Fyrir Alþingi liggur nú fjöldi stjórnarfrumvarpa í tilefni af EES-samningnum.  Þingmaður sem styður staðfestingu samningsins verður að samþykkja hvað eina sem í þessum frumvörpum felst hvað sem honum kynni annars um að þykja.

Nú er hugsanlegt, að EES-samningurinn verði felldur í einhverju EFTA-ríki.  Líklegust eru þrjú þeirra, sem eiga nokkra sérstöðu um auð og ágæti, Ísland, Noregur og Sviss.  Þá fellur samningurinn í heild, þar sem hann er háður samstöðu EFTA-ríkjanna.  Þá er líka horfin áðurnefnd ástæða, sem þvingaði stuðningsmenn EES-aðildar til að fallast á ákvæði hinna einstöku frumvarpa.  Löggjafarstarfið er því unnið á hæpinni forsendu.

Alþingi getur vitaskuld ekki beðið eftir afgreiðslu málsins í Noregi og Sviss, en hér á landi ætti fyrst að ganga úr skugga um afstöðu til samningsins, áður en farið er að breyta lögum vegna hans.  Áður en lýkur hlýtur samningurinn að verða borinn undir þjóðaratkvæði.  Vinnubrögð Alþingis yrðu best með því að ákveða það sem fyrst.  Ef Alþingi sinnir því ekki, bíður það atbeina forseta Íslands.

Spurt er hvort EES-málið sé ekki of viðamikið til að almenningi sé treystandi til að taka rökstudda afstöðu til málsins.  Í bók minni Hjáríki  rek ég 30 ára sögu málsins, sem er spurningin um að segja Ísland í lög við ríki Vestur-Evrópu.  Niðurstaða mín er sú (bls. 60-61), að allan þennan tíma hafi fyrirliðar þjóðarinnar ekki verið færir um að taka rökstudda afstöðu til málsins.  Þeir hafi alltaf metið rangt stöðu Íslands og framvindu mála í umheiminum.  Fyrst svo er verður almenningur að treysta sjálfum sér.

 

girt fyrir bráðræði Alþingis

Þótt menn telji, að breyta verði stjórnarskránni til að lögleiða megi EES-samninginn, setur það Alþingi ekki stólinn fyrir dyrnar.  Meirihluti Alþingis hefur að sjálfsögðu á valdi sínu að breyta henni, en þá verður hann að haldast eftir þingkosningar til að breytingin verði staðfest.  Þannig er girt fyrir bráðræði Alþingis.

Öðru máli gegnir við stjórnarskrárbreytingar í Noregi.  Þar nægir einfaldur meirihluti ekki, heldur þarf 2/3 atkvæða til að samþykkja breytingu og jafnmikið aukinn meirihluta þarf til að staðfesta hana eftir næstu þingkosningar.  Það girðir vitaskuld enn frekar fyrir bráðarbreytingar og reynir meira á meirihlutann að afla þeim fylgis.

 

Frumleg lögfræði

Það hefur verið mikill siður hér á landi að leita ráða og fyrirmynda á Norðurlöndum.  Ég skal verða manna síðastur til að finna að því, að menn hafni fyrirmyndum á Norðurlöndum, en þangað getur samt verið gott að leita ráða.  Nú stóð svo á í vor, þegar utanríkisráðherra fól fjórum lögfræðingum að meta afstöðu EES-samningsins til stjórnarskrár Íslands, að norska stjórnin þurfti að taka á sama máli.  Þá fór svo, að lögfræðingar utanríkisráðherra kusu ekki auðveldasta kostinn, að sníða álit sitt eftir áliti norsku stjórnarinnar, sem samherjar hans skipa, heldur settu fram andstætt álit.  Slík viðbrögð eru enn sérstæðari fyrir það, að með tilefninu, EES-samningnum, á að fella íslensk mál og norsk mjög í sama far.  Frumleg afstaða fjórmenninganna hlýtur að vekja athygli meðal norrænna lögfræðinga og má verða tilefni merkra umræðna á málþingum þeirra.

Í Noregi hefur ekki orðið mikil umræða um það álit norsku stjórnarinnar, að í EES-samningnum felist framsal á valdi, andstætt áliti íslensku stjórnarinnar.  Þannig stendur á í Noregi, að segja má, þótt andstæðingar EES-aðildar hefðu haft eitthvað við álit stjórnarinnar að athuga, að það hefði ekki bætt stöðu þeirra við afgreiðslu málsins.  Þeir höfðu þegar fengið viðurkennt, að í samningnum felist framsal á valdi og því þurfi aukinn þingmeirihluta (3/4) til að samþykkja hann.

Vísi 1. september 1992