Í Evrópska samfélaginu (ES) hefur lengi verið miklu meira atvinnuleysi en Íslendingar hafa kynnst lengi. Í samningnum um EES felst að koma á því efnahagskerfi sem gildir í ES á hverjum tíma. Það er kallað samkeppnisreglur og er kjarni hans. Eftir því sem ég hef hugsað meira um þau áhrif sem þær mundu hafa hér á landi, sýnist mér atvinnuleysið þar ekki vera annað en eðlileg og óhjákvæmileg afleiðing af reglunum. Mér sýnist meira að segja líklegt að reglurnar myndu leiða til enn meira atvinnuleysis hér en er víða ytra, vegna sérstakra ástæðna hér á landi.

Fyrsta ástæðan til aukins atvinnuleysis hér á landi með EES-samningnum er að hann leyfir ekki að verkalýðsfélög bægi útlendingum frá vinnu. Það er nóg að atvinnurekandi vilji ráða fólk til að það geti komið til starfa og það þarf ekki að fara aftur þegar ráðningu er lokið og má taka með sér skyldulið.

Önnur ástæðan til aukins atvinnuleysis er að sjálfstætt starfandi mönnum er heimilt að hefja störf hér. Það þarf ekki marga úr hópi 380 milljóna manna, sem hingað kæmu aðeins af ævintýramennsku til fárra ára dvalar hver, til að þrengja atvinnu íslendinga. Það er eins með þá að þeir geta tekið með sérskyldulið sitt.

Þriðja ástæðan er að samkeppnisreglurnar taka fyrir að gripið sé til sértækra ráðstafana til að koma hjólum atvinnulífsins á stað. Íslendingar þekkja það af reynslu að opinberar aðgerðir geta verið eina ráðið til þess. Því veldur hvað mörg atvinnusvæði eru smá og áföllin því harkalegri en þar sem atvinnurekstur stendur víða fótum. Um slíkar sértækar aðgerðir er gjarna ágreiningur. Þeir sem eru þeim andvígir fá með samkeppnisreglunum tækifæri til að bregða fæti fyrir slíkar ráðstafanir með því að kæra þær.

Það slævir vitaskuld framtak og áhuga, ef fólk sér fram á að úrræði í atvinnumálum eru ekki beint í þágu þess, heldur fyrir hvern sem er úr þjóðahafi meginlandsins. Hver er sjálfum sérnæstur. Þetta er fjórða ástæðan til atvinnuleysis í efnahagskerfi EES.

Þá er að nefna atvinnu sem fylgir þjónustu hins opinbera. Almenningur mun sætta sig ver við að greiða skatta til slíkrar þjónustu, ef fólk fær á tilfinninguna að talsvert af því fé fari til útlendinga sem það finnur ekki til samkenndar með. Þá fá þeir sem alltaf hafa viljað draga úr slíkri þjónustu aukinn styrk á Alþingi og í sveitarstjórnum og atvinna við hana minnkar. Þetta er fimmta ástæðan til þess að EES-kerfið mundi auka á atvinnuleysi hér á landi.

Tímanum 3. nóvember 1992