Utanríkisráðherra segir það ekki á dagskrá að sækja um aðild Íslands að Evrópsku samfélögunum (ES), en vill láta rannsaka áhrif aðildar. Er nokkuð á móti því að rannsaka áhrif aðildar fyrirfram?
Rannsóknir um nútíð og fortíð eru ekki alltaf merkilegar, eins og dæmin sanna. Rannsóknastofnun ein komst að því fyrir annan ráðherra, að sjúklingar landsins væru þjóðinni býsna dýrir og því ylli m. a., að fólk lægi úr hófi lengi á sjúkrahúsum hér og miklu lengur en á Norðurlöndum. Tveir velmetnir læknar hafa nú sýnt fram á, að þetta er rangt. Hér sé sjúkrahúslega ekki lengri.
Hvers er að vænta af rannsókn um framtíðina, þegar svona tekst til um nútíðina, þar sem gögn eru tiltæk? Víst er, að fyrir 5-10 árum sáu sérfræðingar ekki fyrir þær sviptingar sem verið hafa í Evrópu austanverðri undanfarið, hversu mikið sem þeir rannsökuðu.
Tvö rit hafa komið út, þar sem gerð er grein fyrir sjávarútvegsstefnu ES, annað gefið út af öryggismálanefnd Alþingis og hitt af Alþjóðamálastofnun Háskólans. Þar er margt fróðlegt að lesa um það sem er og hefur verið. Höfundar, sem eru orðnir fróðir um nútíðina, vilja sem von er gera sér einhverja grein fyrir framtíðinni. Mér sýnist, að lengst verði komist með því að líta á grundvallaratriði og láta ekki nákvæmnisatriði um framkvæmd á líðandi stund skyggja á þau.
Það er grundvallarregla í ES, að þegnar og fyrirtæki, hvar sem þau eru skráð, hafi rétt til atvinnurekstrar hvar sem er. Önnur regla er hvergi skráð, en er afleiðing af stjórnmálastarfi í lýðræðisríkjum. Hún er viðleitni til að jafna kjör þegnanna. Með því að láta fyrri regluna gilda ætla menn að fá sem mest til skiptanna í ES sem heild, þegar kemur að því að jafna kjörin.
Hvar kemur íslenskur sjávarútvegur inn í dæmið, ef því ætti að ráða í Brüssel, hverjir mættu stunda sjó hér við land og verka fisk? Mundu 0,1%ES-íbúanna fá til langframa að halda 99,9% íbúanna frá slíkum rekstri, ef mikill hluti íbúa í sjávarbyggðum ES byggi við sömu kjör eða lakari en þetta prómill íbúanna? Því yrði ekki haldið fram, að það væri til að jafna kjörin að halda erlendum fyrirtækjum frá veiðum hér við land, heldur væru þvert á móti rök til þess að knýja fram með einhverjum ráðum almennan rétt fyrirtækja í ES-ríkjum til að stunda hér sjó.
Með þessar tvær meginreglur í huga -önnur er skráð í Rómarsáttmála, en hin staðfest af almennri reynslu - er ekki líklegt, að íslendingar fengju að ráða því til lengdar hverjir hér stunduðu sjó, og enn síður fyrir það, að vitað er um áhrifamikla menn í íslenskum sjávarútvegi og stjórnmálum, sem ekki eru andvígir því, að erlend útgerðarfyrirtæki fái að athafna sig hér.
Ef settir yrðu sérfræðingar til að rannsaka áhrif ES-aðildar, yrðu menn á kafi við að rannsaka margt, sem í sjálfu sér kann að vera athyglisvert. Slíkt starf skyggir auðveldlega á kjarna málsins, sem er forræðið yfir og arðurinn af gjöfulum auðlindum, sem eru þó ekki svo ríkulegar, ef íslendingar eiga að halda hlut sínum til jafns við nálægar þjóðir, að þær beri líka útlendinga, sem búa við rýrari fiskislóðir.
Fiskislóðir við Ísland hafa til skamms tíma verið veiðilendur ýmissa þessara ríkja. Hygginn veiðimaður, sem hefur misst bráð, en sættir sig ekki við það, fer hægt að henni og styggir hana ekki, heldur bíður færis, þegar hún á enga undankomu. Meðan hugsanlegt er, að Noregur, Færeyjar og Ísland skipist í bandalag með ES-ríkjum, er þar svo mikil veiðivon, að hyggilegt er fyrir ES að fara sér hægt í samræmingu á sjávarútvegsmálum og styggja ekki bráðina.
Þegar dauðinn nálgast, fara menn að hugleiða hann. Kalla má til sérfræðinga (sálusorgara), þótt þeir viti ekki meira um aðalatriðið en aðrir. Þannig má samt sætta sig við hlutskiptið. Það gæti verið gott ráð til að venjast tilhugsuninni um aðild Íslands að ES að láta menn sýsla við ýmsar ES-rannsóknir og kynna almenningi niðurstöður. Aðalatriðið skýrist samt ekki við það.
Aðalverkefni utanríKisráðherra næstu mánuði er að fá Alþingi til að staðfesta samninginn um Evrópskt efnahagssvæði (EES) og breyta lögum í samræmi við hann. Þeir, sem eru andvígir aðild að EES, munu flestir telja aðild að ES enn verri kost. Með umræðu um rannsókn á áhrifum ES-aðildar, beinist athyglin frá EES-samningnum, sem er á dagskrá. Það er viðbúið, að andstæðingar aðildar að ES snúist gegn utanríkisráðherra og geri tillögu hans um rannsókn tilefni til umræðu um aðild að ES. Á meðan á slíkum deilum stendur er ekki víst að tekið verði eins vel eftir því, að sumir, sem andmæla hugmynd ráðherra um að rannsaka ES-aðild sem hugsanlegan kost, eru á meðan að greiða fyrir því máli, sem ráðherra varðar mestu á líðandi stund, staðfestingu Alþingis á EES-samningnum. Sú athygli sem tillaga hans um rannsóknina kann að valda kann því að auðvelda honum það sem er aðalviðfangsefni hans um þessar mundir.
Þeir sem hafa haft hug á ES-aðild gera vitaskuld ekki tillögu um að sækja um aðild, meðan verið er að fjalla um stærsta áfangann á þeirri leið, EES-samninginn. Alþingismaður, sem metur einstakt ákvæði þeirra laga, sem verður að breyta í samræmi við hann, veit, að um ófyrirsjáalega framtíð getur Alþingi ekki hróflað þar við stafkrók. Hins vegar getur ES í Brüssel breytt slíkum lögum að eigin vild.
Hvað verður ætlaður mikill tími til að athuga samninginn? Hann er umfangsmesta mál, sem lagt hefur verið fyrir Alþingi. Nú gætu lýðræðisflokkarnir tekið höndum saman og sannað hollustu sína við hugsjón lýðræðisins með því að afgreiða samninginn ekki fyrr en eftir nýjar þingkosningar. Það er iðulega gert, að mál eru lögð fyrir Alþingi til kynningar, þótt ekki standi til að afgreiða þau fyrr en á næsta þingi. Með því móti fengi almenningur tækifæri til að ganga úr skugga um, hversu vel hver frambjóðandi hefði athugað hann.
Vísi 2. apríl 1992