Í Tímanum  10. þ.m. er þetta haft eftir Steingrími Hermannssyni í inngangi frásagnar blaðsins („Stjórnarskráin toguð og teygð“): „Í samningunum um EES felist valdaafsal, sem íslenska stjórnarskráin heimili með einföldum meirihluta á Alþingi.“

Þetta er endurtekið síðar í frásögninni með beinum orðum Steingríms, þar sem hann greinir frá hverju lögfræðingar utanríkisráðherra hefðu svarað spurningu hans um, hvernig ákveðið væri í stjórnarskrá norðmanna um valdaafsal, og þeir bætt við: „[…] hins vegar heimilaði stjórnarskráin þetta valdaafsal með einföldum meirihluta Alþingis.“

Hér er frásögnin eitthvað naum.  Breytingu á stjórnarskránni, sem meðal annars getur falið í sér framsal á valdi, má vissulega gera með einföldum meirihluta Alþingis, en það er þó ekki svo einfalt, því að eftir að Alþingi (einfaldur meirihluti) hefur samþykkt slíka breytingu, er þing rofið og nýtt þing (einfaldur meirihluti) þarf að endurtaka samþykktina.

Ég leyfi mér að óska svars frá blaðamanninum (BS) eða Steingrími um það, hvort viðbót mín er rétt.

Tímanum 31. júlí 1992