, svo að hann megi gilda og hverjir láta bíða eftir sér? Lítum á ES-ríkin og ríki nærri þeim í stafrófsröð. Belgía hefur ekki staðfest hann, en hins vegar Belise. Danmörk hefur ekki staðfest hann, en hins vegar Djibouti. Ekki heldur Frakkland, en hins vegar Fiji. Ekki Grikkland, en Grenada. Ekki Írland né Ítalía, en Írak. Ekki Lúxemborg, en Malí. Ekki Niðurlönd, en Namibía. Ekki Portúgal, en Paragvæ. Ekki Sameinaða konungdæmið (England), en Sómalía. Ekki Spánn, en Súdan. Og vitaskuld ekki sameinað Þýskaland undir forystu þess manns, sem vill afnema landamæri Evrópu, og þá ekki heldur ES sem slíkt.

Eins er því farið með hin EES-ríkin. Austurríki hefur ekki staðfest sáttmálann, en hins vegar Antigúa og Barbúda. Ekki Finnland, en Gambía. Ekki Noregur, en Nígería. Og ekki Svíþjóð undir stjórn sem vill afnema landamæri á Norðurlöndum að því er varðar rétt til atvinnurekstrar, en hins vegar Senegal.

Enn er þess að geta, að sáttmálinn hefur ekki hlotið viðurkenningu BNA, Kanada né Tyrklands. Þannig hefur ekkert þeirra ríkja, sem Ísland er í viðskipta- eða varnarbandalagi með, staðfest sáttmálann, sem sagt ekkert þeirra ríkja sem utanríkisráðherra á iðulega skylt erindi við, en ekki heldur neitt þeirra ríkja sem hafa fast sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna né heldur nokkurt fjölmennustu ríkja heimsins. Nú í byrjun mars 1992 hefur hann verið staðfestur af 51 ríki, en það er þriðjungur þeirra sem hlut áttu að máli. Til þess að hann hljóti gildi sem alþjóðalög þarf staðfestingu 60 ríkja. Á síðastliðnu ári var sáttmálinn staðfestur af Djibouti, Dominica, Grenada, Marshalleyjum, Míkrónesíu og Seychelles. Síðasta staðfestingin (Dominica) var 24. október. Er hugsanlegt, að þau ríki sem ætli sér yfirleitt að staðfesta hann hafi nú þegar gert það? Hversu merkilegt plagg þætti hann, ef 9 ríki til viðbótar af því tagi sem bættust við árið 1991 staðfestu hann, svo að talan næðist? Alþjóðaréttur er mér framandi heimur, en ég spyr: Eru öflugu og gamalgrónu ríkin að grafa undan fyrri samþykkt með því að staðfesta samninginn ekki?

Talsmaður utanríkisráðherra, Þröstur Ólafsson, fjallaði í löngu máli í Tímanum (21., 25. og 27. f. m.) um fullveldi landsins í framandi heimi án þess að minnast einu orði á það, hvernig EES-ríkin hafa látið undir höfuð leggjast að sýna í verki stuðning við baráttu íslendinga síðustu áratugina til að fá viðurkennt sem alþjóðarétt fullveldi sitt yfir auðlindum hafsins við landið. Mér, eins og trúlega flestum, var þá ókunnugt um þessa vanrækslu þeirra. Almenningur mætti fá að vita, hvort gengið hafi verið eftir því við EES-ríkin hvert fyrir sig eða sameiginlega, að þau sýndu íslendingum í verki stuðning með því að staðfesta 10 ára gamalt jáyrði við hafréttarsáttmálanum. Spyrja má hvaða ástæður þau þættust hafa til að sýna slíkt seinlæti og hvort íslenskum stjórnvöldum þætti viðurkenningin yfirleitt mikilvæg. Þá mætti líka ræða, hvað slík vanræksla á viðurkenningu varði þá samninga, sem gerðir hafa verið um EES, en þar eru sérákvæði um sjávarútvegsmál íslendinga.

Vísi 25. mars 1992