Skoðanir íslenskra og norskra ráðamanna stangast á um framsal valds í EES-samningnum. Í álitsgerð norsku ríkisstjórnarinnar vegna staðfestingar á samningnum (Stortingsproposison nr. 100 1991-92) er því afdráttarlaust haldið fram, að EES-samningurinn varði 93. grein stjórnarskrárinnar, sem fjallar um framsal á valdi til alþjóðlegrasamtaka, sem Noregur er aðili að. Tvær tilvitnanir sýna þetta.

1) Á bls. 100: „Grein 110 geymir reglur um fullnustu í EES-ríkjum vegna ákvarðana eftirlitsstofnunar EFTA eða framkvæmdastjórnar Evrópska samfélagsins (ES) og beinast að öðrum lögaðilum en ríkjum. Slíkar ákvarðanir skulu sjálfar mynda sjálfstæða fullnustuástæðu. Hið sama á við samsvarandi samþykktir EFTA-dómstólsins og ES-dómstólanna. [...] Í þessu felst að vald er fært undir alþjóðleg samtök og það getur aðeins gerst samkvæmt 93. grein stjórnarskrárinnar.“

2) Á bls. 327: „Eftirlit með samkeppnisreglunum: [...] Á samkeppnissviðinu eru reglur samningsins framkvæmdar beint gagnvart fyrirtækjunum. Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn ES munu í slíkum málum geta beitt reglum samningsins beint gagnvart fyrirtækjunum. Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn ES munu í slíkum málum geta lagt sektir á fyrirtækin og krafist þeirra, ef þau starfa gegn samkeppnisreglum EES. Í þessu felst framsal á valdi, sem er eðlilega hjá norskum stjórnvöldum, til alþjóðlegrar stofnunar.“

Samkvæmt áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis í haust var nefndinni ekki kunnugt um þetta mat norsku ríkisstjórnarinnar.

Stjórnarskrár Íslands og Noregs eru í aðalatriðum líkar um það, hvernig valdi er skipað, en það líkt, að í Noregi er mælt fyrir um sérstaka aðferð (samþykkt þingsins með 3/4 atkvæða), ef færa skal vald til alþjóðlegra samtaka, sem Noregur er aðili að. Hér á landi er hins vegar aðeins ein aðferð til að skipa valdi öðru vísi en stjórnarskráin mælir fyrir um.

Ríkisstjórn Noregs studdist í greinargerð sinni að nokkru leyti við álit Torsteins Eckhoffs prófessors í stjórnarfarsrétti í Osló. Álit lögfræðinga íslensku ríkisstjórnarinnar frá í fyrrasumar, að vafi léki á því, að um framsal á valdi væri að ræða, er honum undrunarefni; það hefur komið fram í samtölum mínum við hann. Nú meðan fjallað er um endanlegan EES-samning, er full ástæða fyrir Alþingi að athuga betur ráð sitt með því m.a. að bera bækur sínar saman við bækur norsku ríkisstjórnarinnar í þessu efni.

 

Nauðsyn brýtur lög

Lögfræðingar ríkisstjórnarinnar bentu á, ef svo reyndist, að EES-samningurinn stæðist ekki grundvallarlög, að þá yrði að breyta þeim. Það var tekið gilt. Grandvar maður lætur ekki bjóða sér slíka ábendingu frá lögfræðingi vegna ráðagerða sinna. Hann veit, að aðrir fara með löggjafarvaldið og að ný lög eyða ekki sök, en hann kynni að vilja vita, hvaða atriði þyrftu að breytast, svo að ráðagerð hans bryti ekki í bága við lög.

Nauðsyn brýtur lög. Almenningur telur EES-samninginn ekki nauðsyn. Síðast þegar leitað var álits almennings í málinu, kváðust 60 af hundraði ósáttir við þá niðurstöðu, sem fékkst 13. janúar með lögfestingu fyrrverandi EES-samnings, en 40 af hundraði sáttir. Að dómi almennings er EES-samningurinn því ekki nauðsyn, sem má brjóta lög.

DV 6. maí 1993