Heil og sæl,

ég minnist orða háskólakennara í lögum um miðjan janúar, að það hefði orðið skrýtið að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um lög um samning, sem ekki var lengur til. Nú, þremur og hálfum mánuði síðar, þegar stendur fyrir dyrum að staðfesta með lögum EES-samning, sem í þetta sinn er til, vaknaði með mér sú spurning, hverjir kunni að vera andvígir því af umhyggju fyrir virðingu embættis forseta landsins, að hann leggi staðfestingu laganna fyrir þjóðina. Þingmenn, sem kynnu að telja forseta í slíkum vanda, geta brugðist við því með því að standa að því að setja í EES-lögin, að þau taki því aðeins gildi, að þau hafi verið samþykkt með þjóðaratkvæði innan ákveðins tíma.

Það var boðskapur þinn 13. janúar s.l., að ekki mætti spilla forsetaembættinu sem tákni sameinaðrar þjóðar og þess yrði best gætt með því að staðfesta EES-lögin. Viðbrögð almennings við söfnun undirskrifta, sem nú fer fram, undir yfirlýsingu og ósk til forseta Íslands um að leggja lögin um endanlegan EES-samning fyrir þjóðina samkvæmt heimild stjórnarskrárinnar, með áherslu á, að þar sé réttur, sem ekki megi taka frá þjóðinni, sýna, að það varð ekki til að styrkja embættið sem tákn sameinaðrar þjóðar að leyfa þjóðinni ekki að ráða EES-málinu. Margir tjá það, hvað þeim þótti niðurlægjandi, að hvorki Alþingi né forseti Íslands skyldu leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um málið.

Eins og aðrar undirskriftasafnanir er þessi söfnun annmörkum háð. Ýmsir vilja aldrei taka þátt í slíku. Undirskriftatalan segir ekki, hvort nokkur sé á öndverðri skoðun. Undirskriftasöfnun er ekki leynileg. Með réttu eða röngu eru ýmsir varir um sig af ótta við, að þeir gjaldi þess hjá vinnuveitanda sínum að sinna málinu. Fólk sinnir ekki máli, nema það telji líklegt, að tekið verði tillit til skoðunar þess. Margir, sem gengu fram í því í fyrra að senda áskorun til Alþingis um þjóðaratkvæðagreiðslu, eru sárir og hafa ekki geð í sér að sinna málinu nú, þótt þeir eigi sömu ósk.

Þeir eru ef til vill flestir, sem eiga með sér þá ósk, að þú leggir málið fyrir þjóðina, en telja ekki til neins að bera hana fram við þig eftir það, sem á undan er gengið. Í sjónarmiði þínu um að gæta virðingar forsetaembættisins, sem er vitaskuld fremsta skylda forseta, felst að sjálfsögðu að meta, hvað almenningur telur rétt og skylt að gera. Umræður um málið síðan í janúar hafa styrkt þá skoðun, sem lesa má á undirskriftablaðinu, að forsetaembættið skuli m.a. mótast með virðingu fyrir rétti þjóðarinnar til að ráða örlagaríkustu málum til lykta með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Undirskriftasöfnunin hefði ekki hafist, nema af því að þeir, sem að henni stóðu, trúðu því, að forseta landsins væri ljúft að taka tillit til álits almennings. Þeir reynast hins vegar býsna margir, sem ekki eru sannfærðir um það. Ég vænti þess, að þér sé kærkomið að lýsa því hér í blaðinu, hvernig þú metir álit almennings í þessu efni, til að eyða óvissu, sem gætir alltof víða. Ef nefnd yrði tala æskilegra undirskrifta eða nauðsynlegra, yrði það kærkomin leiðbeining fyrir þá, sem safna undirskriftum. Viðbrögð almennings hér í Reykjavík og víða um land benda til þess, að talan mætti vera býsna há án þess að vera óyfirstíganleg. Það er ekki mikill tími til stefnu, en stjórnarskráin gerir þó ráð fyrir því, að dragast megi allt að tveimur vikum að staðfesta lög.

Önnur aðferð til að kanna hug almennings er úrtaksskoðanakönnun. Með henni gæfist tækifæri til að spyrja samtímis, hvort viðkomandi vildi að forseti Íslands legði lögin fyrir þjóðina til staðfestingar eða hvort viðkomandi væri andvígur því.

Morgunblaðinu 29. apríl, 1992