Í ritstjórnargrein Tímans 11. f. m.  („Óvissunni verði eytt") eru eftirfarandi orð í tilefni af álitsgerð fjögurra lögfræðinga utanríkisráðherra um stjórnarskrána og EES-samninginn: „Það er mjög umdeilanlegt, svo ekki sé meira sagt, hvort heimila á valdaafsal til erlendra aðila með einföldum meirihluta á Alþingi.  Það verður að minnsta kosti að vera skýrt skilgreint hversu mikið það valdaafsal má vera.  Norðmenn eru með ákvæði í sinni stjórnarskrá um aukinn meirihluta í tilfellum sem þessum."

Ríkisstjórnir Íslands og Noregs taka ólíkt á samningsuppkastinu um EES með tilliti til stjórnarskrár landanna.  Í upphafi stafar það ekki af mismunandi stjórnarskrárákvæðum, heldur af mismunandi mati lögfræðinga ríkisstjórnanna á því hvort í samningnum felist framsal á valdi.  Það er ágreiningslaust í Noregi, að svo sé.  Þannig lítur norska stjórnin á það og allir málsmetandi lögfræðingar.  Það er fyrst að fengnu slíku áliti, að reynir á sérnorskt stjórnarskrárákvæði um meðferð mála sem fela í sér framsal á valdi til alþjóðlegra stofnana.

Ef það álit lögfræðinga utanríkisráðherra, að ekki felist framsal á valdi í EES-samningnum, yrði tekið gilt, breytti það engu um meðferð málsins hér, þótt sams konar ákvæði væri í íslensku stjórnarskránni og taka á tillit til í Noregi.

Nú er íslensk og norsk stjórnskipun svo lík, að það mætti vekja undrun, að lögfræðingar utanríkisráðherra í Reykjavík hafi aðra skoðun á því hvort um framsal á valdi sé að ræða en einróma sveit norskra lögfræðinga.  Við nánari íhugun er afstaða lögfræðinga utanríkisráðherra ekki á allan hátt undarleg; þeir koma nefnilega fram í mjög venjulegu hlutverki málfærslumanns.

Það er algengt hlutverk lögfræðinga, hvort heldur þeir starfa hjá stjórnvöldum, við dómstóla eða málfærslu, að túlka lög með tilliti til breyttra ástæðna frá því lögin voru sett.  Gagnvart þeim sem ekki getur breytt lögunum er það réttlátt.  Lögfræðingar eru þá að bæta fyrir vanrækslu Alþingis að endursemja lög í samræmi við breytt viðhorf.  Ef túlkun stjórnvalds og dómsvalds þykir ekki viðunandi, getur Alþingi vitaskuld brugðist við með lagabreytingu, en hvað sem því líður má vanrækslan ekki bitna á þeim sem ekki getur breytt lögum að eigin vilja.

Svo var komið fyrir utanríkisráðherra, skjólstæðingi lögfræðinganna fjögurra, að stjórnarskrárákvæði voru talin geta staðið í vegi fyrir honum.  Þeir beita þeim málflutningi, sem þeir eru vanir vegna annarra skjólstæðinga, og túlka gamlan texta (stjórnarskrána) í samræmi við nýja tíma og halda því til að mynda fram, að ríkishugtakið sé breytt, að vel kunni stjórnvöld að merkja annað en íslensk stjórnvöld, og leggja dóm á hvort ákvæði séu íþyngjandi.

Á sama hátt og óbreyttur þegn, sem verður að lúta lögum landsins og getur ekki breytt þeim, þótt úrelt kunni að vera, á rétt á túlkun löglærðra á lögum í samræmi við líðandi stund, þarf utanríkisráðherra á aðstoð löglærðra til að túlka stjórnarskrána, sem ekki er á valdi hans að breyta.  Öðru máli gegnir um sjálft Alþingi, þegar málið verður lagt þar fram.  Það hefur á valdi sínu að breyta stjórnarskránni, svo sem að fella hana að breyttum viðhorfum að gefnu tilefni með nýrri merkingu orða eins og ríki, stjórnvöld og samningur við erlend ríki (sbr. bls. 43-4 í bók minni Hjáríki).  Það gerist með samþykkt Alþingis, þingrofi og endurtekinni samþykkt Alþingis.

Tímanum 12. ágúst 1992