Vikublaðið 29. f. m. hafði þau góðu tíðindi að segja frá Dalvík, að þar hefði tekist að verulegu leyti að vinna upp minnkandi afla með smápakkavinnslu, en þá fer fiskurinn í frystiborð matvöruverslana erlendis án frekari vinnslu. Ennfremur var sagt frá því, að eigandi frystihússins, KEA, ásamt Dalvíkurbæ, hefði lagt nokkurt fé í athugun á arðsemi þess að reisa fiskréttaverksmiðju á Dalvík. Væri hugmyndin að vinna fiskinn enn meira, jafnvel forsteikja hann og velta honum upp úr brauðmylsnu eða sósum. Tekið var fram, að ein aðalforsenda þess, að slík verksmiðja verði reist, væri aðild Íslands að EES-samningnum, þar sem með honum lækkaði tollur á slíkum fiskréttum úr 10% í 3%.
Blaðamaður getur ýmist verið í því hlutverki að leggja mál fram, eins og aðili málsins ætlast til, eða þannig að lesendur fái að vita ýmislegt, sem málsaðili skýrir ekki að fyrra bragði. Frásögn blaðsins svarar ekki ýmsu, sem ég vildi vita um málatilbúnað KEA-manna. Koma ekki til greina aðrir réttir, sem eru nú þegar tollfrjálsir og eru tilbúnir í pott eða ofn í eldhúsi? Réttir úr því efni, sem að framan er lýst, bera ekki toll, ef látið er vera að forsteikja þá. Arðurinn við slíka framleiðslu er því ekki háður samningi um bætt viðskiptakjör, hverju nafni sem hann kynni að nefnast. Fyrst ekki borgar sig að framleiða forsteiktan rétt, sem ber 10% toll, hefði ég viljað vita, hversu mjótt er á munum. Hvað er áætlað, að arðurinn verði mikill, ef hann ber 5% toll eða engan toll?
Hvenær skyldi KEA hafa farið að leggja fé og vinnu í undirbúning þessarar framleiðslu, sem er sögð háð samþykki samnings, sem lengi hefur verið tvísýnt um? Blaðið lætur skoðun frystihússtjórans, um að tollalækkun fáist aðeins með því að Ísland gerist aðili að EES-samningnum, standa athugasemdalaust sem staðreynd. Það er m. a. um það, sem deilan um EES-samninginn stendur, að það hafi ekki verið heppilegt ráð til samninga um bætt viðskiptakjör að hengja sig á annað mál, samning um efnahagssvæði, sem er önnur orð um samning um að fella stjórn efnahagsmála EFTA-ríkjanna undir Brüssel.
Að þessu athuguðu verður að telja, að við kynningu þessa merka máls í Vikublaðinu hafi ekki birst blaðamennskukunnátta, eins og gagnrýnir lesendur ætlast til.
Vikublaðinu 7. janúar 1993