Það er ágreiningslaust í Noregi, að í EES-samningnum felist framsal á valdi.  Þannig lítur utanríkisráðuneytið í Osló á það og allir málsmetandi lögfræðingar.  Enginn þingmaður hefur vefengt það álit svo vitað sé.

Um þetta er hins vegar ágreiningur hér á landi.  Ýmsir málsmetandi lögfræðingar líta eins á og Norðmenn.  Því verði að breyta stjórnarskrárákvæðum til að staðfesta megi samninginn.  Fjórir lögfræðingar utanríkisráðherra í Reykjavík eru annarrar skoðunar.  Það vekur undrun, að þeir hafi aðra skoðun á þessu en einróma sveit norskra lögfræðinga, þar eð íslenskt réttarfar og norskt sé náskylt.  Við nánari skoðun er afstaða lögfræðinga utanríkisráðherra ekki á allan hátt undarleg.  Þeir koma nefnilega fram í mjög venjulegu hlutverki málflutningsmanns.

Það er algengt hlutverk lögfræðinga, hvort heldur þeir starfa hjá stjórnvöldum, við dómstóla eða málfærslu, að túlka lög með tilliti til breyttra ástæðna frá því lögin voru sett.  Gagnvart þeim, sem ekki getur breytt lögunum, er það réttlátt.  Það er að vísu svo, að Alþingi færir frá sér vald í hendur stjórnvalds og dómsvalds með því að vanrækja að endursemja lög í samræmi við breytt viðhorf.  Ef túlkun stjórnvalds og dómsvalds þykir ekki viðunandi, getur Alþingi vitaskuld brugðist við með lagabreytingu, en hvað sem því líður má slík vanræksla ekki bitna á þeim, sem ekki getur breytt lögum að eigin vilja.

Utanríkisráðherra, skjólstæðingur lögfræðinganna fjögurra, var kominn í þá aðstöðu, að ákvæði stjórnarskrár voru talin geta staðið í vegi fyrir honum.  Þeir beita þeim málflutningi, sem þeir eru vanir vegna annarra skjólstæðinga, og túlka gamlan texta (stjórnarskrána) í samræmi við aðra tíma og halda því til að mynda fram, að ríkishugtakið sé breytt, að stjórnvöld kunni vel að merkja annað en íslensk stjórnvöld og leggja dóm á, hvort ákvæði séu íþyngjandi.

Þrír lögfræðinganna eru vegna stöðu sinnar í óeðlilegu hlutverki í þessu máli.  Það er ekki viðeigandi, að æðsti dómari stundi málfærslu fyrir stjórnvöld gegn þeim almenningsrétti, sem felst í stjórnarskrárákvæðum og hemja Alþingi með því, að kosið skuli til þings, áður en Alþingi staðfestir breytingu á stjórnarskrá.  Með slíku starfi er ekki nógu vel skilið á milli dómsvalds og framkvæmdavalds, eins og menn hafa einmitt verið að leggja sig fram við í sumar.  Enn óeðlilegra verður það, þegar þess er gætt, að meðal þeirra, sem viljað hafa koma Íslandi undir vestur-evrópska stjórn, en það felst í EES-samningnum, hefur verið fremstur í þrjá áratugi föðurbróðir dómarans, en eiginkona hans hefur djarflegast mælt með því máli á Alþingi.S — Það fer ekki heldur vel á því, að fulltrúar lagadeildar Háskóla Íslands, annarrar stofnunar, sem á að vera óháð öllu veraldlegu valdi í hugsun, skuli taka að sér málflutning fyrir framkvæmdavaldið í svo mikilvægu máli.

Á sama hátt og óbreyttur þegn, sem verður að lúta lögum landsins og getur ekki breytt þeim, þótt úrelt kunni að vera, á rétt á túlkun löglærðra á lögum í samræmi við líðandi stund, þarf utanríkisráðherra á aðstoð löglærðra til að túlka stjórnarskrána, sem ekki er á valdi hans að breyta.  Öðru máli gegnir um sjálft Alþingi, þegar málið verður lagt þar fram.  Það hefur á valdi sínu að fella stjórnarskrána að breyttum skilningi að gefnu tilefni, svo sem að ákveða nýja merkingu orða eins og ríki, stjórnvöld og samningur við erlend ríki.  Það gerist með samþykkt Alþingis, þingrofi og endurtekinni samþykkt Alþingis.

Vísi 10. ágúst 1992