Það er eitt meginatriði hugmyndarinnar um evrópskt efnahagssvæði (EES), að verðlags- og samkeppnismálum sé háttað eins í öllum ríkjum svæðisins. Samkvæmt samningsuppkastinu um EES verða þau mál alfarið á valdi Evrópska samfélagsins (ES). Þar gildir mikilvægt ákvæði þess efnis, að fyrirtæki megi ekki verða markaðsráðandi á sínu svæði. Samkvæmt því mætti búast við, að starfsemi Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna (SH) yrði kærð.

Athyglisvert er, að áhrifamenn meðal þeirra, sem unnið hafa að EES-málinu fyrir Íslands hönd, hafa viljað veikja sölusamtök sjávarútvegsins. EES-aðild kann að gera þarflítið að rökræða við þá mikilvægi samtakanna, þar sem það yrði þá á valdi ríkjasamfélags, sem Ísland er ekki aðili að, að brjóta þau upp. Á vegum EES er þetta ekki sjávarútvegsmál, heldur almennt viðskiptamál.

Hvernig stendur á því, að leitað er staðfestingar á samningi, sem getur lamað sölusamtök íslensks sjávarútvegs? Ríkisstjórnin hefur skýrt kosti EES-aðildar með því, að þar gefist tækifæri til að greiða fyrir sölu sjávarafurða. Viðskiptaráðherra sagði í erindi í Samvinnuháskólanum 23. mars sl., að fulltrúar ES hefðu gert íslendingum það fullljóst á undanförnum árum, að frekari tvíhliða samningar, þar sem ES gengi til móts við helstu viðskiptakröfur íslendinga, hlytu að fela í sér einhliða fiskveiðiheimildir ES hér við land. EES-samningunum lauk þá reyndar líka með því, að íslendingar létu af hendi fiskveiðiheimild við ES.

Komið hefur fram, að fulltrúar Íslands hafa aldrei léð máls á því að láta fiskveiðiheimildir í té í sambandi við viðskiptasamninga fyrr en í EES-samningunum. Var ekki fleira sem áður hefði mátt bjóða ES til að greiða fyrir tvíhliða samningi um niðurfellingu tolla og nú felst í EES-uppkastinu? Hefði ekki mátt bjóða ES vald um skipulag útflutnings íslenskra sjávarafurða, eins og felst í því að falla undir ES-reglur um samkeppni”? Hverju hefði það breytt afstöðu ES til viðskiptakjara íslendinga, ef þeir hefðu beðið ES leyfis til að halda áfram að hafa stjórn á framboði sínu á síld, saltfiski og óunnum fiski? Slíkt kann að verða háð leyfi ES við EES-aðild. Íslendingar hafa nú tök á þessum málum (í leyfisleysi!) samkvæmt lögum um Síldarútvegsnefnd, með því að veita SÍF einkaleyfi til útflutnings á saltfiski (sem reyndar hefur verið brugðið frá sem stendur) og með aflamiðlun á óunnum þorski, ýsu, ufsa og karfa. Ennfremur má spyrja hvort ekki hefði mátt bjóða að leggja breytingar á miklum hluta íslenskra laga á vald ES, eins og felst í EES-uppkastinu, gegn betri viðskiptakjörum?

Svo mikið er víst, að hefðu fulltrúar Íslands fyrir daga EES-málsins boðið eitthvað slíkt í samningum um tolla á íslenskar sjávarafurðir, hefðu þeir verið leystir snarlega frá störfum. Hvers vegna tókst að fá þessar ívilnanir fyrir fiskútflutning tengdar EES-uppkastinu? Sáu ES-menn, að framangreint skilyrði þeirra um einhliða fiskveiðiheimildir til ES horfði öðru vísi við í bráð og lengd með þá ríkisstjórn sem lauk málinu? Þá var kominn í forsæti maður sem hafði sem formaður stefnuskrárnefndar flokks síns talið það álitlegt hlutskipti Íslendinga að vera í ES um aldamótin. Eftir að hann hafði sett það álit fram var hann kosinn formaður flokksins og skömmu síðar var hann orðinn forsætisráðherra. Formaður sjávarútvegsnefndar sama flokks hefur lýst því opinberlega að hann gjaldi ekki varhug við þátttöku erlendra fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi. Eftir að hann hafði lýst þessu var hann endurkosinn formaður nefndarinnar. Það hlýtur að vera metið svo í Brüssel, Bonn, París og Madrid, að með slíka forystu stefni allt í það að Ísland fullnægi áðurnefndu skilyrði um einhliða fiskveiðiheimildir handa ES-skipum fyrr eða síðar og því hafi þótt ástæða til að koma til móts við Íslendinga. (Sendiráðin hér hafa það verkefni að þýða yfirlýsingar íslenskra áhrifamanna. Þannig berast þær til vitundar þeirra sem um þessi mál fjalla ytra).

Áður var vitað að forystu íslenskra jafnaðarmanna þætti ES-aðild ekki fráleitur kostur. Þeim höfðu verið falin utanríkisviðskiptamál í tveimur síðustu ríkisstjórnum, þótt skipt væri um aðra stjórnarflokka. Ytra hlaut það að vera skilið sem viðurkenning á því að þeir sem réðu á Íslandi stefndu að aðild, þótt þeir hefðu ekki enn sem komið væri haft ástæðu til að ganga lengra en með þeim undirbúningi að fela utanríkisviðskiptin þeim sem voru áhugasamastir í þessum efnum.

Hvernig stendur á því, að áðurnefndir skilmálar til íslendinga í sambandi við bætt tollakjör hjá ES, sem hefðu þótt fáránlegir, hefðu íslendingar átt frumkvæði að slíku, þykja nú eðlilegir?

Það er þversögn í ákvæðum EES-uppkastsins um sjávarútveg og fiskvinnslu á Íslandi og samkeppnisreglum ES sem gilda eiga í EES. Samkvæmt uppkastinu er rétturinn til fiskveiða og fiskvinnslu hér á landi einskorðaður við íslensk fyrirtæki. Þar sem hann er einskorðaður þannig, hljóta öflug sölusamtök íslenskra fiskvinnslufyrirtækja að verða markaðsráðandi á Íslandi. Sölusamtökin eru enginn risi á mælikvarða Bretlands og Þýskalands. Slík samtök eru leyfileg í ES samkvæmt samkeppnisreglum þar, ef þau verða ekki ráðandi á sínu svæði. Með aðild að EES kynni það að verða háð framandi öflum hvort íslenskur sjávarútvegur fengi að beita afli samtaka til að stjórna framboði afurða og sjá um afurðasölu.

Vísi 18. maí 1992, Austra 21. maí, Degi 28. maí