Fólk þykist ýmsu vant með loforð stjórnmálamanna. Ég ætla mér ekki að hreinsa þá af slíkum áburði. Athugum samt að loforð geta verið af ýmsu tagi. Eitt er að heita því að vinna að markmiði, en annað að lofa því að standa ekki að máli nema að fullnægðu skilyrði.
Þegar kosið var til þings, var staðan sú í EES-málinu, að tveir flokkar, sem fengu kosna fulltrúa, lýstu skilyrðislausri afstöðu. Alþýðuflokkurinn vildi aðild Íslands að málinu og setti ekki skilyrði fyrir henni, en lýsti því hverju keppa bæri að. Kvennalistinn lýsti skilyrðislaust andstöðu við samninginn.
Þrír flokkar settu skilyrði fyrir samþykki við samninginn. Skilyrði landsfundar Sjálfstæðisflokksins var að frjáls verslun fengist með sjávarafurðir. Ekki tókst að fullnægja því skilyrði. Slíkri verslun hafði skömmu áður verið komið á í Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA). Framsóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið settu fleiri skilyrði. Ókunnugur getur ekki dæmt um það, hversu fast því var fylgt eftir að fá fullnægt skilyrðunum sem flokkarnir þrír settu. EES-málið var haft í höndum manna sem ekki voru bundnir við nein skilyrði fyrir hönd síns flokks.
Það getur þótt virðingarvert að menn skipti um skoðun með fullum rökum. Ef þeir starfa fyrir aðra og telja sig samviskunnar vegna ekki geta fylgt málum eins og ráð var fyrir gert, ætti samviskan líka að segja þeim að segja af sér því umboði sem þeir fengu með forsendum sem ekki eiga lengur við.
Þeir, sem ekki vilja standa við skilyrði flokka sinna í EES-málinu, komast ekki undan ábyrgð með því að taka ekki afstöðu. Ef afstöðuleysið ræður niðurstöðu málsins, bera þeir fulla pólitíska ábyrgð á því.
Degi 16. desember 1992