Það er ekki sennilegt að Noregur verði aðili að Evrópska samfélaginu (ES). Hins vegar getur brugðið til beggja vona um staðfestingu alþingis norðmanna á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Þar í landi þarf 3/4 atkvæða á þingi til þess að staðfesta samning um aðild að ES, þar sem í henni felst framsal á valdi til alþjóðlegra samtaka. Aðildarsinnar geta ekki gert sér vonir um slíkt þingfylgi. Þeir stefna því að því að breyta ákvæði stjórnarskrárinnar um 3/4 atkvæða í 2/3, en stjórnarskrárbreyting er tímafrek í Noregi.

Fyrst þarf að leggja fram tillögu um breytingu á fyrsta, öðru eða þriðja þingi eftir kosningar. Þar sem nú er að hefjast fjórða þingið eftir kosningar, getur slík tillaga fyrst komið fram eftir kosningarnar haustið 1993. Hún verður að hljóta 2/3 atkvæða. Síðan þarf að leggja hana fyrir þingið til staðfestingar eftir aðrar kosningar. Það getur fyrst orðið haustið 1997. (Norska stjórnarskráin heimilar ekki þingrof).

Í haust og vetur skipa norsku stjórnmálaflokkarnir framboðslista þingkosninganna haustið 1993. Samtökin gegn aðild Noregs að ES ætla að fá sína menn í öllum flokkum til að leggja tvær spurningar fyrir þá sem hug hafa á framboði. Önnur er um afstöðuna til aðildar Noregs að ES. Þeir sem heita andstöðu gegn henni verða síðan spurðir hvort þeir ætli að standa við þá afstöðu, þótt þjóðaratkvæðagreiðsla leiði í ljós meirihluta með aðild. (Stjórnarskráin leyfir ekki bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu). Þannig á að vinna að því að hver andstöðuþingmaður greiði atkvæði um málið í samræmi við þá afstöðu, sem hann kynnti kjósendum sínum, en ekki í samræmi við afstöðu allt annarra kjósenda sem annað hvort voru í öðru kjördæmi eða kusu aðra einmitt vegna stuðnings síns við aðild.

Það er enginn vandi fyrir andstæðinga aðildar að ES að sjá til þess að ríflegur 1/3 þingmanna á næsta þingi hafi þá afstöðu sem þarf til að hafna breytingunni á þingi. Þetta var leikið fyrir 20 árum. Skoðanakannanir sýna að nú er ríflegur meirihluti kjósenda andvígur aðild að ES.

Ekki gegnir sama máli um stuðning við staðfestingu þingsins á EES-samningnum sem fjalla á um í haust. Það þarf andstöðu 42 þingmanna af 165 til að fella samninginn. Í vor voru 37 taldir vísir. Andstaðan gegn honum er talinn allmiklu meiri meðal almennings. Þannig er þorri kjósenda Kristilega alþýðuflokksins andvígur EES-samningnum, en flokksforystan meðmælt og flestir þingmenn hans. Forystan kann að skipta um skoðun með vísun til tveggja atriða, sem flokkurinn lætur sér annt um og samningurinn breytir, löggjafar um áfengisverslun og laga sem takmarka erfðatækni.

Aðeins örfáir þingmenn Verkamannaflokksins hafa lýst andstöðu við EES-samninginn. Ekki er búist


við nema fáum til viðbótar, þótt andstaða kjósenda flokksins sé nokkru meiri, eftir því sem talið er.

Andstæðingar EES-samningsins hafa talið Framfaraflokkinn jókerinn í þessu spili. Flokkurinn hefur 22 þingmenn, en lýðhyllin hefur dvínað samkvæmt skoðanakönnunum. Honum hefur verið lýst sem flokki hægra megin við Hægri flokkinn. Mikilvægara er að hann skírskotar til þess sem hér var kallað „báknið burt". Nú fer lýðum að verða ljóst að EES-báknið er miklu meira en Óslóar-báknið. Ýmsir þingmenn sem stefna að öruggu sæti á framboðslista að ári gætu því séð leik á borði að snúast nú gegn EES-samningnum til að ávinna sér hylli andstæðinga aðildar að ES. Nýleg krafa allmargra þingmanna Framfaraflokksins um þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn bendir til þess að verulegur hluti flokksins sé ekki lengur jókerinn í spilinu, heldur ætli að leggja sitt af mörkum til að stöðva málið.

DV  22. september 1992