Það var skrýtið, sem ég var að lesa í blaðinu 16. f. m. frá umræðum á Alþingi: „Halldór Ásgrímsson (HÁ) taldi hins vegar fyllstu ástæðu til að vekja athygli á því, að Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra hefði haft um það orð, að það þyrfti að gera breytingar á útflutningsverslun íslendinga vegna EES. Þetta væri sjónarmið, sem hann væri algjörlega ósammála. ... Það væri ótvírætt, að við gætum viðhaldið okkar sölusamtökum með sama hætti og verið hefði. Við værum á engan hátt skuldbundnir til að leggja það kerfi niður.“
Menn hafa veitt því eftirtekt, að HÁ þykir EES nokkuð álitlegur kostur, hugsanlega álitlegri en þorra landsmanna. Skyldi það stafa af því, eins og þarna kemur fram, að hann eigi við annað EES en það EES, sem utanríkisráðuneytið kynnir. Ef EES-in eru eins mörg og alþingismennirnir, verður einhver að skera úr. EES-samningur utanríkisráðherra kveður á um, að þar ráði Brüssel-lög og reglugerðir. Þangað yrði hann að senda menn til að ganga úr skugga um rétt og rangt í þessu efni.
Það gætu orðið mörg mál, sem eins þyrfti með að fara. Þá fjölgaði heldur betur verkefnum í stjórnarráðinu. Þeir, sem nú kallast sendimenn og sendifulltrúar landsins, yrðu þar í sendilstöðu, en varla á sendlalaunum. Þessi ágreiningur má vera vísbending um það stjórnkerfi, sem hljótast mundi af EES-samningnum.
Morgunblaðinu (Bréf til blaðsins), 23. október 1992