Með samningnum um evrópskt efnahagssvæði á að lögleiða mikilvæg atriði í hagkerfi Evrópska samfélagsins (ES) í EFTA-ríkjunum, þ. á m. Íslandi. Þetta er því þrautreynt hagkerfi og árangurinn ekki eftirsóknarverður íslendingum. Ef tekið er tillit til vandræða íslendinga af aflasamdrætti undanfarin ár, hafa íslendingar ekki verið eftirbátar ES-ríkja í hagvexti.
Atvinnulífið í ES hefur búið við svo vond skilyrði, að það hefur ekki haft efni á að ráða mikinn hluta unga fólksins til starfa. Hér á landi hefur atvinnulífið hins vegar búið við svo góð skilyrði, að þar til nýlega hefur enginn þurft að skrá sig atvinnulausan nema um stundar sakir.
Nú eru breyttir tímar. Núverandi atvinnuleysi hér er aðeins forsmekkur af „eðlilegu“ ástandi ES-ríkja. Á dögunum birtist alloft auglýsing með yfirskriftinniù „Atvinnulífið styður EES“. Þar var þetta fullyrt: „EES færir atvinnulífinu svipuð starfsskilyrði og í nágrannalöndum okkar.“ Það eru vel að merkja starfsskilyrði þar sem margt af ungu fólki fær ekki að vera með.
Íslendingar sætta sig fæstir við atvinnuleysi til handa sér né öðrum. Ég hygg að menn mundu reka sig á það um ýmis úrræði, sem nú eru tillögur um til að draga úr atvinnuleysi, að þau ættu ekki við í hagkerfi ES og stönguðust á við þær reglur sem EES-samningurinn mundi leiða í lög hér á landi. Samningurinn leyfir að vísu ýmis frávik, en þau eru háð því, að íslensk stjórnvöld óski þeirra. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að skynja hvernig þeir, sem nú eru tregir til að beita ýmsum þeim úrræðum, sem tillögur eru um, gætu hagnýtt EES-reglurnar til að þvælast enn meira fyrir aðgerðum. Það „atvinnulíf“ sem styður EES er eitthvað annað en atvinnulíf handa öllum landsmönnum.

Tímanum 22. október 1992